Enn einn voðinn á ferðinni?

 Fyrirbærið ,,Verkefnisstjórn rammaáætlunar" ,,hef­ur lagt til að kost­ur­inn Ham­ars­virkj­un á Aust­ur­landi fari í vernd­ar­flokk. Fyr­ir­tæk­ið Arctic Hydro, sem ætl­aði að reisa virkj­un­ina, gagn­rýn­ir til­lög­una. Það gera einnig þeir sem stefna á bygg­ingu risa­vax­ins vindorku­vers."

Sagt er frá þessu í Heimildinni þann 30/7/2024 og með fylgir mynd af fallegri fossaröð sem undir stendur:

,,Á Hraunasvæðinu, sem Arctic Hydro hugðist byggja Hamarsvirkjun á, er m.a. þessi röð fossa. Um er að ræða vatnasviðið austan Vatnajökuls og tilheyrir svæðið Djúpavogshreppi sem nú er hluti sveitarfélagsins Múlaþings."

Mynd fylgir með af fossunum og vissulega eru þeir fallegir en hvort þeir komi til með að hverfa kemur ekki fram í umfjölluninni.

Það verður ekki bæði sleppt og haldið, segir einhverstaðar og það er erfitt að virkja orkuna sem felst í fallvötnum án þess að snerta við vatninu!

Við munum enn lætin sem urðu þegar til stóð að byggja Kárahnjúkavirkjun, sem þrátt fyrir þau var byggð og sem er stærsta virkjun landsins, sem vekur almenna aðdáun fyrir nú utan, að í ljós komu feiknafallegar stuðlabergsmyndanir sem vekja almenna aðáun þeirra sem þær sjá.

Það var mótmælt og sönglað, flogið og staðið og í stuttu máli allt gert sem hægt var til að veita útrás meintri væntumþykju fyrir náttúrunni, sem menn virtust líta svo á að hefði ætíð verið óbreytanleg allt frá sköpun veraldar.

Á þeim tíma var atvinnulíf á Austurlandi frekar dapurlegt og flestir voru sammála um að það mætti breytast til batnaðar en sönglarar og mótmælendur vildu að það gerðist með því að gera ekkert!

Það var þeirra aðall og engu mátti breyta, en hvort það átti að vera í þágu hreindýranna sem ráfa um hálendið var ekki augljóst og ef til vill var mótmælt með ,,vistvænu" flugrelluflugi til þess eins, að fá útrás fyrir innibirgða ónýtta orku viðkomandi, sem vissu eflaust ekki að hreindýrin voru innflutt ,,aðskotadýr" í íslenskri náttúru.

Hráefnin í flugvélina og hljómtækin - ekki má gleyma þeim - voru einhverstaðar sprottin úr jörðu og unnin, til að hægt væri að búa til fararskjóta fyrir m.a. íslenska veðurvita, sem vildu svo sem allir vitar, ,,vísa veginn"!

Skemmst er frá því að segja að atvinnulíf á Austurlandi glaðnaði og dafnaði í kjölfarið, reis upp og fór að blómstra.

Nú vilja framsýnir menn byggja virkjun til orkuöflunar og þá er sem gamall leikur ætli að endurtaka sig, því upp rísa þeir sem telja sig vera einkavini náttúrunnar og finna því allt til foráttu.

Vonandi gengur það yfir sem annað, því lífið gengur sinn gang, vatn mun halda áfram að renna svo lengi sem rignir og jöklar bráðna en óvíst er, að helfrost hugarfarsins þiðni jafn greiðlega.

Og þó, því aldrei er að vita nema að af mönnum renni móðurinn og að þeir verði til, sem muni sækja um vinnu í atvinnurekstrinum sem upp kemur til með að spretta, þegar ný virkjun er komin til sögunnar.

Finnist mönnum það ekki nógu fínt, má alltaf finna sér nýtt verkefni til að berjast gegn, agnúast út í og finna allt til foráttu.

Dýralíf og mannlíf

 Allir geta verið vinir, aðeins ef þeir vilja það en það er sem dýrin eigi betra með það, a.m.k. stundum!

Eins og svo oft áður sjáum við, að við getum sótt fyrirmyndir til þeirra um hvernig hægt er að koma sér saman og trúlega koma þau oftast til dyranna ,,eins og þau eru klædd“.

