Allt á að verða til af engu og verða síðan að engu.
Þjóðin sem áður lifði af því sem hafið og landið gaf og gerir að stórum hluta enn, stefnir að því að lifa á ,,einhverju öðru".
Jón á að toga í Tvíbjörn og Tvíbjörn síðan í Þríbjörn... o.s.frv. Stefnan í orkumálunum er:
Að fljóta sofandi að feigðarósi og ósinn sá er í þessu tilfelli orkuskortur.
Lýsa á upp, hita hús og skaffa atvinnutækjum orku og fleira, með engu.
Þá á að fjölga þjóðinni sem unnt er og ef það er ekki hægt með fjölgun þeirra sem fyrir eru, skal flytja inn nýja íbúa, sem gæti vel verið gott ef hugsjónin næði þangað, að gera ráð fyrir að blessað fólkið hefði eitthvað að gera til lengri tíma litið.
Stefnan virðist vera, meðvitað eða ómeðvitað, að gera atvinnurekstri eins erfitt fyrir og mögulegt er, eins og margnefnt bann á hvalveiðum er skýrt dæmi um.
Allir eiga að hafa vinnu, en það á að gerast af sjálfu sér og eftir því sem virðist, helst án þess að snert sé á neinu.
Spurning er hvort ekki þurfi að stofna sérstakan stjórnmálaflokk, með það sem aðalmarkmið, að koma þessari framúrstefnulegu hugmyndafræði í framkvæmd?
Nei, þess þarf ekki, því flokkurinn er til og fer með forystu í ríkisstjórninni og hinir stjórnarflokkarnir dingla með. Líklega í þeirri von, að mun lengra sé í kosningar en almanakið segir, eða að vonin sé, að ævintýrið úr Borgarnesi endurtaki sig, þannig að talning atkvæða að loknum kosningum fari fram með þeim hætti sem henta þykir og niðurstaðan verði sú sem menn vilja.
Undirstöður þjóðarinnar eru nokkrar og fyrstan og fremstan má telja sjávarútveginn og þar með taldar hvalveiðar. Þá koma hinar greinarnar s.s. iðnaður, landbúnaður, verslun og þjónusta og þar með talin ferðamannaþjónusta og er þá að sjálfsögðu alls ekki allt upp talið.
Á atvinnuvegunum stendur allt sem við viljum og þörfnumst og þá viljum við fyrir engan mun missa.
Hvað vinstrigræningjar allra flokka athugi!
Því er það hart á að horfa, að svo er sem sambandið sé rofið og svo sé komið, að a.m.k. einn stjórnmálaflokkur sé á sviðinu sem metur það svo, að hægt sé að komast af án undirstöðunnar.
Vel kann að vera að hægt sé að lifa án þeirra undurstöðugreina, en hætt er við að það verði frekar þunnur magáll að naga til lengdar.
Undirritaður hefur ekki þá þekkingu sem þarf til að skilja hvernig hringrás peninganna getur haldið uppi góðu og vaxandi þjóðfélagi án þess að undirstaðan sé trygg.
Hringrásin auranna er reyndar þeim annmörkum háð, að drjúgur hluti þeirra á það til að leka niður í vel valdar holur þar sem kúra vel valdir menn, á leið sinni og setjast þar að, en það mun vera náttúrulegt eðli hins ,,frjálsa framtaks" og þykir því gott.
Sá sem er verður launa sinna samkvæmt orðtakinu, ,,að verður sé verkamaðurinn launa sinna", heldur sig sjaldnast í hinum notalegu holum, klúðrar ekki rekstri fyrirtækja og þarf sjaldnast að ,,segja af sér", ,,stíga til hliðar", eða eitthvað í þá veru.
Hann tekur einfaldlega við sínu launaumslagi - sem nú til dags mun vera orðið ,,rafrænt" a.m.k. sumstaðar - og heldur áfram að skila sínu meðan það býðst.
Það boð styttist síðan vegna gjörða þeirra sem komist hafa í valdastöður, hafa gleypt sólina og að því loknu orðið svo firrtir, að þeir banna atvinnurekstur daginn áður en hann byrjar, einfaldlega vegna þess að þeim finnst að þannig eigi að standa að málunum.
Vont er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti, var einu sinni sagt og er í fullu gildi enn.