Samkeppnisraunir kjötiðnaðarins og pakkaflytjenda


Myndin hér að ofan er af frétt Morgunblaðsins þar sem fjallað er um þá möguleika sem menn telja að geti falist í að sameina afurðastöðvar í kjötiðnaði. Viðmælandi blaðsins telur að hægt sé að lækka verulega kostnað við slátrun og vinnslu verði veitt undanþága frá ákvæðum samkeppnislaga líkt og gert hefur verið varðandi mjólkuriðnaðinn. 

Miklir erfiðleikar eru í kjötiðnaðinum vegna aukins innflutnings á kjöti og hafa komið fram tillögur um sameiningu kjötvinnslna í þeim tilgangi til að gera reksturinn hagstæðari. Hugmyndirnar ganga út á, að annað hvort sameina, eða koma á verkaskiptingu og samvinnu afurðastöðvanna.

Samkeppniseftirlitið hefur lagst gegn því eftir því sem segir í fréttinni sem er hér fyrir ofan í mynd. Sá sem rætt er við telur andstöðu Samkeppniseftirlitsins vanhugsaða, því með sameiningu megi lækka kostnað við vinnslu á kjöti talsvert og telur að dæmin úr mjólkuriðnaðnum sýni að hægt sé að gera betur í kjötiðnaðnum með fyrrnefndum sameiningum og hagræðingu sem af sameiningum hljótist.

Hann bendir á, að miklu meiri heimildir til sameiningar og samvinnu séu í Evrópusambandinu og hafi verið þar frá upphafi og telur það skjóta skökku við að Samkeppniseftirlitið berjist gegn þessum hagræðingarhugmyndum hér á landi. 

Viðmælandi blaðsins bendir á, að það ætti að vera hlutverk Samkeppniseftirlitsins að jafna stöðu aðila á markaði en ekki að auka ójöfnuðinn.

Við lestur þessa kemur upp í hugann að fyrir nokkru síðan voru tvö fyrirtæki í samskonar iðnrekstri sem ekki er annan að finna í landinu. Annað er norður í landi en hitt er á Faxaflóasvæðinu og sem eru nú í eigu  sama aðila. Sameinuð á þann hátt, að það norðlenska keypti það sem er á Faxaflóasvæðinu og síðan mun verð á þjónustu þess fyrirtækis hafa hækkað.

Eins og sjá má af meðfylgjandi skjáskotum af umfjöllunum Morgunblaðsins um þessi mál að undanförnu er umræðan þung, enda erfiðleikarnir umtalsverðir.



Það mun vera unnið að útfærslum á tillögum um hvernig hægt sé að auka hagkvæmnina í kjötiðnaðinum, menn eru sammála um að vandi steðji að afurðastöðvunum og að leita þurfi leiða til að jafna aðstöðuna, en greinir á um hve langt skuli ganga. 


Blaðið ræðir við fimm menn um málið, þá Ágúst Torfa Hauksson formann landssamtaka sláturleyfishafa, Gunnar Þorgeirsson formann Bændasamtaka Íslands, Pál Gunnar Pálsson forstjóra Samkeppniseftirlitsins, Ólaf Stephensen framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda og Breka Karlsson formann Neytendasamtakanna.

Ágúst Torfi segir að samtökin sem hann stendur fyrir hafi þá afstöðu að breyta skuli búvörulögum og heimila samstarf og verkaskiptingu í kjötiðnaðinum. Hann vill að horft verði til ákvæða sem gilda um hagræðingu í mjólkuriðnaði, þar hafi ávinningur neytenda og bænda orðið mikill og telur að þannig muni það að líkindum verða í kjötiðnaðinum og lýsir eftir að bændum og þeim sem úr afurðum þeirra vinna verði gefinn möguleiki í samkeppninni.

Formaður Bændasamtakanna er sama sinnis og vill hagræðingu í greininni til að auka möguleika hennar til að takast á við samkeppnina.

Ólafur Stephensen er ekki á sama máli og telur að það væri misráðið að breyta rekstrarumhverfi norðlenskra afurðastöðva áður en rannsókn Samkeppnisstofnunar sé lokið og að ljúka þurfi rannsóknarvinnu á afleiðingum slíkra aðgerða. Telur hann að skoða þurfi m.a. afleiðingar þess, að breyta lögum til að hægt sé að sameina þrjár afurðastöðvar á Norðurlandi. Hann telur að tryggja þurfi að bændur og neytendur þurfi að njóta ábata af slíkum gerðum og segir orðrétt: ,,Talsmenn þess að sameina afurðastöðvar án atbeina Samkeppniseftirlitsins virðast ekki treysta sér til að rökstyðja [...] að slíkur samruni sé í þágu neytenda".
Breki Karlsson er á sömu slóðum og Ólafur og óttast um hag neytenda ef af sameiningum verði.

