Morgunblaðið fjallar um landbúnaðarmál í dag (7.2.2022).
Í blaðinu er rætt við, sauðfjárbónda í Húnaþingi, en bú hans varð í öðru sæti varðandi afurðamagn af sauðfjárbúum landsins á síðastliðnu ári.
Þar er reynt að fá sem mest út úr hverri skepnu og eins og við vitum, þá byggist það á því að búa sem best að skepnunum hvað allt atlæti og fóðrun varðar og það hefur ekkert að gera með ,,þauleldi“ líkt og malbikaðir alvitringar virðast telja.
Fénaður á Íslandi er ekki alinn neitt líkt og gert var með aligæsir í Evrópu, þó líklegt sé að malbiksbændur haldi að svo sé miðað við það sem frá þeim kemur.
Það eru nefndir til sögunnar fleiri bændur í umfjöllun blaðsins, s.s. búið í Gýgjarhólskoti sunnan heiða sem er að ná góðum árangri sem rétt er að fagna og til viðbótar eru nefndir nokkrir frístundabændur sem eru með 6 til 25 frístundarollur sem sagðir eru ná góðum árangri í ríkisstyrktu dútli sínu.
Á öðrum stað í blaðinu er grein eftir fyrrverandi landbúnaðarráðherra, sem þrátt fyrir góða viðleitni hafði það ekki af að leysa til allrar framtíðar vandamál þessa fjölbreytta atvinnuvegar, og nú er uppi vandi sem þarf að leysa að hans sögn.
Hann segir í fyrirsögn greinar sinnar að nú séu ,,Gríðarlega erfiðir tímar fyrir sauðfjárbændur“ og getur hann eflaust trútt um talað, svo annt sem honum er um atvinnuveginn.
Hinn fyrrverandi landbúnaðarráðherra, segir í grein sinni og vitnar í grein sem bóndi ritaði í Bændablaðið, að verðlækkun afurða sauðfjárbænda séu meiri en nokkur atvinnuvegur þolir, og segir að lítið hafi þokast. ,,Ástæðan er offramleiðsla, ekki síst vegna þess að útflutningsmarkaðir brugðust“, segir þar.
Þegar hingað er komið kemur á lesarann hik og undrun, því hvernig getur það sem ekki hefur verið til, brugðist?
Þá hálfu öld sem undirritaður hefur fylgst með landbúnaðarmálum, hefur aldrei verið til útflutningsmarkaður fyrir lambakjöt, einfaldlega vegna þess að framleiðslan hefur verið of kostnaðarsöm til að hægt sé að fá fyrir hana það sem þarf til að borga útlagðan kostnað.
Markaður fyrir þessa ágætu vöru getur varla talist vera til, ef ekki fæst nema lítill hluti af þeim kostnaði sem til féll við að framleiða afurðina.
Þannig er staðan og svo hefur verið svo lengi sem elstu menn muna.
Fara þarf aftur fyrir minni þeirra sem nú eru á fótum til að finna dæmi um að útflutningur á lambakjöti hafi borgað sig.
Landbúnaðarráðherrann fyrrverandi veit að þjóðin rekur búgreinina til að ,,landið haldist í byggð“ en ekki til að græða á henni og ætli ekki megi segja, að stjórnmálin hafi komið því svo fyrir að ákveðinn hópur geti stundað þá búgrein sem hugur þeirra stendur til og fengið fyrir það greitt úr ríkissjóði til að geta átt til þess möguleika að geta lifað af búskapnum?
Mörg erum við sem viljum hafa tryggan aðgang að lambakjöti og víst er, að svo verður ekki nema að kjötið sé framleitt.
Reyndar væri hægt að flytja það inn frá Nýja Sjálandi en ekki er víst að stemming sé fyrir því. Síst af öllu á tímum eins og þeim sem nú eru uppi; þegar ekki má lifa í og af landinu, en þó náðarsamlegast búa í því, en alls ekki þannig að það sé nytjað til eins eða neins, a.m.k. ekki til orkuframleiðslu eins og skýrt hefur komið fram að undanförnu.
