Landúnaðarmál og stjórnsýsluröddin rám

Landbúnaðarráðherra skipaði á dögunum ,,Spretthóp" til að taka á bráðavanda landbúnaðarins, þann sem stafar af stríðinu í Úkraínu, og eins og vænta mátti eru það búgreinarnar sem vanastar eru fyrirgreiðslu af þessu tagi sem lögð er áhersla á að fái úrlausnina bæði fljótt og örugglega.
Hinar verða að bíða fram í október svo sem sjá má á niðurlagi fréttaklippunnar hér að neðan! 

Á næstu klippu sjáum við að alifuglakjötið hefur verið mest selda kjötið á markaðnum frá árinu 2007. Þar er veltan hröð og gera má ráð fyrir að þeir sem í búgreininni eru, séu búnir að leggja út fyrir æði miklum kostnaði vegna hækkana á aðföngum. Þeim liggur samt ekki mikið á að fá stuðning, að mati ráðuneytisins og er það eins og við var að búast, að ,,börnin hennar Evu" sitja ekki öll við sama borð þegar úthluta skal gæðunum.

Til upprifjunar, þ.e.a.s. ef einhver skyldi hafa gleymt því, þá er hér grein eftir Guðna Ágústsson um ,,gríðarlega erfiða tíma hjá sauðfjárbændum" og þar fyrir neðan önnur eftir Sigurð Inga Jóhannsson, þar sem kveðið er upp úr með, ,,að forsendur fyrir fjárbúskap séu brostnar!


Hvernig það getur brostið sem aldrei var til, er ekki auðséð og hvort framsóknarforingjarnir eru líklegir til að leysa vandann og berja í brestina er fremur ólíklegt. Uppsláttur Guðna er settur fram af einlægni, gerum við ráð fyrir, enda þekkir hann vel til málsins og veit hvar eldurinn brennur.
Sigurður formaður er á öðrum slóðum að reikna má með og er ugglaust að hugsa um atkvæði sem gætu ,farið eitthvað annað', eins og einu sinni var sagt af öðru tilefni.

Það ánægjulega er, að til eru bændur sem bera sig tiltölulega vel og standa sig líka vel og hér er mynd af nautakjötsframleiðanda sem ber sig vel og er hvergi banginn, þó á ýmsu gangi.


Morgunblaðið mun hafa birt fréttina hér að neðan um að 358 milljónir hafi farið í girðingar frá hinu opinbera. Mörg er hún músarholan og girðingarkostnaður er eitt af því sem hið opinbera þarf að leggja í, vegna lausagöngufénaðar sem halda þarf frá vegum og í réttum fjárhólfum á heiðum uppi og í byggð. Kostnaðurinn er talsverður svo sem sjá má. 

Flaggskip landbúnaðarins Hótel Saga, er orðin gömul saga og sannkölluð sorgarsaga og verður elliheimili eftir því sem hér segir. Bændaforkólfar fortíðarinnar kreistu út fé frá fátækum bændum til að byggja montmusteri í Reykjavík og nú er það búið að vera sem slikt og Bændasamtökin  þurfa að finna sér annan stað til að vera á. 

Að lokum eru það sjálf Bændasamtökin sem horfðust loksins í augu við sjálf sig, áttuðu sig á því að þau voru aðeins samtök sumra bænda,  sem oft á tíðum unnu gegn öðrum bændum, það er að segja nánast öllum öðrum en kúa- og sauðfjárbændum og vel völdum einstaklingum í svokölluðum ,,frjálsum" búgreinum. Samtökin ákváðu að leggja af bakstungur og baktjaldamakk og fara að vinna saman og þó ,,bleik sé brugðið", þá er það vissulega fagnaðarefni og núverandi forystu til sóma að hafa ákveðið að snúa við blaðinu.

En eins og sjá má af afgreiðslu ráðuneytisins á tillögu Spretthópsins, sem hér var nefnd í upphafi, rymur enn í skúmaskotum stjórnsýslunnar röddin rám og er það líkt og við var að búast með þrjá Framsóknarflokka saman í ríkisstjórn. 

 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...