Tveir deila, en samið við annan þeirra

 Árum saman hafa tilgangslaus átök með eyðileggingu og manndrápum verið á svæðinu sem barist er um, í stríðinu sem er milli Rússlands og Úkraínu.

2023-08-01 (15)Í frásögninni hér til hliðar, er sagt frá því að sex hafi látið lífið í átökunum sem ekkert lát virðist vera á.

Fátt er gert til að stilla til friðar, nema síður sé, og minnast má framtaks íslenskra stjórnmálamanna - og konur eru líka menn svo það fari nú ekki á milli mála -, sem hafa gert sitt til að blása í glæður ófriðarins og líklega talið það sér til framdráttar, að espa frekar og egna, en að sína getu sína í að reyna að stilla til friðar.

Gjafir á ullarfatnaði til þurfandi fólks er gott framtak, en lokun sendiráða er það ekki, svo dæmi sé tekið. Fátt eitt kemur út úr hurðaskellum annað en hávaðinn, þegar deilt er, eins og flestum mun vera kunnugt.

Ísland hefur glatað tækifærinu til að bera klæði á vopnin, glatað trausti og skipað sér í hóp þeirra þjóða sem minnst hafa fram að færa.

Sýndarmennskan ein hefur ráðið ríkjum og rökhugsun hefur vikið fyrir tilfinningaofsa og mikilmennskutilburðum.

Ekki er öll nótt úti enn, samt sem áður og þegar svo virðist sem fokið sé í flest skjól, reynist enn vera von.

Tilraunirnar til friðar, koma langt að og lengra en margir áttu von á, eða alla leið frá Afríku og hver hefði átt von á því og vonandi fer þá áralöngum hernaði gagnvart Donbas að ljúka. Það er löngu komið nóg og þó fyrr hefði verið.

Afríkumennirnir telja að betra sé að semja um deilur, en að berjast til þrautar í von um að ná sínu fram.

Bragð er að þá barnið finnur, segir íslenskt máltæki og sannarlega er það úr óvæntri átt, að friðartilraunir komi þaðan, en litlu verður vöggur feginn - svo haldið sé áfram að vitna í íslensk orðtök - og því vonum við flest, að gott eitt komi út úr hugmyndum afrísku stjórnmálamannanna.

Það er löngu kominn tími til að stillt sé til friðar í stað þess að egna til ófriðar og finnist einhverjum eitthvað fallegt við, að fólk sé drepið til þess eins að vera drepið, þá ætti sá sem þannig hugsar, að taka til í kolli sínum.

Í fréttinni, sem er kveikjan að þessum hugleiðingum og er hér ofar í mynd, segir að Putin hafni ekki hugmyndum um friðarviðræður. Úkraínumenn eru ekki eins tilkippilegir og segjast ekkert land gefa eftir og þar getur því staðið hnífur í vorri friðarkú, eins og þar stendur, því margt er á huldu um hvers er hvað o.s.frv., varðandi landsvæði austur þar.

Til að samningar náist verður að semja um eitthvað og því ættu Zelensky og félagar að geta áttað sig á, nema að eitthvað annað og verra liggi undir.

Sem stendur eru það Rússar sem halda dyrum opnum, en það eru Úkraínar sem skella hurðum.

Hvort þeir gera það af eigin frumkvæði, eða til að þóknast öðrum mun koma í ljós, þó síðar verði. 

Frétt Morgunblaðsins lýkur með því að segja frá því ,,að Rússar hafi sagt að Úkraínumenn verði að sætta sig við að eitthvert landsvæði þurfi að gefa eftir"

Við getum víst ekki annað gert en vona það besta, vitandi að lausnin verður alla vega ekki sótt í íslenskan stjórnmálaskóg.

Hér var ætlunin að setja punkt, en þá rakst bloggari á frétt þar sem segir að viðræður um frið séu hafnar í boði arabalanda og gott ef Mexíkanar koma ekki líka við sögu, en skemmst er að segja frá því að fréttin ,,týndist", en það merkilega var, að Rússar voru ekki boðaðir til viðræðnanna, en segjast fylgjast með!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...