Það er eitt og annað í fernu dagsins og er þar fyrst að nefna aðsenda grein í Morgunblaðinu eftir Ólaf Halldórsson líffræðing.
Þar segir, að Bubbi Morthens hafi látið skammir dynja vegna illrar meðferðar á íslenskri tungu, en eftir þá umfjöllun, snýr höfundur greinarinnar sér að þeim sem vilja koma trjágróðri í Öskjuhlíðinni fyrir kattarnef.
Sagt er að trén torveldi flugtök frá flugvellinum í Vatnsmýrinni, en á því vandamáli er til önnur lausn og hún er sú, að koma flugvellinum burt úr miðbæ borgarinnar og t.d. í Löngusker eins og góður maður benti eitt sinn á, en lítið hefur verið gert með.
Væri farin sú leið fengju Framsóknarmenn ósk sína uppfyllta, en eins og flestir vita mega þeir ekki til þess hugsa að flugvöllur innanlandsflugs sé annarstaðar en í miðborginni.
Völlurinn yrði sem sé við miðborgina en ekki í henni og yrði þ.m. framsóknarleg niðurstaða af besta tagi. Niðurstaða sem sameinaði þörf(!?) þeirra fyrir miðborgarflugvöll, en myndi frá sjónarhorni framsóknar hafa þann galla, að borgin gæti byggst upp á eðlilegan hátt.
Allt getur þetta þó skyndilega breyst, vegna þess að nú styttist í að Framsóknarmaður taki við borgarstjórastólnum og eins og við könnumst við, þá er ekki sama hvoru megin borðs er setið, hvað varðar afstöðu til mála og málefna.
Greinarhöfundur bendir á, að sjúkraflugi megi þjóna með þyrlum líkt og gert er, en hægt væri að láta þyrlurnar lenda á til þess gerðum palli, á eða í grennd við Landsspítalann. Í greininni er einnig reifaður sá möguleiki að nota þyrlur til farþegaflugs, en það er örugglega of framúrstefnuleg hugmynd fyrir hin góðu framsóknarhjörtu og því ekki inn í myndinni!
Við skoðum líka viðtöl blaðsins við forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna á þingi og þar vekur mesta athygli það sem haft er eftir Kristrúnu Frostadóttur formanni Samfylkingarinnar, sem er eftirfarandi:
„Stóra fréttin í dag er að fjármálaráðherra sé búinn að kasta frá sér ábyrgð á efnahagsmálum. Vegna þess að hann fullyrðir að það sé ekki hlutverk ríkisstjórnarinnar að vinna bug á verðbólgunni heldur hlutverk Seðlabankans,“ segir Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar í samtali við mbl.is í gær og segist velta fyrir sér trúverðugleika ríkisstjórnarinnar, þegar leitað var eftir áliti hennar á aðgerðum í ríkisfjármálum sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra boðaði í dag. Þar voru kynnt áform um niðurskurð og aðhaldsaðgerðir í ríkisrekstri á næsta ári. „Þetta er ekki það sem almenningur þarf að heyra núna,“ segir hún og bætir því við að aðgerðirnar einar og sér séu góðar og gildar, enda snúast þær um að reka ríkið betur. Hún geti þó ekki séð að það sé stór pólitísk ákvörðun að reyna að reka ríkisstofnanirnar betur. Það sé eilífðarverkefni."
Rætt er líka við hina leiðtogana úr stjórnarandstöðunni, en þar kemur fátt markvert fram eftir því sem séð verður. Hægt er að kynna sér viðtölin t.d. á mbl.is.
Þykkvabæjarvindmyllurnar verða senn reistar að nýju, það er að segja, ef umhverfisvæningjar munu ekki rísa upp og finna þeim allt foráttu.
Eins og kunnugt er, nýta þær vindorku til að framleiða raforku og örugglega er hægt að komast að þeirri niðurstöðu að það sé skaðlegt fyrir andrúmsloftið.
Fjórða fréttin sem hér er á mynd, segir frá leit að jarðneskum leifum japanskra hermanna sem taldir eru geta verið í neðanjarðarhellum á eynni Iejima, en í fréttinni segir m.a.:
,,Nærri áratugur er liðinn frá því að fyrstu vísbendingar fundust um hellakerfið. Var kerfisins getið í gömlum og rykföllnum skjölum hersins á þjóðskjalasafni Bandaríkjanna. Kemur þar m.a. fram að 306. fótgönguliðasveit hafi dagana 15.-24. apríl 1945 barist af mikilli hörku við sveitir Japana, u.þ.b. 1 km norðaustur af fjallinu Gusuku. Segja skjölin 106 japanska hermenn hafa fallið í bardaganum. Skömmu eftir að þessar upplýsingar komu í ljós var ákveðið að hefja leit, en japönsk stjórnvöld settu leitarmönnum stólinn fyrir dyrnar. Nú stefnir hins vegar á ný í formlega leit."
Það er eitt og annað, sem fengist er við í veröldinni og þetta voru aðeins örfá dæmi af þeirri iðju og öll fengin úr Morgunblaðinu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli