Kornrækt, vinnsla og grasórar

 



Það er hugur í bændum á Suðurlandi sem hyggjast reisa myllu til  vinnslu á höfrum sem þeir rækta.

Fram til þessa hafa þeir orðið að fara þá leið að senda hafrana úr landi til vinnslu, þar sem enginn búnaður er til í landinu til að vinna þá, eigi þeir að fara til manneldis. 

Bændurnir eru búnir að finna myllur í Finnlandi sem þeim líst vel á og þar er búið að hanna eina slíka fyrir þá, sem getur unnið allt að þremur tonnum á klukkustund.

Vegna skorts á tækjabúnaði hafa þeir þurft fram til þessa, að senda hafrana sem þeir rækta til Danmerkur til vinnslu og flytja þá síðan til baka til að geta komið þeim á markað hérlendis.

Ríkisstjórnin hyggst, eftir því sem haft er eftir ráðherra, verja tveimur milljörðum til uppbyggingar kornræktar á næstu fjórum árum(!) og er það vonum seinna sem augu ráðamanna opnast fyrir því að hægt sé að rækta korn í landinu. 

Bændur hafa verið að rækta korn vítt um land og þekkt er að svínabúið í Laxárdal ræktar korn til nota til eldis svínanna og hefur gert um árabil svo aðeins eitt dæmi sé tekið.

Nú er svo að sjá sem augu ráðamanna hafi opnast fyrir búgrein, sem hvorki jarmar né baular, en gefur kraft í bú og gerir kleift að ala dýr á innlendu korni. 

Hvernig það gat gerst verður ekki reynt að útskýra hér.

Lítill sem enginn áhugi hefur virst vera fyrir því starfi sem unnið hefur verið af framsýnum bændum, en hins vegar er frægt að hugmyndir voru uppi og meira að segja hrundið í framkvæmd, um að þurrka gras og breyta í köggla til að gefa fénaði. Trúlega í þeirri trú að við samþjöppunina breyttist það í einhverskonar korn! 

Hvort þeir sem fyrir því stóðu hafa trúaða því að grasið breyttist í kraftmikið kornmeti við hitunina og samþjöppunina verður ekki fullyrt, en svo mikið er víst að byggðar voru graskögglaverksmiðjur vítt um land og sumar standa enn sem minnisvarðar um framsýni ráðamanna fortíðarinnar.

Vonandi sjáum við fram á nýja tíma með dýpri skilningi og að í stað hins lítt eftirsjáanlega grasvinnslubúnaðar komi kornþurrkun og vinnsla svo sem gerist hjá öðrum þjóðum.

Því þótt íslenskt gras sé safaríkt og gott, breytist það ekki í korn, hve mikið sem reynt er að þjappa því saman.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Slagurinn um stólinn og konurnar tvær

  Slagurinn um stólinn og konurnar tvær Í Sjónvarpi allra landsmanna var viðtal við frambjóðanda sem ekki var ráðalaus og virtist einlægur v...