Teiknarar blaðanna taka stundum fyrir hvernig við erum og fanga það oft ótrúlega vel, sýna okkur með nokkrum strokum hvernig við þykjumst vera og hvernig við gætum verið ef við kæmum hreint fram.

Yfirleitt erum við það sem við erum en það er ekki víst að svo sé, þegar við erum komin í hlutverk og erum að reyna að ganga í augu, t.d. háttvirtra kjósenda!

Við áttum okkur strax á því hverjir ganga hólmgönguna og við sjáum líka hvernig hún endaði, en í miðjunni er köngulóinn litla og fallega sem fékk nafnið Vigdisia, eftir forsetanum okkar kæra sem var og á ekkert sameiginlegt með bandarísku fígúrunum sem birtast okkur á myndunum sitt hvoru megin við áttfætlinginn.

Teiknararnir bregðast okkur ekki en það sama verður ekki sagt um viðfangsefni þeirra, dýrið litla stendur fyrir sínu en hætt er við að karlarnir tveir geri það ekki; hafa ekki gert það og muni ekki gera það.

Biden er reyndar floginn út en hinn situr eftir, er ólíkindatól og til alls líklegur hér eftir sem hingað til og þeir eiga ekkert sameiginlegt með vinunum hér til vinstri þar sem Halldór, er grimmur í túlkun sinni á þeim félögum!

Við gætum sótt okkur margar góðar fyrirmyndir til dýranna en gerum það alls ekki nógu oft og trúlega flest okkar aldrei.

Það er hólmganga framundan en hvar er Joe, segir karlinn og við ráðum af skugganum hver er að bjóða honum byrginn.

Í landinu okkar er búin að vera risjótt tíð, það hefur ,,ekkert rignt í dag“ segir karlinn við konu sína og er furðu lostinn og hvernig fer fyrir vigdisia í tíð sem þessari, er ekki gott að segja en við vitum að hún mun bjarga sér!

Það færi vísast betur á því að við myndum horfa meira til dýranna varðandi samskipti okkar mannanna á þessari jörð okkar, því þó þeim geti greint á þá leysa þau málin á annan hátt en er í því þrætubókarfyrirkomulagi sem við höfum komið okkur upp.

Og svo éta þau stundum hvert annað!

Vissulega er misjafnt milli þjóðfélaga og landa hvernig menn koma málum sínum, við val forystumanna fyrir og við á norðurlöndunum og reyndar víðar, getum verið til þess að gera sátt við það kerfi sem komið hefur verið upp í kringum þessi mál, en það er alls ekki hægt að segja það sama víða annarstaðar.

Í auðræðisríkinu í vestri sem er stundum kallað stærsta lýðræðisríki í heimi, ríkir ekki lýðræði af því tagi sem við þekkjum og nú stendur einmitt til að kjósa forseta á þeim bæ.

Valið hefur til skamms tíma staðið um tvo aldraða karla, annan sem var forseti og hinn sem er það enn, þegar þetta er pikkað á lyklaborð.

Hvernig málin munu þróast á hinum pólitíska vettvangi hjá þessum ,,vinum“ okkar mun koma í ljós en við sjáum hvað setur!

Annar er hættur við framboð og skugginn á myndinni er tekinn við!

(Teikningarnar eru fengnar úr Morgunblaðinu (Ívar) og visi.is (Halldór)).

Tíðindalaust á austurvígstöðvunum?

 

Á blábrúninni rekumst við á greinarstúf um hugsanlegan frið í Úkraínu og þaðan er þessi mynd fengin.

Úkraínar hafa viljað ræða um frið sem vonlegt er en hafa fram til þessa viljað ræða það á sínum forsendum og án aðkomu Rússa.

Friðarumræða af því tagi er sérkennileg en nú er sem orðin sé breyting á og að Rússar megi vera með í spjallinu, að mati Úkraína.

Minnt er á, í grein ZeroHedge, að á fyrsta fundinum sem haldinn var í Sviss hafi hvorki verið Rússar né Kínverjar en fram kemur að Zelensky og félagar hafa viljað viljað semja um frið við Rússa, með því að semja við Kínverja!

