Inn og út um gluggann

 

2022-02-26 (2)Sú var tíð að auralitlir skólastrákar reyndu að safna til þyrlukaupa og á endanum varð úr að keypt var þyrla.

Fram að því og reyndar líka eftir að þyrla hafði verið keypt, hafði verið treyst á björgunarþyrlur bandaríska hersins. Hersins sem skyndilega fór og fer tvennum sögum af því hvers vegna, en ekki var það fyrir tilverknað herstöðvaandstæðinga!

Sannaðist þar það sem þeim hafði verið bent á, að herinn færi þegar hann tæki sjálfur ákvörðun um að fara!

Hann þurfti ekki ráðgjöf frá þeim og ekki heldur frá herstöðvarsinnanum sem þá var fyrir þjóðinni.

Talsvert er um liðið og þyrlufloti gæslunnar er orðinn svo mikill að hægt er að nota hann til sportflugs með pólitíkusa, t.d. þegar þeir eru orðnir rasssárir í hestaferðum sínum og verður það að teljast mikið framfaraskref, því vont er ef fallegir botnar nuddast til skaða.

Annað framfaraskref hefur verið stigið, en það er endurnýjun skipakostsins.

Skipin eru orðin stærri og öflugri og mun betur útbúin og til að njóta þeirra sem best hefur verið brugðið á það ráð að sigla þeim í skemmtisiglingum til Færeyja undir því yfirskini að þar fáist ódýr olía.

Það virðist hafa ,,gleymst" að taka með í reikninginn að siglingar skipa kosta peninga, svo sem útgerðarmenn frakt- og fiskveiðiskipa hafa komist að í rekstri sínum.

Að fenginni reynslu getur undirritaður borið um, að það er gott að koma til Færeyja, eyjarnar eru fallegar og fólkið hið besta.

Samkvæmt fréttinni sem hér er vísað til, má draga þá ályktun að björgunar og eftirlitstól gæslunnar séu leikföng, af stærri gerðinni og í dýrari kantinum að vísu - en vasar ríkissjóðs eru djúpir.

Virðisaukaskattur er ekki greiddur vegna olíukaupa á skipin í Færeyjum, en það er gert ef keypt er olía í heimalandinu.

Það vill svo til að það er sá sami sem rekur skipin og þiggur virðisaukaskattinn, þannig að um er að ræða ,,inn og út um gluggann" dæmi og að það kosti peninga að sigla skipunum til Færeyja gleymdist að taka inn í landhelgisgæslujöfnuna.

Það er ekki allt kennt í skólum.

Þegar tilveran er viðurkennd


Það er nær útilokað að ríki sem eru háð NATO og því slekti öllu, skilji að það geti verið gott og geti gefið von, fyrir fólkið sem í umræddum héruðum býr, að voldugt ríki í næsta nágrenni sé, eftir átta ára einsemd, búið að viðurkenna tilveru þess.



Það er varla hægt að setja sig í spor fólks sem hefur búið við þessi skilyrði.

En það var tekið stórt skref af hálfu Rússa og sem olli talsverðum hvelli og sprengingu fýlubomba og sem lukkuláki í húsi númer 10 fagnaði vel og innilega einlæglega feginn því að athyglin beindist þó ekki væri nema í nokkra daga, eitthvað annað en að óvæntum og sérkennilegum dansporum í partísamkvæmum í fyrrnefndu húsi númer 10.



Það er sem sagt einn NATO gaur, úfinn og tættur að utan sem innan, sem í hjarta sínu er einlæglega þakklátur rússneskum stjórnvöldum fyrir að hafa skorið á snöruna og gefið honum þar með tilefni til að sprikla dálítið og gaspra.


Í út- og sjónvarpi allra landsmanna og hinna líka, byrja nú allar fréttir á: Pútin eða Boris eða Biden sagði og ef ekki, þá með fullyrðingu um að eitthvað sé svona og svona eða hafi gerst eða muni gerast vegna þess að eitthvert ráðamannastóð, héðan og þaðan, hafi um það geipað og gapað.