Þó virðist sem byggja megi húsnæði fyrir fólk og brjóta til þess land.
Það fólk verður síðan að finna sér framfæri við að snúast í kringum pappírsstafla í eigu ríkisins eða einkaaðila, en þó helst af öllu fyrir ríkið og á launum hjá því!
Síðar í grein sinni ræðir hinn fyrrverandi ráðherra sjónvarpsþættina ,,Verbúðina“ sem hann telur lýsa hvernig ,,komið var fyrir sjávarútveginum þegar stjórnmálamenn tóku upp fiskveiðistjórnunarkerfið og breyttu öllum lögmálum til að losa atvinnuveginn frá gjaldþrotum og eilífum áföllum.“
Bætir síðan við sem skýringu, að gengisfellingar hafi verið tíðar vegna þess að sjávarútvegurinn hafi ekki rekið sig og: ,,Sjávarútvegurinn bjó við umgjörð sem gerði það að verkum að útgerðir hvorki lifðu né gátu dáið. Enda var viðkvæðið að allt væri að fara „norður og niður og til andskotans“, eins og stjórnmálamaðurinn Sverrir Hermannsson orðaði það.“(!)
Hvað sá ágæti stjórnmálamaður sem hér er vitnað til sagði við hvern og hvenær er best að láta liggja milli hluta, en vel getur verið að lýsing hans stemmi við stöðuna sem orðin var þegar stjórnlaus ofveiði hafði verið stunduð og lítið var orðið af fiski í sjónum.
Á þeim tíma sem um er rætt, þ.e. þegar unnið var að því að koma stjórn á nýtingu fiskistofnanna, var þjóðin ekki búin að finna það út, að arðsamast af öllu arðsömu væri að flokka pappíra á vegum hins opinbera. Auk þess sem mikil arðsemi mun liggja í því að reka stofnanir og félagskap ýmiskonar sem hefur þann tilgang helstan að leita leiða til að hindra svo sem unnt er, arðbæra atvinnustarfsemi í landinu.
Að þessu sögðu er rétt að minna á, að til er fólk sem leitast við að afla þjóðinni tekna, fólk sem ekki skilur ,,nútímahagfræði“ og telur að vel geti verið hægt að lifa á því að framleiða eitthvað sem eftirsóknarvert er.
Og af því að okkur er landbúnaðurinn hér ofarlega í huga, þá má nefna að íslenski hesturinn hefur verið eftirsóknarverður sem aldrei fyrr og gefið þjóðinni umtalsverðar útflutningstekjur.
Svo er líka varðandi fiskinn, eins og hér hefur komið fram, en fjölmargt fleira mætti til telja, svo sem orku sem beisluð hefur verið og er notuð til að búa til verðmæti.
Varðandi það síðastnefnda virðist þó vera komið að endimörkum að áliti þeirra sem telja sig vera einkavini umhverfisins. Þeirra niðurstaða er: að ekki megi virkja meira og alls ekki til að farmleiða verðmæti.
Verðmæti verða nefnilega, í nútíma, til af engu og án þess, að tilurð þeirra sé stuðlað. Steinum má ekki velta nema að þeir finni upp á því sjálfir, en blýanta má naga, enginn amast við því. Eða að minnsta kosti ekki, fyrr en að hinir nýju náttúrufrelsarar fara að leiða að því hugann hvernig blýanturinn varð til og er það sama að segja um rafbílana sem allir eiga, að eiga og aka á.
Það á að knýja þá með rafmagni sem verður til af sjálfu sér, fyrir nú utan það, að bílarnir eiga væntanlega að spretta fram fullskapaðir án þess að nokkur staðar hafi verið hróflað við einu né neinu.
Eiga að vera sjálfrennireiðar sem verða til utan sviðsins ef svo má segja.