Hvernig það á að ganga upp, er ekki gott að átta sig á en hér verður gengið út frá því að Úkraínar hafi farið landavillt og ruglað saman Rússlandi og Kína.

Hvað sem um það er, þá er ánægjulegt ef menn eru farnir að ræða um frið og vonandi, að þeim hugmyndum verði fylgt eftir.

Öllum styrjöldum hefur lokið á endanum og vonandi fer svo um þetta ömurlega stríð sem háð hefur verið af fullum(?) þunga síðustu ár, eftir stöðugar erjur í mörg ár á undan.

Það er löngu komið mál á að því ljúki.

Í frásögninni er minnt á að Úkraínar hafi lagt áherslu á að koma Putin yfir í annan heim en eins og allir vita hefur það ekki tekist, en haldi menn að hægt sé að leysa hernaðarátök milli þjóða með slíkum aðferðum eru þeir langoftast á villigötum.

Því ,,maður kemur í manns stað“ eins og þar stendur og haldi menn annað, ættu þeir að finna sér aðra vinnu en að vera talsmenn þjóðar sinnar, því ef eitthvað þjappar þjóð saman, er það aðsókn og áreiti að utan.

Bent hefur verið á, bæði fyrr og síðar, að vilji menn ófrið, þá sé best að velja sér andstæðing sem fyrirséð er að hægt sé að ráða við.

Það virðist hafa gleymst.

Skotið í eyra

 

Skotið var á Trump hinn bandaríska og niðurstaðan varð gat á hægra eyra.

Biden vottaði keppinaut sínum samúð, skotmaðurinn lést í átökum við lögregluna og á Rúv- inu er sagt frá þessu á þann veg að Trump sé ,,í lagi“.

Þar koma að því að forsetaframbjóðendur í Bandaríkjum nútímans væru í lagi og er ástæða til að gleðjast yfir því!

Í Heimildinni er sagt frá því að ræstingar fari fram á Landsbókasafni og séu framkvæmdar af fyrirtæki sem er í eigu föður forsætisráðherra.

Það virðist vera dýrt að skúra skrúbba og bóna þetta safn og því eftir miklu að slægjast en ekki fylgir sögunni að strákurinn, sem á föðurinn sem um er rætt, hjálpi til við þrifin enda mun hann vera upptekinn við sitthvað annað.

(Ritari þessa, sem telur sig vera með ryksugupróf og garðsláttuvélar, dáist að framtaksemi af þessu tagi og er farinn að hugleiða að senda konu sinn reikning!)

Fuglarnir stinga saman nefjum og það eru þeir líka að gera fuglarnir sem eru á myndinni til hægri.

,,Hinn óbærilegi léttleiki tilverunnar“ birtist á myndinni sem teiknarinn okkar góði Halldór, túlkar svo ágætlega á mynd sem birtist á Vísi og við tökum eftir því, að það fer bara nokkuð vel á með frambjóðendunum tveimur, svo ekki sé meira sagt!

Hvort það er svo í raunheimum er ekki víst og þó, því Biden mun hafa gefið það til kynna á ljósan hátt að hann gæti óskað sér Trump, sem varaforseta!

Hvort það breytist við að gat komi á hægra eyra vitum við ekki en eigum von á öllu, eins og t.d. því, að biti(ð) aftan vinstra gæti skipt sköpum í því efni.

Það getur verið snúið að hætta því sem maður er búinn að venja sig á.

 


Myndin tengist ekki efni greinarinnar en sýnir harða lífsbaráttu álfta á köldu vori.

,,Skatt­frjáls nýt­ing á sér­eign­ar­sparn­aði til að greiða nið­ur íbúðalán á að renna út í lok árs. Hús­næð­isstuðn­ing­ur­inn, sem hef­ur kostað rík­is­sjóð á sjö­unda tug millj­arða króna af farm­tíð­ar­tekj­um, nýt­ist að­al­lega efstu tekju­hóp­um sam­fé­lags­ins."

,,Það er erfitt að hætta þessu" segir fjármálaráðherrann og fyrrum innviðaráðherra en sem slíkur fór hann með húsnæðismálin.