Í öllu þessu fjargviðri og moldviðri gleymist það sem máli skiptir:
Fólkið í Donbass (Luhansk og Donetsk).
Fólkið sem nú eygir von.

(Myndir eru frá vefnum Google Map)

Úkrínudeilan

Það er æði margt sem látið er flakka varðandi deiluna milli Rússa og Úkríana og duglegastir eru þeir sem síst skildi, menn sem bera ábyrgð fyrir hönd þjóða sinna og vonandi er að þeir kunni að tefla þá skák af viti. Ástæða er samt til að efast um að svo sé í öllum tilfellum.

Árni Björn Haraldsson ritar um úkraínumálið í Morgunblaðið þann 22.2.2022 og bendir á nokkur atriði sem gott er að hafa í huga.

Í fyrsta lagi:

,,Gor­bachov setti fram kröfu um að öll lönd, sem fengu sjálf­stæði frá Sov­ét­ríkj­un­um, yrðu að veita Rúss­um sömu rétt­indi og fólki af sínu eig­in þjóðerni. Ann­ars myndu þau mæta Rússlandi aft­ur. Öll dæmi­gerð Evr­ópu­lönd fram­fylgdu þess­ari kröfu smám sam­an nema Úkraína. Þar hafa Rúss­ar, sem eru einn þriðji hluti íbú­anna, ekki verið virt­ir til jafns við hina úkraínsku." Í öðru lagi

,,Við sjálf­stæði Úkraínu fékk Rúss­land erfðafestu­samn­ing til 25 ára á Krím, þar sem her­inn hef­ur aðal­stöðvar suður­flota síns. Þegar 25 ár voru liðin neitaði Úkraína að fram­lengja samn­ing­inn. Þeir ögruðu t.a.m. Rúss­um með að USA vildi greiða mun meira fyr­ir landsvæðið. Rúss­land reyndi að finna lausn á deil­unni og notaði sömu aðferð og notuð var þegar Serbía og Her­segóvína skildu og Ísland skildi við Dan­mörku. Kosn­ing­ar þar sem farið var eft­ir vilja fólks­ins og Vest­ur­lönd­in með NATO viður­kenndu skilnað Serbíu og Her­segóvínu. Á Krím vildi bara 1% af íbú­un­um vera hluti af Úkraínu. Hinir vildu held­ur sam­ein­ast Rússlandi. En þetta passaði ekki Vest­ur­lönd­um og NATO í þetta skiptið."

Og að lokum:

,,[...] Það er stutt frá Úkraínu til Moskvu og vel skilj­an­legt að Rúss­ar vilji ekki hafa her­stöðvar NATO þar. Þeir munu aldrei leyfa Úkraínu að verða meðlim­ur í NATO. En hægt er að leysa deil­una, ef vilj­inn er fyr­ir hendi. Marg­ir benda á sömu lausn og Finn­land fékk eft­ir seinni heims­styrj­öld­ina. Sú lausn vildi tryggja Úkraínu áfram­hald­andi sjálf­stæði og mögu­leika á góðri þróun lands­ins. En verði það ekki lausn­in, tel ég mjög senni­legt að Rúss­land vilji viður­kenna tvö aust­ustu fylki Úkraínu sem sjálf­stæð ríki og í fram­haldi af því ligg­ur beint við að nota sömu aðferð og á Krím, og þannig fá yf­ir­ráð yfir þeim lands­hluta án þess að gera inn­rás í Úkraínu. Hvernig EU og NATO vilja bregðast við, því vil ég láta aðra um að velta fyr­ir sér."

Höfundur tekur fram í undirskrift að hann hafi búið í 33 ár á landamærum Noregs og Rússlands og tekið þátt í sveitarstjórnarmálum.



Um ökuferð frá Reykjavík austur í Flóa

 

Það hefur bæði fyrr og síðar verið vetur á landinu okkar og ætti ekki að teljast til tíðinda.

Þessa mynd fékk ég senda frá syni mínum og er hún af mér og dóttur minni er ég var nýkominn heim eftir um þriggja tíma langa ferð frá Reykjavík fyrir rúmum þrjátíu árum.

Á leiðinni var ég einu sinni dreginn upp eftir útafakstur.

Á Hótel Örk tók ég stutta áningu og fór síðan áleiðis á Selfoss, ók um tíma utan vegar öfugu meginn utan í vegöxlinni, en komst upp á veginn og hélt honum sæmilega eftir það á Selfoss.

Var ekki fyrr kominn austur fyrir Selfoss en það birti upp, sem hendi væri veifað og allt gekk vel eftir það.

Bíllinn sem var Oldsmobile (diesel) Delta Royale árgerð 1978, stóð sig ágætlega og festist ekki nema í þetta eins skipti sem áður var nefnt þegar ég fór út af veginum í Svínahrauni.

Annars er það um þessa bíltegund að segja að hún sannaði það fyrir mér að bandarískir bílar eru ekki þess virði að eiga, því við hönnun og smíði þessara bíla voru öll lögmál varðandi hönnun. þverbrotin og lögmál eðlisfræðinnar send út í hafsauga.

Vélin ómerkileg breyting á bensínvél í dieselvél án þess að tekið væri í nokkru tillit til þeirra innri krafta sem voru á ferðinni og hestöflin í besta falli folöld.

Skiptingin ómerkilegt forneskju drasl og hjólalegur entust ekki nema skamman tíma, því tæknirisunum hjá GM hafði sést yfir að taka tillit til þeirra krafta sem eru á ferðinni í dieselvélinni.

Rafkerfið meingallað en lufsaðist þó til að duga bílinn.

Furðulegt til þess að hugsa að þjóð, sem hefur svo sannarlega unnið ótal tækniafrek, skuli hafa sent á markað slíka hrákasmíði.

Svo það verði ekki misskilið, þá var dóttirin ekki með í ferðinni, en tók á móti mér er ég kom heim.

Það sama gerði bróðir hennar sem tók myndina, sem og aðrir á heimilinu!

Miklar hækkanir framundan

 

Miklar verðhækkanir á lambakjöti eru framundan, samkvæmt því sem kemur fram í Bændablaðinu.

Þar er rætt við Birgir Arason formann Búnaðarsambands Eyjafjarðar og eftirfarandi eftir honum haft:

,,að 20% hækkun út á markaðinn væri nær lagi, en þörf bænda væri þó enn mun meiri eða um 60% hækkun frá því verði sem í boði er. Liggja þurfi fyrir hvað kostar að framleiða kjötið og hvort við viljum halda framleiðslunni áfram á því verði sem þarf. Bændur hafi ekki mikið svigrúm sjálfir til að hagræða í sínum rekstri, þeir standi frammi fyrir kröfum um aðbúnað dýra, skýrsluhald kringum búin sé mikið og þannig mætti lengi telja."

Ekki kemur fram hverjar kröfurnar ,,um aðbúnað dýra" eru, en greinilega er um mikla vinnu að ræða varðandi skýrsluhald.

Að auki kemur fram hjá Birgi ,,að [dæmi séu um að] sauðfjárbú, með 500 kindum greiði nú í ár um 6 milljónir króna fyrir áburð, ríflega helmingi meira en í fyrra".

Það mun gera um 12.000,- krónur á hverja kind ef rétt er reiknað!

Augljóst er samkvæmt þessu að lambakjöt verður ekki kaupandi í framtíðinni nema fyrir sterkefnað fólk og þá til hátíðarbrigða og réttast að fylla allar frystikistur sem fyrst áður en þessi mikla verðbylgja ríður yfir.

Eða snúa sér að einhverju öðru og láta hið kraftmikla ,,Icelandic Lamb" um að selja kjötið til annarra landa.

Hugsanlega verður hægt að fá lambakjöt á lægra verði frá Nýja Sjálandi svo sem reyndist þegar sviðsettur var skortur á þessari kjöttegund fyrir nokkrum árum.

Þegar erlenda kjötið var komið, brá svo við, að í birgðageymslum sláturleyfishafa reyndist vera til nóg af íslensku lambakjöti og málið leystist farsællega!

