Uppbygging í Þorlákshöfn

 

Á suðurströnd Íslands er lítið um hafnir og í raun er það aðeins ein sem talist getur vera raunveruleg höfn.

2021-10-28 (6)Og lesa hefur mátt í fréttum að undanförnu um uppbyggingu hafnarinnar í Þorlákshöfn.

Erlent skipafélag hefur um nokkurn tíma stundað millilandasiglingar til hafnarinnar og nú er hugað að stækkun hennar.

Það er spennandi að fylgjast með uppbyggingunni sem verið hefur í Þorlákshöfn og stækkuninni sem fyrirhuguð er.

Sá sem þetta ritar man þá tíma þegar varasamt þótti að fara á flutningaskipum inn til Þorlákshafnar og eftir að gámaskipin komu til þótti það enn varasamara.

Það mun hafa verið 1971 sem ritari hafði verið ráðinn á skip sem lónaði fyrir utan höfnina dögum saman og það fór svo að lokum, að ákveðið var að sigla því til Reykjavíkur og aka korninu sem í því var til Þorlákshafnar til vinnslu í fóðurverksmiðju sem SÍS rak þar á þessum tíma.

Ekki var um að ræða gámaskip, heldur flutningaskip sem ætlað var til ,,heilflutninga" svo sem kallað var. Skipið hét Mælifell. 

Ritari var á skipinu um nokkurn tíma og sigldi m.a til hafnarinnar Agusta á Sikiley til að lesta fullfermi af áburði til nota í íslenskum landbúnaði.

2021-10-31 (2)En það er ekki eingöngu hafnarframkvæmdir sem eru fyrirhugaðar í Þorlákshöfn, því til stendur að hefja framleiðslu á íblöndunarefni í sement og til þess að það sé hægt, þarf að koma þar upp og byggja verksmiðju.

Og það er gott og traust fyrirtæki sem að því stendur. Fyrirtæki sem um áratugi hefur framleitt steinsteypu og fleira við góðan orðstír. 

Rætt er við bæjarstjórann í Þorlákshöfn af þessu tilefni og hann er að vonum kampakátur yfir þróuninni og þeir sem farið hafa til Þorlákshafnar nýlega og séð uppbygginguna sem þar á sér stað skilja vel að yfir sé að gleðjast.

Hvert sem farið er blasir við uppbygging og glæsileiki og stór svæði þar sem innflutningsvörur bíða þess að vera tekin til gagns af þeim sem á þurfa að halda.

Þegar ritari fór þar um fyrir nokkrum vikum mátti sjá bíla, hjólhýsi og sitthvað fleira í stórum breiðum á bæjarsvæðinu.

Að auki var búið að byggja upp svo mikla byggð með götum og tilheyrandi að bærinn kom ókunnuglega fyrir sjónir þeim sem ekki hafði komið þar lengi.

Glæsileg þjónustumannvirki bæjarfélagsins blöstu meðal annars við og tekin var ákvörðun um að fara aftur til Þorlákshafnar til að skoða bæinn betur og velja til þess rúman tíma.

Auk þess sem hér hefur verið nefnt mun vera hugur í mönnum sem stunda fiskeldi (landeldi) að auka umsvifin og alls ekki er víst að þar með sé allt upp talið.

Að vera í viðskiptasambandi við almættið



 „Við getum ekki verið í einhverju viðskiptasambandi við guð og það á ekki að vera í samhengi heilags skírnarsakramentis,“ var sagt á kirkjuþingi sem haldið var fyrir nokkrum dögum.

Í Fréttablaðinu var frásögn af samkomunni og augljóst má vera að ,,andinn" var til staðar en trúlega hefði hann mátt vera betur stilltur og stemmdur.

Við sem ekki vorum á kirkjuþingi erum vitanlega ekki dómbær á almættið, né á tenglana sem notast er við til að stinga okkur hinum venjulegu og óprestlærðu í samband við það.

Það er ef til vill ekki viðeigandi að nefna kol í sambandi við þessa samkomu en varla verður hjá því komist og það hitnaði sem sagt í kolunum hjá guðsmönnunum.

Og Fréttablaðið segir frá því að prófessor á kirkjuþingi hefi verið að stunda sérhagsmunagæslu.

Átti einhver von á öðru? 

Líklega, því við gerum ráð fyrir að prestskapurinn sé það sem kallað er ,,köllun".

Ekki er það samt alveg víst að svo sé og vel getur verið að um sé að ræða eftirsókn eftir þægilegri og líkamlega léttri vinnu.

,,Við getum ekki verið í einhverju viðskiptasambandi við guð og það á ekki að vera í samhengi heilags skírnarsakramentis,“ sagði séra Gunnlaugur Garðarsson á kirkjuþingi í gær þar sem rædd var tillaga um að afnema í áföngum gjöld vegna prestsþjónustu þjóðkirkjunnar."

Það er hugsað djúpt á kirkjuþingi og niðurstaðan varð: að það sé ekki hægt að stunda bisness við guð!

Og andinn hefur veri góður á fundinum:

,,„Þessi frávísunartillaga er ein ljótasta tillaga sem ég hef séð á kirkjuþingi síðan ég kom hérna inn 2010. Það er svo grímulaust farið að því að verja eigin fjárhagshagsmuni,“ sagði Steindór. „Að níu af tólf prestum á kirkjuþingi hafi ekki meiri sjálfsvirðingu en þetta, það kemur mér á óvart.“"

Og þar með er komið nóg fyrir okkur sem ekki erum innvígð og þroskuð í guðlegum fræðum og boðskap!

Sá möguleiki er einnig fyrir hendi að farið hafi verið út af sporinu og guð hafi ekki verið á kirkjuþinginu; hafi setið heima og fylgst með úr fjarlægð.

Hvað honum fannst um framgöngu umboðsmanna sinna hér á Jörðinni fáum við víst seint að vita, fyrst sambandið er slitnað.

 

Fuglaveiðar - rjúpnaveiðar

 

Fuglaveiðar - rjúpnaveiðar

Ole Anton Bieltved skrifar um rjúpnaveiðar í Fréttablaðið. Efni greinarinnar er áskorun til umhverfisráðherra um að ekki verði aflétt friðun rjúpnunnar, en til stendur að veita leyfi fyrir rjúpnaveiðum, þrátt fyrir að stofninn sé í sögulegri lægð!

Málið liggur á borði umhverfisráðherra og rjúpnaveiðimenn munu bíða spenntir eftir niðurstöðunni og það gerum við líka sem viljum rjúpnastofninum vel.

2021-10-20 (2)

Hver verður víst að hafa sinn smekk fyrir því hvað haft er á borðum á jólunum. En hætt er við, að þegar það sem áður hefur verið haft á borðum í tilefni hátíðarinnar, er endanlega uppurið og ófinnanlegt, að þá verði annað hvort að breyta til, eða fresta jólunum um óákveðinn tíma!

Sá sem þetta ritar býr í Flóanum í Árnessýslu og hafi hann átt eitthvert erindi að miðri nóttu úr svefnheimum, hefur hann og aðrir Flóabúar í sömu aðstöðu, getað notið tónlistar þeirrar sem berst úr byssukjöftum. Taktlausrar og án hrynjanda og byrjar alltaf aftur um það bil sem nátthrafnar láta sér detta í hug að nú sé þessu lokið.

Á hvað verið er að skjóta í svarta myrkri er ekki með fullu ljóst, en mikil er atorkan og eljan!

Og ekki er  gott að segja til um hvar höglin sem upp fara, koma að lokum niður.

Líklega er betra að vera ekki útigönguskepna í haga undir þessum kringumstæðum, né heldur mannskepna að sinna einhverjum erindum, sem vel getur komið til s.s. þegar bændur þurfa að sinna skepnum sínum.

Eitt sinn fyrir mörgum árum var undirrituðum boðið í jólamat og á borðum voru rjúpur. Sá sem bauð gerði það af góðum hug og vildi bjóða það sem honum þótti best og þó litlu kjötbitarnir (bringuvöðvar) af rjúpunum hafi ekki vegið þungt í vömb, þá bætti úr að þeir voru margir! 

Það voru sem sagt margar rjúpurnar sem fóru í að metta þá sem við jólaborðið sátu þetta kvöld og ekki þurfti þá að hafa áhyggjur af því að stofninn væri hætt kominn.

Nú er ástandið hins vegar verra og við vonum að ráðherrann taki erindi Ole Anton og félaga til alvarlegrar skoðunar, með það að markmiði að þjóðinni verði ekki gerð sú skömm að íslenska rjúpnastofninum verði endanlega eytt.

Forfeðrum okkar tókst að eyða geirfuglinum og það verður ekki tekið til baka. Eins er með rjúpuna, að ef of nærri stofninum verður gengið, er alls ekki víst að hægt verði að bæta fyrir þann verknað.

CO2 og fleira gott


CO2 og fleira gott

Í Morgunblaðinu 19.10.2021 rekst lesandi á innsenda grein eftir Hauk Ágústsson fyrrverandi kennara.

Haukur er að  fjalla um loftslagsbreytingar sem gengið hafa yfir Jörðina okkar í tímans rás og tímalínan er nokkuð löng á okkar mælikvarða eins og kunnugt er.

Sé farið yfir grein Hauks rifjast upp ýmislegt sem við eigum að vita fyrir en sem færst hefur aftar í skvaldri umræðunnar á liðnum tíma. 

2021-10-19 (2)

Og enn kemur orðið ,,tími" við sögu!

Okkur hefur verið kennt að um 10.000 ár séu liðin síðan síðasta ísöld telst hafa liðið hjá og að upp úr því hafi kviknað líf í landinu okkar er það kom undan jökli.

Það fylgir sögunni að vel sé líklegt að landbrú hafi verið milli Íslands og Evrópu á þessum tíma og að eftir henni hafi eina ,,íslenska" spendýrið refurinn, komið til landsins. 

Haukur bendir á að Jörðin hafi hitnað og kólnað til skiptis og það mun rétt vera og hreint ekki ólíklegt að þær sveiflur megi rekja til virkni Sólarinnar. 