Grein Þórðar Snæs Júlíussonar í Heimildinni er um skattfrjálsa nýtingu séreignasparnaðar sem hægt er að nota til að greiða niður húsnæðislán en um er að ræða á fjórða tug milljarða króna, eftir því sem þar segir og gætu orðið 26 milljarðar árið 2024.

Þar kemur fram að:

,,Frá því að opnað var fyrir þessa leið húsnæðisstuðnings í nóvember 2014 hafa alls 163,2 milljarðar króna ratað inn á höfuðstól lána þeirra sem hafa getað nýtt sér hann. Af þeirri upphæð hefur ríkissjóður lagt til um 61,5 milljarða..."

Þá segir að um er að ræða stuðning sem helst gagnast þeim sem eru ,,betur settir" og er það að vonum.

Í greininni segir:

Séreignarsparnaðarúrræðið var kynnt til leiks sem hluti af Leiðréttingunni svokölluðu sumarið 2014. Nokkrum árum síðar var bætt við úrræðinu „Fyrsta fasteign“ sem virkar eins en er ætlað fyrstu kaupendum einvörðungu. Sá stuðningur sem úrræðið veitir þeim sem það geta nýtt felst í því að ríkið rukkar engan skatt af nýtingu séreignarsparnaðar sé hann notaður til að greiða niður höfuðstól lána á sama tíma og fullur tekjuskattur er rukkaður sé séreignarsparnaður tekinn út í kringum enda starfsævinnar. 

Ráðherra mun hafa sagt við Heimildina í fyrra: ,,að stuðningurinn væri ekki að rata til þeirra hópa sem þurfi helst á honum að halda"

Á síðasta ári var ákveðið að framlengja úrræðið en fyrir þrýsting frá verkalýðshreyfingunni hefur að sögn Sigurðar: 

,,„Við höfum alveg haft hug á því að hætta fyrr en í kjaraviðræðum þá hefur það oft komið fram frá ákveðnum aðilum innan verkalýðshreyfingarinnar að það sé nauðsynlegt að hafa þetta inni til þess að koma með ávinning til þeirra hópa.“"

Fram kemur að hóparnir sem vísað er til séu: ,,til að mynda [verið] BHM og að hann minni að VR hafi líka lagt fram slíka kröfu. „Það er erfitt að hætta þessu.“

Það getur verið erfitt að hætta því sem menn eru búnir að venja sig á en reynslan hefur einnig leitt í ljós, að það er viljinn sem skiptir máli og ræður úrslitum um hvernig til tekst!

Sakleysið, traustið og spurnin

 Þegar þessi pistill var í smíðum heyrðist viðtal við formann Framsóknarflokksins, í 11 fréttum Rúv, og hann var harla kátur með ,,breytinguna“.

Það hafa verið uppi spurningar um sakleysi í mannheimum, nú sem svo oft áður og síðustu dagana er sem ekki sé allt sem sýnist varðandi lagabreytingu um afurðastöðvar sem gerð var í flaustri á Alþingi fyrir skömmu síðan.

Á myndunum hér að ofan sjáum við dæmigert sakleysi og ljóst er, að kindin stolta með lambið fallega, er sem betur fer ekki að hugsa mikið til haustsins; hún er ánægð með sitt og glöð ef henni tekst að halda því þann tíma sem það þarfnast hennar.

Þegar haustar verður hún ekki spurð eins né neins og líklegt er, að lambið verði tekið frá henni og komið á disk einhverra í framhaldinu, því ,það er köttur í bóli bjarnar’ og þó sakleysislegur sé, þá þarf hann mat á sina skál og gott er, að hún sé undirstöðugóð og gefi fyllingu svo hægt sé að leggjast á meltuna til að mala og það sama gildir um eigendur kisu litlu.

Það er það sem gert hefur verið að mala í merkingunni að mæla og rita um dæmalaus lög sem samþykkt voru á þingi eins og hér var nefnt í upphafi.

Í ljós hefur komið að þrýstingurinn fyrir að lögin væru sett, kom að utan en ekki að innan, þ.e. þau sem fyrir þeim börðust voru að líkindum handbendi manna út í bæ.

Það er ekki að undra þó spurn sé í svip kisu, því nú áttar hann sig á að þetta er ekki fyrir hana gert, var ekki gert til að það sem í skálina kemur yrði örlítið meira og pínulítið betra.

Nei, þetta var gert til að matur húsbænda hans yrði dálítið þyngri fyrir buddu eigendanna, sem gæti leitt til þess að hann fengi lítið eitt minna af góðgætinu og yrði þess í stað, að sætta sig við meira af einhverskonar kögglum til að húsbændurnir fengju síður sting í budduna.

Einn þeirra sem barðist fyrir samþykkt málsins á þingi reynist vera eigandi að hlut í fyrirtækinu sem nýtur góðs(?) af gjörningnum.

Þingmenn eru kjörnir til að gæta hagsmuna lands og þjóðar og litið er svo á að þeirra hagsmunir fari saman við þá hagsmuni.

Því er það leitt svo ekki sé meira sagt, þegar þingmenn fara út fyrir þau mörk.

Þingmaðurinn afsakar sig með því að hann eigi aðeins oggolítilla hagsmuna að gæta og því sé þetta nú allt í besta lagi.

Og þannig er það og þannig verður það, að spillingarþefur fjarar út með tímanum og gleymist, því við taka ný mál sem hugur landans kemur síðan til með að snúast um.

Það er líka dálítil bið eftir kosningum og ekki vonlaust, að málið verði gleymt þegar að þeim kemur.

Hvort úrslit þeirra verða ráðin í Borgarnesi, vitum við ekki en við bíðum og sjáum hvað setur.

Hvort við fáum annað skip og annað föruneyti er hreint ekki líklegt, því við erum svo fljót að gleyma og flokksböndin, maður minn!

Þau eru traust!

Alþingi og hverju gleymdu þingmenn, spyr kindin…

 

Í Heimildinni er viðtal við forstjóra Samkeppniseftirlitsins um samrunaferlið á Norðurlandi, sem fór af stað eftir lagasetningu á Alþingi og það er ekki ofsagt, að hann hefur ýmislegt við það að athuga.


Hagræðing af því tagi sem búið er að gera á Norðurlandi, hefur farið fram á Suðurlandi, án afskipta Alþingis og án vandræða eftir því sem best er vitað.

Eðlilegra hefði verið að farin hefði verið svipuð leið til hagræðingar á Norðurlandi og þá án afskipta Alþingis.

Þá hefði trúlega ekki hlotist af umræða af því tagi sem nú er uppi, því rekstrareiningar sem ekki eiga sér framtíð lognast á endanum út af og til að það gerist þarf ekki pólitísk afskipti.

Hvar ætlar Alþingi að setja mörkin?

Ætlar það að leggjast í lagasetningar um fyrirtæki landsins almennt, til að þau geti hagrætt, sameinast, eða einfaldlega hætt rekstri?

Góðar hugmyndir um fyrirkomulag í fyrirtækjarekstri verða seint sóttar til Alþingis og þaðan af síður til Framsóknarflokka nútímans, hvort sem þeir kenna sig við framsókn, vinstri grænleika, eða sjálfstæði.

Alþingismenn sem hafa ekki annað erindi, en að ráðskast með rekstur einstakra fyrirtækja og það jafnvel sjálfum sér til hagsbóta, eiga ekkert erindi á Alþingi.

Hvað gleymdist spyr kindin kindarlega?

Það sem gleymdist var að þingmenn eru ekki kjörnir til að gæta hagsmuna einstakra fyrirtækja, heldur heildarinnar og það er ekki eins og þetta sé í fyrsta skipti sem ,,gleymska“ af þessu tagi ríður húsinu við Austurvöll.

Húsinu sem ætlað er til lagasetningar þjóðinni til hagsbóta.

Þjóðin er ekki fyrirtækin í landinu, en alþingismenn eiga samt að búa svo um að þau geti starfað, með eðlilegum hætti þjóðinni til hagsbóta.

Þingmenn stjórnarflokkanna ,,gleymdu“ því og ákváðu að blanda sér í annað sem þeim kemur ekki við, nema náttúrulega ef þeir hafa hagsmuna að gæta eins og komið hefur fram.

Og þá hefði verið eðlilegt að sitja að minnsta kosti hjá við atkvæðagreiðsluna!

(Myndin eru fengin úr Heimildinni og teikningin úr Morgunblaðinu)

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...