Í máli Páls Gunnars forstjóra Samkeppniseftirlitsins, kemur fram að núverandi samkeppnisreglur komi ekki í veg fyrir samvinnu og samruna fyrirtækja í kjötvinnslu en bendir á að skoða verði hvort það skaði hag bænda og neytenda. Þá nefnir hann að komið hafi fram að bændur telji sig enga samningsstöðu hafa gagnvart afurðastöðvunum og bendir á að tryggja verði að bændur geti veitt stöðvunum aðhald. Páll er opinn fyrir því að rýmka íslenskt regluverk til samræmis því sem gerist í Evrópusambandinu og Noregi. Rétt er að benda á, að það sama hefur komið fram í greinaskrifum hans, er þau skiptust á skoðunum um þessi mál í fjölmiðli Páll og Erna Bjarnadóttir hagfræðingur. 
Páll segir síðan: „Samkeppniseftirlitið hefur ekki sett sig á móti þeim en varað við þeirri leið sem farin var á Íslandi vegna mjólkuriðnaðarins. Með því er tekið úr sambandi það eftirlit sem fyrst og fremst snýst um að tryggja að hagsmunir bænda og neytenda séu ekki fyrir borð bornir.“

Pósturinn ohf.

Í aðsendri grein í Morgunblaðið 27/2 síðastliðinn skrifar Ólafur Stephensen um einokunarrekstur Póstsins, sem rekur pakkadreifingu um landið á verði sem er undir kostnaðarverði og bakkað upp með fjárgjöf úr ríkissjóði. 
Flestir sjá að slíkur rekstur er ekki samkeppnisrekstur á heilbrigðum grunni, ekki frekar en ríkisrekin sauðfjárbúskapur er gagnvart öðrum kjötframleiðendum. 
Það verður þó að taka það fram, að sá rekstur mun seint geta borið sig í samkeppnisrekstri og ríkisstuðningur er víðar en hér látinn standa undir þeirri ósk okkrar margra, að eiga kost á þessari kjöttegund. 
Hvort aðrar þjóðir hafa komist að þeirri niðurstöðu að til að halda kindabúskap gangandi þurfi að framleiða allt að tvöfallt það sem þjóðin torgar og flytja mismuninn út með meðgjöf úr ríkissjóði til ríkra landa er ritara ekki kunnugt um.

Jákvæðu fréttirnar

Rétt þykir að enda þessi skrif á jákvæðum nótum og benda á grein þá sem myndin hér fyrir neðan sýnir og er með fyrirsögninni ,,Aukin framleiðni skilar milljörðum" þar sem segir í inngangi:
,,Framleiðni hefur aukist mjög í mjólkuriðnaði eftir að afurðastöðvar fengu heimild til sameiningar og verkaskiptingar. Framleiðnin hefur vaxið tvöfalt hraðar frá árinu 2000 en algengt er í atvinnuvegum hér á landi. Árlegur ávinningur er nú tveir til þrír milljarðar og núvirði hans er 50 til 70 milljarðar króna. Þetta er meðal niðurstaðna athugunar Ragnars Árnasonar, hagfræðings og prófessors, á þróun framleiðni í mjólkuriðnaði." 
                              

Það er sem sagt hægt að finna dæmi um að hagræðing hafi skilað góðri niðurstöðu og ætti það engan að undra, en rétt er að taka undir orð forstjóra Samkeppniseftirlitins um að búa þurfi vel um alla hnúta þegar farið er út í slíka aðgerð og þá bæði með hag bænda og neytenda í huga. 




Blóðtaka rauðkál og fleira

 

Blóðtaka, rauðkál og fleira

2021-02-23 (8)Í Kjarnanum er frétt af því að Flokkur Fólksins sé búinn að finna fjöruna sína og lendingin er sú að banna skuli ,,blóðmerahald".

Blóðmerabúskapur gengur út á það að dýralæknar taka blóð úr fylfullum hryssum og til vinnslu í líftækniiðnaði. 

Það eitt að blóðtakan sé unnið af dýralæknum og skepnuhaldið undir eftirliti dýralækna og hryssuhaldið einnig undir eftirliti dýralækna Matvælastofnunar ætti að geta dugað til að venjulegt fólk sæi, að um er að ræða sómasamlegan búskap sem flestir ættu að geta sætt sig við.

Það dugar samt ekki Flokki fólksins og ekki er annað að skilja á þeim ágæta flokki, en að vilji standi til merunum skuli öllum slátrað og fólkið sem þennan búskap stundar finni sér annað að gera að slátruninni lokinni.

2021-02-23 (9)Þingmaður annars stjórnmálaflokks vann sér það til frægðar að kveða uppúr með það að drepa ætti alla minka í eldi og leggja af minkabúskap og reyndar blóðmerabúskap líka. Gerðist þetta við lítinn fögnuð margra og m.a. undirritaðs. Hugmyndin um förgun blóðmera er sem sagt komin frá þeim þingmanni og hefur nú skotið rótum hjá Ingu Sæland og Flokki fólksins.

Þingmaðurinn fyrrnefndi vann sér ekki mikinn stuðning í flokki sínum og er kominn í pólitíska fýlu og eftir því sem best er vitað heldur hann sig þar. Nema að verið geti að hann sé kominn yfir til Flokks fólksins, en ekki er vitað að svo sé, þó hugmyndafræði hans varðandi landbúnaðarmál falli þar í góðan jarðveg.

 

 

 

Önnur landbúnaðmál 

2021-02-23 (3)Annars er margt jákvætt að frétta af landbúnaðarmálunum samkvæmt því sem lesa má í Morgunblaði dagsins. Uppskera á rauðkáli fimmfaldast og mikil aukning var á ýmsum öðrum tegundum s.s. káli kartöflum og korni og fleiru.

Fuglaflensan er á sveimi í Evrópu og Matvælastofnun er á tánum, fylgist með framvindu flensunnar og við treystum því að þar með sé það allt í góðum höndum.

Vonum það besta en búumst við því versta, eins og íslenska þjóðin hefur lengst af þurft að gera.

Lengst til vinstri á síðu 4 í Morgunblaðinu í dag er sagt frá hremmingum dreifbýlisverslunarinnar. Sá verslunarrekstur fékk kaldar kveðjur frá fjármála og forsætisráðherra á dögunum, þegar þau færðu Póstinum 480 milljóna gjöf frá skattborgurunum til að Pósturinn gæti haldið áfram að dreifa vörum út um land beint til neytenda og undir kostnaðarverði. Ekki fylgdi sögunni að aðfangaöflun dreifbýlisverslunarinnar yrði niðurgreidd af almannafé með sama hætti, en við sjáum hvað setur.


Sameining afurðastöðva bænda og tollamál

Myndin er úr safni höfundar og er af kisu sem lenti í sjálfheldu, sem hún þurfti aðstoð við að komast úr.


Við sem reynt höfum samkeppnisást ýmissa aðila í samfélagi okkar undanfarna áratugi fylgjumst af áhuga með þeirri umræðu sem fram fer nú um stundir varðandi þau mál.

Við vitum að samvinnuhugsjónin getur brenglast og við vitum líka að samkeppnisást sumra aðila á fyrirbærinu ,,markaði" fer æði oft eftir því hvað viðkomandi hentar í það og það sinnið.

Hagsmunatengsl og gamalt dæmi

Íslenskt samfélag er lítið og tengsl geta verið æði fljót að myndast milli aðila sem hagsmuna hafa að gæta og stundum er það þannig að tveir eða fleiri taka sig saman, með það sem markmið að losna við þann þriðja. Þegar það er gert, er oftast valinn sá sem líklegt er talið að takast muni að fella, og það hefur tekist og það örugglega oftar en einu sinni. Meðulin eru sem sagt ekki alltaf vönduð og til eru líka dæmi um, að tveir hafi notað sér tök sín innan sameiginlegra hagsmunagæslusamtaka til að þjarma að þeim þriðja og bola honum af markaði með baktjaldamakki af ýmsu tagi.

Nýlegt dæmi

Fyrir til þess að gera stuttu síðan yfirtók fyrirtæki sem hafði verið í samkeppnisrekstri við annað fyrirtæki rekstur þess síðarnefnda og náð þannig einokun á þeim markaði sem um er að ræða, án þess að Samkeppnisstofnun sæi ástæðu til að grípa inní það ferli. Staðan á þeim markaði sem þar um ræðir, er þar með orðin þannig: að fjölmörg fyrirtæki sem nauðsynlega þurfa á sérhæfðri þjónustu að halda hafa ekki lengur val neitt val og einokunarsinnarnir hafa þar með náð sínu fram.

Löngunin til að sameinast

Nú er komin upp sú staða í landbúnaðinum að afurðastöðvar hafa áhuga á að sameinast og eftir því sem undirrituðum hefur skilist, er um að ræða stöðvar á norðanverðu landinu. Hafa þarf í huga að sú sameining ætti ekki að hafa mikil áhrif á markaðnum, því ekki er annað vitað en að að stærsta afurðastöð sunnlenskra bænda sé utan við þessar sameiningarviðræður og því myndi væntanlega verða áfram samkeppni á því sviði sem um er að ræða, sem er aðallega slátrun og sala sauðfjárafurða. 

 Erna Bjarnadóttir hagfræðingur, beindi spurningum til Samkeppniseftirlitsins í innsendri grein á visir.is þann þann 15. febrúar síðastliðinn og spurði sem svo, hvað það væri sem gerði það að verkum að ekki gætu gilt sömu undanþágur frá samkeppnislögum á Íslandi, Noregi og í Evrópusambandslöndunum?