Þó undirritaður verði neyddur til að sætta sig við að nærast á einhverri annarri kjöttegund í framtíð þeirri sem við virðist blasa, þá verður stefnan samt sem áður sett á að komast yfir hangikjöt til að neyta á jólunum!

Dýrt verður það og gæti hugsanlega borgað sig að bregða sér út fyrir landsteinana til að smygla því síðan þaðan með sér heim í hina frónsku lambakjötsdýrtíð.

Eins og við vitum og löng reynsla sýnir, verður kjötið selt erlendis á því verði sem fæst á þeim mörkuðum og íslenska ríkið mun síðan greiða það sem uppá vantar.

Sauðkindaeldi, fiskveiðistjórnunarkerfið og fleira

 

2022-02-07 (3)Morgunblaðið fjallar um landbúnaðarmál í dag (7.2.2022).

Í blaðinu er rætt við, sauðfjárbónda í Húnaþingi, en bú hans varð í öðru sæti varðandi afurðamagn af sauðfjárbúum landsins á síðastliðnu ári.

Þar er reynt að fá sem mest út úr hverri skepnu og eins og við vitum, þá byggist það á því að búa sem best að skepnunum hvað allt atlæti og fóðrun varðar og það hefur ekkert að gera með ,,þauleldi“ líkt og malbikaðir alvitringar virðast telja.

Fénaður á Íslandi er ekki alinn neitt líkt og gert var með aligæsir í Evrópu, þó líklegt sé að malbiksbændur haldi að svo sé miðað við það sem frá þeim kemur.

Það eru nefndir til sögunnar fleiri bændur í umfjöllun blaðsins, s.s. búið í Gýgjarhólskoti sunnan heiða sem er að ná góðum árangri sem rétt er að fagna og til viðbótar eru nefndir nokkrir frístundabændur sem eru með 6 til 25 frístundarollur sem sagðir eru ná góðum árangri í ríkisstyrktu dútli sínu.

2022-02-07 (2)Á öðrum stað í blaðinu er grein eftir fyrrverandi landbúnaðarráðherra, sem þrátt fyrir góða viðleitni hafði það ekki af að leysa til allrar framtíðar vandamál þessa fjölbreytta atvinnuvegar, og nú er uppi vandi sem þarf að leysa að hans sögn.

Hann segir í fyrirsögn greinar sinnar að nú séu ,,Gríðarlega erfiðir tímar fyrir sauðfjárbændur“ og getur hann eflaust trútt um talað, svo annt sem honum er um atvinnuveginn.

Hinn fyrrverandi landbúnaðarráðherra, segir í grein sinni og vitnar í grein sem bóndi ritaði í Bændablaðið, að verðlækkun afurða sauðfjárbænda séu meiri en nokkur atvinnuvegur þolir, og segir að lítið hafi þokast. ,,Ástæðan er offramleiðsla, ekki síst vegna þess að útflutningsmarkaðir brugðust“, segir þar.

Þegar hingað er komið kemur á lesarann hik og undrun, því hvernig getur það sem ekki hefur verið til, brugðist?

Þá hálfu öld sem undirritaður hefur fylgst með landbúnaðarmálum, hefur aldrei verið til útflutningsmarkaður fyrir lambakjöt, einfaldlega vegna þess að framleiðslan hefur verið of kostnaðarsöm til að hægt sé að fá fyrir hana það sem þarf til að borga útlagðan kostnað.

Markaður fyrir þessa ágætu vöru getur varla talist vera til, ef ekki fæst  nema lítill hluti af þeim kostnaði sem til féll við að framleiða afurðina.

Þannig er staðan og svo hefur verið svo lengi sem elstu menn muna.

Fara þarf aftur fyrir minni þeirra sem nú eru á fótum til að finna dæmi um að útflutningur á lambakjöti hafi borgað sig.

Landbúnaðarráðherrann fyrrverandi veit að þjóðin rekur búgreinina til að ,,landið haldist í byggð“ en ekki til að græða á henni og ætli ekki megi segja, að stjórnmálin hafi komið því svo fyrir að ákveðinn hópur geti stundað þá búgrein sem hugur þeirra stendur til og fengið fyrir það greitt úr ríkissjóði til að geta átt til þess möguleika að geta lifað af búskapnum?

