Í Heimildinni er grein um orkumálin, sem er hvatning til nýrrar ríkisstjórnar um að standa sig varðandi orkuöflun en eins og kunnugt er, þá er vikið að þeim þætti í samstarfssamningi hinna nýju ríkisstjórnarflokka.
Greinina skrifar Ketill Sigurjónsson og yfirskriftin er Orkutækifæri Íslands á góðu skriði eða í öngstræti.
(Myndinni sem hér fylgir er hnuplað úr grein Ketils en lítillega löguð að forminu.)
Í inngangi að grein sinni segir Ketill, að margt [sé] óljóst varðandi útfærslu þeirra atriða sem fjalla um orkumál í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar. „Þarna hræða sporin,“ skrifar hann og segir að mikilvægt [sé] að gerðar verði breytingar á laga- og stjórnsýsluumhverfinu til að flýta þróun nýrra orkuverkefna.
Ritari þessarar síðu hefur oft drepið á, að ekki fari saman að vilja skipta orkunotkun þjóðarinnar sem mest yfir í raforku en vilja á sama tíma ekki afla þeirrar orku og það hvorki með nýtingu vinds nér vatnsfalla, að ógleymdu því að óþarflega hægt gengur sumstaðar að afla hitaorku úr iðrum jarðar. Auk þess hve illa sú orka er nýtt og látin renna til sjávar án þess að ,,vinda“ úr henni afgangsorkuna svo sem unnt er, t.d. með varmadælum.
Varmadælur þurfa rafmagn og þess þarf að afla!
Það verður ekki bæði sleppt og haldið í þessu efni sem fleirum, og því er rétt að hvetja áhugafólk um þessi mál til að lesa grein Ketils sem er bæði lipurlega skrifuð og skýr í framsetningu.
Við erum eftir síðustu kosningar laus úr helsi Vinstri grænna, sem þjóðin hafnaði svo skýrt sem verða mátti, því flokkurinn féll út af þingi, sjálfum sér til vansæmdar en þjóðinni vonandi til blessunar og því ætti að vera mögulegt að þoka málum áfram, þ.e.a.s., ef Sjálfstæðisflokkurinn og ekki síst Miðflokkurinn fást til að stunda málefnalega stjórnarandstöðu.
Ef við viljum verða betur sjálfbær varðandi orku þá þurfum við að afla hennar, svo einfalt er það!
Helsti hemillinn á stjórnmálasviðinu fékk verðuga lausn frá pólitíkinni eins og fyrr sagði og það fengu reyndar ýmsir fleiri af svipuðu tagi sem vermt hafa stóla á Alþingi undanfarin allt of mörg ár.
Eftir situr reyndar fyrrnefndur Miðflokkur, sem fáir vita hvaðan er að koma, eða hvert hann er að fara og trúlega allra síst flokksfélagarnir sjálfir.
Því er það, að nú blasa við tækifærin til að þoka málum áfram í stað þess að um þau sé japlað og jamlað og tuðað, þar til að þau lognast út af.
Við horfum því með björtum augum fram á veginn og vonumst eftir, að stjórnarandstaðan á þingi verði málefnaleg í gagnrýni sinni í stað þess sem stundum hefur verið að standa svo sem unnt er gegn því sem frá ríkisstjórninni kemur og það hvort sem það er þjóðinni til heilla eður ei.
Við vonum það besta en erum búin undir það versta, að fenginni reynslu undanfarinna áratuga!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli