Mælistikan og bandarísk stjórnmál

 Í þessum pistli verður gerð tilraun til að fara lauslega yfir ,,Reykjavíkurbréf" Morgunblaðsins sem birtist í helgarblaðinu þann 5/8/2023.

Skjámynd 2023-08-06 111123Bréfið vakti áhuga undirritaðs vegna þess að í því er farið af þekkingu yfir stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum, ástand sem er mörgum áhyggjuefni, þó ekki sé nema vegna þess, að hvað sem mönnum kann að finnast um það ríkjasamband, þá skiptir afar miklu máli fyrir heiminn allan, hvernig haldið er á málum þar á bæ.

Þess gerist tæplega þörf, að rekja hvernig stjórnmálin hafa þróast þar á síðustu árum, þar sem menn á eftirlaunaaldri, hvor úr sínum stjórnmálaflokknum berjast um að veita þjóðinni forystu.

Annar fyrrverandi forseti og hinn núverandi og sem lýkur senn sínum embættisferli, verði hann ekki endurkjörinn.

Sá fyrrverandi tapaði kosningum með afar naumum hætti í síðustu kosningum og reyndar er ekki víst að allt sé á hreinu með þau úrslit.

Hvort niðurstaða kosninganna var rétt eða ekki verður ekki fullyrt hér, því til þess skortir þann sem hér ritar þekkingu og reyndar er það svo, að þeir sem ættu að hafa þekkingu á þeim málum, eru ekki sammála um niðurstöðuna að því er best verður séð.

Skjámynd 2023-08-06 111149Reykjavíkurbréfið geta menn kynnt sér á vef Morgunblaðsins, eða með því að kaupa blaðið í næstu sölubúð séu þeir ekki áskrifendur.

Niðurstaða höfundar bréfsins er að margt sé ekki á hreinu varðandi kosningaúrslitin.

Reykjavíkurbréfið ber yfirskriftina ,,Stjórnarskránni storkað" og fyrirsögnin sjálf vekur athygli, því ef það er eitthvað í lýðræðisríkjum sem menn ættu að virða, þá er það stjórnarskrá viðkomandi ríkis.

Dæmin sem nefnd eru er nokkur og það fyrsta er, að dómsmálaráðherra hafi ákveðið ,,án vafa" og með samþykki sitjandi forseta Biden, að saksækja þann fyrrverandi þ.e. Trump.

Vikið er að því að dómsmálaráðherrann, hafi misnotað vald sitt hvað eftir annað ,,með ótrúlega ósvífnum hætti" og að ,,nú verði dómsdagsstefnum látið rigna yfir Trump", sem þurfi að berjast við dómsmálaráðuneytið.

Það er ótrúlega erfitt að berjast við þá sem misnota vald og það þekkja þeir sem reynt hafa og það þó í smáríki sé, en ekki stórveldi líkt og Bandaríkjunum. 

Bandaríkin virðast undirrituðum vera ríki þeirra ríku í stjórnmálalegu tilliti o.fl., og að það stafi af því hvernig stjórnmálakerfið er byggt upp.

Menn þurfa að hafa sterkan fjárhagslegan bakgrunn af einhverju tagi til að eiga mikla möguleika á frama í stjórnmálum þar, en þverstæðan er sú, að Bandaríkin eru land tækifæranna í mörgu tilliti eigi að síður!

Peningar eru afl þeirra hluta sem gera skal, er stundum sagt og það er ekki sérstaklega bundið við bandarísk stjórnmál að svo sé.

Áhugasamir ættu að renna yfir grein Morgunblaðsins um þessi mál, því þar kemur ýmislegt fróðlegt fram og því verður seint neitað, að það skiptir alla heimsbyggðina afar miklu, hvernig haldið er á málum í því volduga ríkjasambandi sem Bandaríkin eru.

Skiptir þá engu, hvort mönnum líkar það betur eða ver.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...