Hún bendir á að samkvæmt norsku samkeppnislögunum getur norski kóngurinn innleitt undanþágu frá ,,gildissviði norskra samkeppnislaga." 

Í niðurlagi greinar sinnar beinir Erna eftirfarandi spurningu til forstjóra Samkeppniseftirlitsins:

,,Hvaða skuldbindingar Íslands að EES-rétti gera það að verkum að undanþágur geta ekki gilt frá samkeppnislögum á Íslandi fyrir landbúnað ef slíkar undanþágur gilda í Noregi og ESB?"

Svar forstjórans

Páll Gunnar Pálsson svarar grein Ernu Bjarnadóttur með grein sem hann skrifar á sama miðil 16. febrúar 2021 á þann hátt, að ekki er svo að sjá að það sé Samkeppniseftirlitið sem sé hindrunin. Páll telur ,,vel koma til greina að innleiða í íslenskan rétt undanþágur frá samkeppnislögum, áþekkar þeim sem gilda í Noregi og ESB." og vitnar í umsögn Samkeppniseftirlitsins um frumvarp um breytingu á úthlutun tollkvóta. Þá telur hann margar leiðir vera til að ,,efla stöðu bænda gagnvart viðsemjendum sínum", auk þess sem til álita komi ,,að auðvelda bændum og hvetja þá til aukins samstarfs sín á milli" og bætir við, ,,Bændur eru staddir á ákveðnum upphafspunkti, þar sem þeir hafa að verulegu leyti misst forræði á því afurðavinnslukerfi sem þeir byggðu upp á síðustu öld.". Síðan segir hann  að ,,Í þessu skyni kemur til greina að heimila bændum, á þeim sviðum landbúnaðar þar sem rekstrareiningar eru mjög litlar, samstarf sín á milli umfram það sem núgildandi samkeppnislög heimila, með líkum hætti og gert hefur verið í Noregi og á vettvangi Evrópusambandsins.“ 

...forsagan

Í svari sínu minnir Páll Gunnar Pálsson á að samkeppnisreglur nútímans eigi rætur að rekja til hagsmunabaráttu bænda í Bandaríkjunum, sem í lok 19. aldar hafi þurft að berjast við einokunartilburði flutningafyrirtækja og afurðastöðva, sem kemur ekki þeim sem þetta ritar á óvart, sé hugsað til baka inn í íslenskan veruleika.

Viðhorfin 

Svari forstjórans lýkur á þann hátt að bændur ættu að geta vel við unað. Hann lýsir ánægju með jákvæð viðhorf bænda, viðhorf sem beri merki sóknar og nýsköpunar, áhuga á að efla forræði yfir eigin framleiðslu og vilja til að styrkja tengslin við neytendur. Tekjur bænda koma frá neytendum, ýmist í formi styrkja af ýmsu tagi s.s. í sauðfjárrækt, nautgriparækt og garðyrkju og síðan sem tekjur af sölu afurðanna bæði hjá þeim fyrrnefndu sem hinum búgreinunum, þar sem samskiptin eru gegnsærri og nánari.

Skrifum þeirra Ernu Bjarnadóttur og Páls Gunnars Pálssonar um þetta efni er ekki víst að sé lokið, þ.e. samkeppnismálin, sameiningu afurðastöðva og tollafyrirkomulag á landbúnaðarvörum. Svo mikið er víst að þegar þetta er ritað birtist grein eftir Ernu, þar sem hún fagnar svari forstjórans og hnykkir á hvernig að skuli staðið; bendir á 2. grein norskrar reglugerðar og tilteknar greinar í norskum og ESB- samkeppnislögum.

Besta vörnin

Erna segir augljóst að þau séu sammála um innleiða undanþágur og að sókn sé besta vörnin, hún segist spila sókn í fyrri grein sinni og fagnar þeim sigri sem virðist hafa náðst fyrir íslenska bændur. Óhætt er að fagna því, ef niðurstaðan verður sú sem sóst er eftir, að minni fyrirtæki geti sameinast, með það sem markmið að reksturinn styrkist. Óhætt er samt að fullyrða, að það er sama hve mikil sameining afurðastöðva á sér stað: að sameiningin ein mun ekki tryggja reksturinn.

Mun eitthvað lagast

Meðan haldið er áfram að framleiða allt að tvöfalt umfram markaðsþörf, svo sem gert er í sauðfjárræktinni, í sérkennilegu viðskiptasambandi við ríkisvaldið, sambandi sem kalla má verktöku og samþykkt er á Alþingi í búningi búvörusamninga og síðan framfylgt af stjórnvöldum sem kosta að auki markaðssetningu á afurðinni að hluta í beinni samkeppni við búgreinarnar sem eru utan búvörusamninganna, mun fátt lagast. 

Öðrum komið til bjargar

Vel getur verið að hægt sé að finna það út með pólitískum loftfimleikum og atkvæðaveiðum að fjármunum þjóðarinnar og takmörkuðu beitilandi sé best varið með slíku ráðslagi. Nýlega mátti lesa í Bændablaðinu hugleiðingu í þá veru af ritstjóra blaðsins, að halda þyrfti úti magnframleiðslu (á kindakjöti væntanlega) til að íslenska þjóðin gæti í óljósri framtíð komið til bjargar öðrum þjóðum, ef þær tækju nú upp því á að stríða hver við aðra eins og fyrrum hefði gerst. Séu slík holtaþokusjónarmið ráðandi í stjórnsýslunni er vandséð hvernig komast á út úr fjáraustri, skipulagsleysi og almennu rugli í þessum málum.

Sinnaskipti

Eftir að þessum skrifum var lokið kom fram enn ein greinin um samkeppnismál og tollamál undir yfirskriftinni ,,Samvinna bænda í sölu búvara" og nú frá einum af vonbiðlum Framsóknarflokksins til kjósenda vegna komandi alþingiskosninga. Sá sér nú sólina í afstöðu Noregs og ESB til samkeppni og tollamála og sannast þar sem endranær, að seint verður reiknað út með vissu hver afstaða þess stjórnmálaflokks er til Evrópumálanna!



Framboð tveggja flokka

Listar tveggja flokka

 Framboðslistar tveggja flokka eru teknir til umfjöllunar í tveimur fréttaskýringum í Morgunblaðinu 15/2/2021.

Listarnir eru annarsvegar listar Sjálfstæðismanna og hins vegar listar Samfylkingarinnar og blaðamaðurinn sem um fjallar er Andrés Magnússon.


Andrés tekur til umfjöllunar framboðsmál Sjálfstæðismanna með eftirfarandi hætti:
,,[...] Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir dóms­málaráðherra hyggst sækj­ast eft­ir efsta sæti í sam­eig­in­legu próf­kjöri höfuðborg­ar­kjör­dæm­anna, þar sem Guðlaug­ur Þór Þórðar­son ut­an­rík­is­ráðherra er fyr­ir."

Næst er tekið fyrir Norðvesturkjördæmi og þar er en meira fjör, því Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra, sækist eftir fyrsta sætinu og mun þá taka það ,,af" fyrrverandi formanni Bændasamtakanna og núverandi þingmanni Haraldi Benediktssyni.
Þórdís hefur vakið athygli fyrir glæsilega framgöngu í ráðherrastarfinu, sköruglegan og skýran málflutning og gera má ráð fyrir að mörgum sjálfstæðismanninum þætti fengur í að fá hana í oddvitasætið.



Suðurkjördæmi kemur til umfjöllunar í fréttaskýringunni og þar eiga Sjálfstæðismenn góðan kost þar sem er Guðrún Hafsteinsdóttir iðnrekandi í Hveragerði. Gera má ráð fyrir að mörgum sjálfstæðismanninum finnist gott að fá hana í fyrsta sæti lista flokksins í kjördæminu.


Næst tekur blaðamaðurinn fyrir framboð Samfylkingarinnar á höfuðborgarsvæðinu og greinir frá því að listar hafi verið samþykktir með yfirgnæfandi fjölda atkvæða.
Þar eru það Helga Vala Helgadóttir og Sigrún Flosadóttir hagfræðingur, sem leiða munu listana og ættu flestir að geta verið ánægðir með það val.
Viðhorf blaðamannsins til flokksins sem hann er að fjalla um birtist líklega í eftirfarandi texta:
,,Ef flokk­ur­inn er bæði að fær­ast til vinstri og í pó­púlí­sk­ar átt­ir, þá verður auðvitað fróðlegt að fylgj­ast með því hvernig Kristrún Flosa­dótt­ir sem­ur sig að því, hún er ekki sama sinn­is og var gagn­gert sótt til þess að ein­hver í þing­flokkn­um kynni pró­sent­u­r­eikn­ing."

Óhætt er að segja að hér hafi pólitískar skoðanir höfuðsins sigrað hendur og fingur á lyklaborðinu, því varla gerir blaðamaðurinn ráð fyrir að svo sé komið fyrir þingflokki Samfylkingarinnar að ekki finnist þar fólk sem ræður við prósentureikning!

Ýmislegt má segja um þingmenn, en að ætla þeim það að þeir kunni ekki einföldustu tök á reiknikúnstum viðskiptareiknings er frekar hæpið og ómaklegt.
Við gerum ráð fyrir að þeir ráði við þann stærðfræðianga hvar í flokki sem þeir eru. 

Myndirnar eru úr Morgunblaðinu.

Ráðherra í eggjabúi


Landbúnaðarráðherra heimsótti hænsnabú í Hrísey samkvæmt því sem lesa má á mbl.is.

Sé fréttinn lesin verðum við margs vís um varphænsnabúskap á eyjunni. 

Þar munu vera í varpi svokallaðar ,,landnámshænur" sem hér eru kallaðar og finna má um veröld víða. 
Til samanburðar eru til tíndar og nefndar í umfjöllun vefritsins ,,iðnaðarhænur" en þess er ekki getið hvernig þær eru samansettar né innréttaðar.

Járnavirkið sem ráðherrann stendur algallaður við, er sýnilega iðnaðarafurð og sama má segja um húsið sem hann er inni í.

Hann virðist virða fyrir sér af áhuga það sem hann sér á Hríseyjarbúinu, en einna mest áberandi er iðnaðarsmíði sú sem fyrr var nefnd og sem virðist hafa verið komið upp landnámshænunum til hægðarauka.



Landnámshænurnar svokölluðu og sem sumsstaðar hafa verið kynbættar með svörtum og fallegum  dönskum hönum, verpa eggjum sem aðrar hænur, þegar sá gállinn er á þeim. Ritari minnist þess að hafa séð slíkar hænur á mynd frá Georgíu og þær eru hér fyrir ofan.

,,Iðnaðarhænur" er nýyrði í hans eyrum og væri fróðlegt ef blaðamenn mbl.is myndu skýra út hvers kyns fölmúlavíl er þar um að ræða; hvort þær séu rafknúnar eða einhvernvegin öðruvisi knúnar. Eru þær svo dæmi sé tekið settar í gang að morgni og síðan drepið á þeim að kvöldi og þó sagt sé í greininni að eggin séu stærri úr iðnaðarhænunum, þá kemur ekki fram hve mikið stærri né hvort eggin komi linsoðin eða harðsoðin úr þeim, eða koma þau ef til vill spæld.

Sá sem þetta ritar verður frekar spældur þar til hann verður upplýstur um þessa ótrúlegu nýjung sem trúlega er fundin upp af snjöllum iðnaðarmanni eða mönnum norður þar.

Slök kenning

Slök kenning

Sú fallega mynd sem fylgir umfjöllun Bændablaðsins um COVIT-19 faraldurinn er ekki í beinum tengslum við það sem fjallað er um í greininni.

Rétt er, að við höfðum engum hernaðarmætti yfir að ráða í heimstyrjöldunum en gátum selt dálítið af kindakjöti úr landi. Meira hefur þó munað um fiskinn og það stenst tæplega skoðun að við eigum að halda uppi offramleiðslu á kindakjöti í þeim tilgangi að vera viðbúin ef slíkar hörmungar endurtækju sig.

Sú offramleiðsla sem er á lambakjöti hjá okkur og sem er vissulega mikil á íslenskan mælikvarða, er ekki einu sinni sem dropi í hafið hjá stórþjóðum Evrópu, hvað þá hjá þeim sem lengra er að sækja; er sem lítið rykkorn í eyðimörk í því tilliti.

Betra væri að stilla framleiðsluna af, eftir þeirri þörf sem hér er fyrir hana og tryggja þeim sem framleiðsluna stunda viðunandi afkomu.

Afkomu sem væntanlega yrði auðveldara að tryggja ef framleiðslumagnið yrði miðað við raunverulegan markað, þ.e. innanlandsmarkað og væri með hóflegri meðgjöf af almannafé í stað þess ómarkvissa fjárausturskerfis sem nú er.

Styrkja svo dæmi sé tekið þau sem eru í raunverulegum búskap, en sleppa hinum sem eru að framleiða í sig og sína.

Eins og kom vel fram í grein sem birtist þann 9. febrúar 2021 í Vísi eftir Söru Dögg Svanhildardóttur, er afkoman slök, framleiðslugeta sauðkindarinnar lítil og búgreinin almennt í kröggum.

Að ætla íslensku þjóðinni að halda úti viðvarandi offramleiðslu á kindakjöti í þeim tilgangi að vera til staðar til að hjálpa öðrum þjóðum með matvæli, ef þeim skyldi detta í hug að fara herja hver á aðra,  er ekki góð hagfræðikenning.
Myndin er af vef Bændablaðsins

Fullt hús fjár?

Fullt hús fjár?




Þann 9. febrúar 2021 birtist grein eftir Söru Dögg Svanhildardóttur á Vísi þar sem hún fjallar um sauðfjárbúskap foreldra sinna. Hún segir þau vera af þriðju kynslóð þeirra sem sitji jörðina og stundi þennan búskap.

Minnist þess þegar sveitirnar fylltust af ungu fólki á vorin, fólki sem var fullt áhuga á að takast á við sveitastörfin, en tímarnir breytast og mennirnir með, eins og þar stendur og nú er staðan sú að vinsældir sveitastarfanna hafa dvínað.

Foreldrum hennar er tíðrætt um afkomuna og finna fyrir því hve hún hefur versnað og hve allt hefur breyst frá því sem var þegar fjölskyldan var fimm manna og yfir í það, að nú sitja þau einungis tvö eftir á búinu.

Sara telur að bú með 400 kindur gefi af sér um 8000 kíló af kjöti á ári. Fyrir það greiði afurðastöðin fjórar milljónir og ríkið greiði í formi beingreiðslna um fjórar milljónir til viðbótar. Að auki koma til greiðslur fyrir ull og túnhirðu sem geri hálfa milljón.  ,,Heilt yfir gefur býlið um 9 milljónir á ári, með dyggum stuðningi ríkis og afleiddu verði afurðastöðva." segir Sara í grein sinni.

Af þessu sést að staðan er ekki góð og framleiðslugetan er afar lítil (8000 kíló af kjöti) og það sem verra er: að um helmingur teknanna koma sem greiðslur úr ríkissjóði.

Það má öllum vera ljóst að þessi búgrein er í miklum vanda. Sé hún borið saman við hverja aðra kjötframleiðslugrein sem er, kemur í ljós gríðarlegr munur.

Bú sem er með nautakjötsframleiðslu sem aðalbúgrein væri í mjög erfiðri stöðu með framleiðslu sem ekki væri nema 8000 kíló á ársgrundvelli, svo ekki sé nú farið út í samanburð við alifugla og svínarækt.

Sauðkindin er mjög afkastalítið kjötframleiðsludýr og samkvæmt tölunum sem Sara tínir til gefur hver kind um 20 kg af kjöti á ári og er það ríflega metið, því ef rétt er munað er venjulega talað um 18,2 kíló. 

Þá má ekki gleyma því að beinahlutfallið er mun meira en hjá flestum öðrum búfjártegundum sem notuð eru til kjötframleiðslu. Það þekkjum við vel sem kunnum að meta kindakjötið; við vitum hvert hlutfallið af afskurðinum er og við vitum líka hvert hlutfall beinanna er.

Þetta er samt sú landbúnaðararafurð sem íslensk stjórnvöld hafa veðjað á um marga áratugi og greiða úr almannasjóðum um helming framleiðslukostnaðarins sem styrki til framleiðendanna, halda úti starfsemi til markaðssetningar til annarra landa, landa þar sem enginn kannast við að skortur sé á þessari kjöttegund, enda flestir vanir öðru kjöti og betra að þeirra mati.

Við erum fátt annað en vaninn og þannig er með kjötneyslu sem aðrar venjur, okkur þykir best það sem við erum vön og trúlega er það ekki síst bundið við matvæli. Undirritaður hefur smakkað kindakjöt nokkurra annarra landa og ekki fundið afgerandi bragðmun þar á milli. Af því dreg ég þá ályktun að hin meinta ,,sérstaða" íslenska kindakjötsins, sem að sögn framleiðenda þess byggist á kryddjurtaáti skepnanna á hálendi landsins, sé stórlega ofmetin svo vægt sé til orða tekið.

Að byggja tekjur sínar á verktöku hjá ríkissjóði vegna framleiðslu á einhverju sem engin vöntun er á og er haldið úti vegna hugsanatregðu gamalla stjórnmálaafla sem byggja fylgi sitt á dreifbýlisatkvæðum er ekki traustur grunnur til að byggja á svo sem dæmin sanna. 

Þessi búgrein er í miklum vanda og það eru ekki síst stjórnmálamenn Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sem á því bera ábyrgð og þá ábyrgð verða þeir að axla svo lengi sem þeir njóta fylgis, annað hvort með því að kafa æ dýpra í vasa skattborgaranna eða, að finna aðrar leiðir til að tryggja atvinnu á landsbyggðinni en að halda uppi framleiðslu á kjöti sem engin þörf er fyrir. Ríkissjóður getur vandræðalaust fundið farveg fyrir ráðstöfun aura sinna án tilgangsleysis af þessum toga.









Að stjórna flokki




Að breyta flokki

Nafn góðrar bókar sem ég hlustaði eitt sinn á í streymisveitu  var ,,Að breyta fjalli". 
Sérkennilegur titill og ekki gott að ráða í hvað höfundi er í huga lengi vel, en að lokum kemur í ljós hvað titlinum ræður.

Í morgun las ég aðsenda grein í Morgunblaði dagsins og sannfærðist um að lestri loknum að það er líka hægt að breyta flokki og ef það skyldi nú vera einhverjum vafa undirorpið, þá er að minnsta kosti hægt að láta sig dreyma um að gera það.

Ritari greinarinnar er hugumstór líkt og riddarinn gamalkunni og ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur, því það er hinn gamalgróni Sjálfstæðisflokkur sem til stendur að breyta og það er landbúnaðarstefna flokksins sem til stendur að höggva í, breyta og laga til, þar til allt verður orðið eins og það á að vera að mati höfundar.

