Þegar áföll verða í búrekstri geta þau verið af ýmsum toga.
Veður getur hamlað uppskeru, snjóalög eyðilagt girðingar, veikindi og slysfarir geta orðið á búfénaði og er þá ekki allt upp talið sem getur valdið, bæði miklu og litlu tjóni.
Skemmst er að minnast veðuráhlaups sem varð á Norðurlandi fyrir nokkrum árum og olli því m.a., að jafnvel hross fenntu í kaf og sum þeirra drápust.
Tjón getur einnig orðið vegna sjúkdóma í búfénaði, sjúkdóma sem geta valdið því að skera þarf niður heilu hjarðirnar.
Þar getur verið um að ræða t.d. það sem mest hefur verið rætt um að undanförnu, þ.e. riðu í sauðfé, en fleira getur komið til eins og bakteríusmit sem getur orðið til þess að farga þarf stórum hjörðum.
Síðast þegar bloggari vissi, giltu ákveðnar reglur um bætur úr ríkissjóði, til sauðfjárbænda vegna niðurskurðar vegna riðu.
Við sjáum samt að bændur sem þurft hafa að skera niður, eru óhressir með það sem þeir fá til að bæta skaðann, en um það gilda þó ákveðnar reglur eins og fyrr sagði.
Áður var til svokallaður ,,Bjargráðasjóður" og enn mun hann enn vera til að nafninu til að minnsta kosti.
Að mati þess sem þetta ritar var það óheillaskref að láta sjóðinn verslast upp í stað þess að efla hann.
Af því ráðslagi - að hann var látinn verslast upp - erum menn að súpa seið sem ekki hefði þurft að gera og því þarf að endurlífga sjóðinn og styrkja með framlögum frá búgreinunum sem stundaðar eru, en líka með tillagi frá ríkissjóði.
Matvælaframleiðsla er hverri þjóð nauðsynleg og matvælaframleiðsluþjóðin íslenska, ætti ekki að vera í miklum vanda varðandi það, að skilja þau sannindi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli