Riða og förgun bústofns

 

            Rétt er að taka fram, að ekki er víst að myndin (sem eru úr Morgunblaðinu), séu af kindum frá bænum sem um er rætt í frétt blaðsins.

Upphaf frásagnar Morgunblaðsins af því að förgunin sé hafin er eftirfarandi:

 Haf­ist var handa við að af­lífa sauðfé frá bæn­um Bergs­stöðum í Vest­ur-Húna­vatns­sýslu í vik­unni en þar var riða staðfest á mánu­dag. „Við höf­um staðið í mikl­um und­ir­bún­ingi og ég var að fá frétt­ir af því að ferlið væri farið af stað,“ seg­ir Sig­ur­borg Daðadótt­ir, yf­ir­dýra­lækn­ir hjá Mat­væla­stofn­un.

Síðan segir, að aflífun hafi hafist og að hún muni fara fram í áföngum, en um er að ræða nærri 700 fjár svo augljóst er, að um mikið verk er að ræða varðandi aflífun, sýnatöku flutning og förgun, þ.e. brennslu. Þegar svona er komið, er líðan þeirra sem fyrir verða ekki góð, eins og geta má nærri. 

Áfallið er mikið og hafa verður í huga að um er að ræða dýr sem fólk getur hafa bundist tilfinningaböndum og alþekkt er, svo dæmi sé tekið, að börnum, þar sem búið er með sauðfé, er oftar en ekki gefin kind, ein eða fleiri og við getum vel ímyndað okkur hve það er sárt fyrir barnið að sjá á eftir kindinni sinni fara með þessum hætti.

Fyrir utan tilfinningatjónið er síðan fjárhagstjónið og þó kemur þar á móti, að sauðfjárbændur eru tryggðir á þann hátt að ríkissjóður grípur inn í með lögbundnum bótum. Hvort þær bætur duga fyrir útlögðum kostnaði og framleiðslutjóni er undirrituðum ekki kunnugt.

Fram hefur komið í fréttum, að sauðfjárveiki- varnargirðing er austan við bæinn og  að handan hennar er þekkt riðusvæði og enn fremur að sú girðing nær frá sjó í norðri og að jökli inn á hálendinu í suðri og einnig að áhöld eru um hvort girðingunni hafi verið haldið nægjanlaga vel við á liðnum árum. Við sem girt höfum fyrir sauðfé vitum að það er ekki einfalt og að kindurnar þurfa ekki stórt gat í girðingu til að komast í gegn.

Undirritaður hefur auk þess, horft á kind stökkva yfir háa og nýlega girðingu með vegi og girðingin sú var gallalaus. Í öðru tilfelli sá hann til kindar sem gerði tilraun til að grafa sig undir sömu girðingu líkt og um hund væri að ræða!

Tilfelli af þessu tagi eru vitanlega undantekningar en eru þó til og af því sést að ekki er einfalt að girða girðingar sem halda svo öruggt sé. 

Augljóst er að takmarka þarf samgang fjár og trúlega er besta lausnin að hætta sumarbeit sauðfjár á hálendi landsins.

Undirritaður varð eitt sinn vitni að maður gerði sig líklegan til að klippa á varnargirðingu til að komast leiðar sinnar. Sá skipti um skoðun eftir nokkur orðaskipti og ekkert varð af slíku í það skiptið.

Mál hafa þróast þannig að fjöldi ferðafólks fer um hálendi landsins, að sumri sem vetri, til að njóta náttúrufegurðar og frelsistilfinningar sem víðáttan býður upp á og af því má sjá, að frjáls sumarbeit sauðfjár gæti verið víkjandi ef svo má segja; arfur frá liðnum tíma sem leggja þarf af öryggisins vegna.

Hvað sem þessum hugleiðingum líður, þarf að hugsa málin að nýju og tryggja með einhverjum hætti að atburðir af þessu tagi heyri fortíðinni til og endurtaki  sig helst alls ekki. 

Það er óheyrilega slítandi að horfa á bústofn sinn fara með þessum hætti, hver sem bústofninn er.

Hugur okkar margra er hjá þeim sem fyrir verða og því lýkur þessum hugleiðingum með góðum óskum til þess fólks sem í hlut á.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...