Hann byrjar á að setja fram eftirfarandi fullyrðingu:  ,,Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur lengi verið for­ystu­afl í ís­lensku þjóðlífi og um leið tryggt póli­tísk­an stöðug­leika sem hryggj­ar­stykkið í inn­lend­um stjórn­mál­um."

Og með þetta leggjum við af stað inn í daginn, vitandi að hverjum mun finnast sinn fugl fagur og allt það og af því að við viljum vera jákvæð, þá rifjum við upp Sjálfstæðisflokkinn sem einu sinni var, flokkinn sem Bjarni heitinn Benediktsson, Geir Hallgrímsson og fleiri góðir heiðursmenn veittu forystu.

En hver er hann, þessi stjórnmálaflokkur sem maðurinn er að vitna til? Er það flokkurinn sem á talsmenn sem skrifa texta sem er ,,ekkert annað en orð" svo vitnað sé í grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær? Er hann flokkurinn sem til var fyrir Viðreisn? Líklega. Því varla er það flokkurinn sem er í dag, sitjandi í ríkissstjórn undir forystu Vinstri grænna og með Framsóknarflokkinn á sína vinstri hönd og fyrrnefnda Viðreisn á þá hægri.

Tillögurnar

Höfundur lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna, enda landsþekktur frumkvöðull og áhugamaður um sölu íslenska lambakjötsins undir vörumerkinu ,,Icelandic Lamb" og við vitum að sótt hefur verið í þeirri baráttu um veröld víða s.s. til Indlands og Kína, en af einhverjum ástæðum rekur okkur ekki minni til að sótt hafi verið á varðandi markaðssetningu á hinni einstöku afurð til Nýja Sjálands. 

Hinu hefur verið tekið eftir að vinnan hefur orðið að ,,hringrás", því fyrir nokkrum vikum bárust fréttir af því að hið íslenska lambakjöt hefði hringsólað um Evrópu og endað í Færeyjum eftir viðkomu m.a. á Spáni. Var þá orðið tveggja ára, en yngt upp með nýrri merkingu og sést að markmiðinu var þar með náð, þrátt fyrir að í eftirfarandi texta sé því stillt upp sem markmiði sem eigi eftir að ná:
,,Þess­um mark­miðum má öll­um ná með því að tvinna sam­an tvo mála­flokka, þ.e.a.s. land­búnaðar- og um­hverf­is­mál, með miklu beinni hætti en nú er. Úr verði hringrás­ar­land­búnaður. Þannig megi greiða fyr­ir auk­inni verðmæta­sköp­un á grund­velli sjálf­bærni, sér­stöðu og vel­ferðar. Um­hverfið, bænd­ur og neyt­end­ur muni njóta."

Vissulega ekki verra að setja sér markmið sem þegar er orðið, en eðlilegra hefði trúlega verið að setja sér markmið sem er trúverðugt og raunsætt að stefna á. Fótboltamenn svo dæmi sé tekið, setja sér ekki sem markmið að skora sama markið aftur!

Lausnin

Stefnuna, markmiðið, þarf að útskýra fyrir flokksmönnum og það er gert m.a. með eftirfarandi hætti:
,,Kjarni henn­ar er í stuttu máli sá að op­in­ber stuðning­ur við bænd­ur verður bund­inn við sjálf­bærni- og um­hverf­is­mæli­kv­arða. Með öðrum orðum, þeir bænd­ur og aðrir 
mat­væla­fram­leiðend­ur sem upp­fylla til­tek­in um­hverf­is­skil­yrði fá op­in­ber­an fjár­hags­leg­an stuðning, aðrir ekki."

Og við veltum því fyrir okkur hvernig muni fara fyrir þeim ,,bændum" sem greitt fá fyrir að framleiða kindakjöt í sig og sína og einnig hina sem kallaðir eru ,,frístundabændur" og framleiða kindakjötið rúmlega ,,í sig og sína",  stunda ,,gæðastýrða sauðfjárrækt" t.d. með því að láta það fé sem ekki skilar sér til rétta að hausti eftir slaklega smölun, sjá um sig sjálft. Láta á það reyna hvort það lifir veturinn af eða ekki, nú eða ef heppnin er með, að einhverjir rekist á það fyrir tilviljun og komi því að húsi.

Allar eiga þessar hugmyndir hins hugumstóra fyrrverandi forstjóra vafalítið erindi inn á væntanlegan Landsfund Sjálfstæðisflokksins og þar á bæ verða þær eflaust teknar, metnar og einhvernveginn fundnar. 
Vandi sauðfjárbænda er ekki minni nú en þegar lagt var af stað með hjálp höfundar þeirrar greinar sem hér er vitnað til og hann mun ekki minnka fyrr en framleiðslan lagar sig að markaðnum og bændurnir losna að einhverju undan þeim verktökuklafa sem þeir eru á hjá ríkisvaldinu.

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...