Á þetta hefur verið bent áður og sá sem þetta ritar minnist þess að hafa lesið eftir rússneska vísindamenn ábendingar af þessum toga og það nokkru áður en farið var að hafa þær áhyggjur af hitnun Jarðar sem nú eru uppi vegna athafna manna.

Allt þetta breytir ekki því að vel getur verið að athafnir okkar og brölt hafi sitt að segja og í raun er engin ástæða til að efast um það. Meir en líklegt er að það bætist við og flýti ferlinu, en vegna þess vafa sem uppi er getur verið hollt að huga að hvert gengið er í aðgerðum til að hindra hitnunina.

Það má vel spyrja sig hvort það sé ástæða til að þjarma að því fólki sem er efnaminna og er að koma undir sig fótunum með aðgerðum sem augljóslega eru ætlaðar til að gera þeim efnameiri kleift að kaupa sér glæsibifreiðar með niðurgreiðslum frá Ríkinu svo sem nú er gert?

Hugmyndafræði sem augljóslega er ættuð frá Vinstri grænum, en sem samstarfsflokkarnir hafa mjúklega og af auðsveipni tileinkað sér?

Er jafnframt ástæða til að skattleggja diesil olíu og bensín sérstaklega til að þjarma að þeim sem aka um á bensín og diesel bílum og auk þess gera eldsneytið þeirra síðra með íblöndun svokallaðrar lífolíu, þegar augljóst er að um er að ræða fólkið sem augljóslega á erfiðara á með að nýta sér niðurgreiðslur Ríkisins á rafknúnu glæsivögnunum?

Þegar þess utan er auðvelt að benda á að svokölluð lífolía stendur ekki undir nafni þegar að er gáð?

Nú standa yfir stjórnarmyndunarviðræður milli sömu flokka og áður sátu í ríkisstjórn.

Sé eitthvert bein er í nefinu á þeim flokkum sem með VG hafa starfað undanfarið kjörtímabil, þá ættu þeir m.a. að setja það skilyrði að þessari stefnu verði breytt.

Það ætti að reynast flokknum sem gekk fram til kosningabaráttunnar undir því slagorði að það ,,sé nú bara best að kjósa Framsókn" - líklega minnugir þess hvernig þeim gekk að gera Ísland að landi án eiturlyfja árið 2000 - ekki mikið mál að endurskoða þessa stefnu sína frekar en aðrar ,,stefnur" sem hann hefur áður sett fram.

Sjálfstæðisflokkurinn gekk ekki fram til kosninganna með jafn væmnum hætti og tapaði lítillega, en úr því rættist er honum bættist kostulegur liðsauki frá Miðflokknum!

Að þessu skoðuðu og skoðað í ljósi sögunnar, eru fremur litlar vonir til að efnaminna fólkið, barnafólkið og þau sem minna hafa yfirleitt, eigi sér forsvara í þeim flokkum sem þessa dagana eru að reyna að koma sér saman um ríkisstjórnarsamstarf.




Uppkosningar í Nv-kjördæmi

 

Myndin er fengin úr Fréttablaðinu og er eftir Halldór og tengist efni textans ekki beint, en sýnir þó forystumenn rikisstjórnarinnar vinna með sínum hætti að lausn mála. 

Rætt hefur verið um að kjósa þurfi að nýju í Norðvesturkjördæmi vegna furðulegrar uppákomu sem varð við talningu atkvæða í kjördæminu og sem afhjúpað hefur meinvillu í kosningakerfinu.

Farið var þannig með atkvæðaseðla að fáir treysta niðurstöðu talningarinnar.

Kerfið er gallað.

Það hefur lengi blasað við og nægir þar að benda á misvægi atkvæða, sem mun hafa átt að laga með svokölluðu uppbótar og jöfnunarkerfi, en gallar þess kerfis munu nú vera flestum orðnir ljósir.

Vegna þessa er rætt um að endurtaka þurfi kosninguna í kjördæminu, en hvernig það verður gert svo vel fari er talsvert óljóst og verði það gert þarf að hafa nokkur atriði í huga.

Tíminn sem liðinn er hefur valdið því að ýmislegt hefur breyst:

Einhverjir hafa mögulega flutt sig í annað kjördæmi og geta því ekki kosið aftur.

Aðrir hafa hugsanlega flutt inn í kjördæmið frá öðrum kjördæmum og myndu þar með kjósa tvisvar!

Sumir hafa náð aldri til að kjósa sem ekki voru komnir með kosningarétt þegar kosið var.

Hugsanlega hafa einhverjir þeirra sem kusu í kosningunum fallið frá og geta því af augljósri ástæðu ekki mætt á kjörstað til að kjósa að nýju.

Og er þá sjálfsagt ekki allt upp talið.

Allt þetta opinberar hve nauðsynlegt það er að breyta kerfinu og gera landið allt að einu kjördæmi og fella þar með niður uppbótarkerfið furðulega sem fáir vita hvernig virkar nema vera sérstaklega innvígðir inn í fræðin.

Það þarf að jafna atkvæðisréttinn og það er einfalt að gera og best er að gera með því að landið allt sé gert að einu kjördæmi.

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...