Mörg erum við sem viljum hafa tryggan aðgang að lambakjöti og víst er, að svo verður ekki nema að kjötið sé framleitt.

Reyndar væri hægt að flytja það inn frá Nýja Sjálandi en ekki er víst að stemming sé fyrir því. Síst af öllu á tímum eins og þeim sem nú eru uppi; þegar ekki má lifa í og af landinu, en þó náðarsamlegast búa í því, en alls ekki þannig að það sé nytjað til eins eða neins, a.m.k. ekki til orkuframleiðslu eins og skýrt hefur komið fram að undanförnu.

Þó virðist sem byggja megi húsnæði fyrir fólk og brjóta til þess land.

Það fólk verður síðan að finna sér framfæri við að snúast í kringum pappírsstafla í eigu ríkisins eða einkaaðila, en þó helst af öllu fyrir ríkið og á launum hjá því!

Síðar í grein sinni ræðir hinn fyrrverandi ráðherra sjónvarpsþættina ,,Verbúðina“ sem hann telur lýsa hvernig ,,komið var fyrir sjávarútveginum þegar stjórnmálamenn tóku upp fiskveiðistjórnunarkerfið og breyttu öllum lögmálum til að losa atvinnuveginn frá gjaldþrotum og eilífum áföllum.“

Bætir síðan við sem skýringu, að gengisfellingar hafi verið tíðar vegna þess að sjávarútvegurinn hafi ekki rekið sig og: ,,Sjávarútvegurinn bjó við umgjörð sem gerði það að verkum að útgerðir hvorki lifðu né gátu dáið. Enda var viðkvæðið að allt væri að fara „norður og niður og til andskotans“, eins og stjórnmálamaðurinn Sverrir Hermannsson orðaði það.“(!)

Hvað sá ágæti stjórnmálamaður sem hér er vitnað til sagði við hvern og hvenær er best að láta liggja milli hluta, en vel getur verið að lýsing hans stemmi við stöðuna sem orðin var þegar stjórnlaus ofveiði hafði verið stunduð og lítið var orðið af fiski í sjónum.

Á þeim tíma sem um er rætt, þ.e. þegar unnið var að því að koma stjórn á nýtingu fiskistofnanna, var þjóðin ekki búin að finna það út, að arðsamast af öllu arðsömu væri að flokka pappíra á vegum hins opinbera. Auk þess sem mikil arðsemi mun liggja í því að reka stofnanir og félagskap ýmiskonar sem hefur þann tilgang helstan að leita leiða til að hindra svo sem unnt er, arðbæra atvinnustarfsemi í landinu.

Að þessu sögðu er rétt að minna á, að til er fólk sem leitast við að afla þjóðinni tekna, fólk sem ekki skilur ,,nútímahagfræði“ og telur að vel geti verið hægt að lifa á því að framleiða eitthvað sem eftirsóknarvert er.

Og af því að okkur er landbúnaðurinn hér ofarlega í huga, þá má nefna að íslenski hesturinn hefur verið eftirsóknarverður sem aldrei fyrr og gefið þjóðinni umtalsverðar útflutningstekjur.

Svo er líka varðandi fiskinn, eins og hér hefur komið fram, en fjölmargt fleira mætti til telja, svo sem orku sem beisluð hefur verið og er notuð til að búa til verðmæti.

Varðandi það síðastnefnda virðist þó vera komið að endimörkum að áliti þeirra sem telja sig vera einkavini umhverfisins. Þeirra niðurstaða er: að ekki megi virkja meira og alls ekki til að farmleiða verðmæti.

Verðmæti verða nefnilega, í nútíma, til af engu og án þess, að tilurð þeirra sé stuðlað. Steinum má ekki velta nema að þeir finni upp á því sjálfir, en blýanta má naga, enginn amast við því. Eða að minnsta kosti ekki, fyrr en að hinir nýju náttúrufrelsarar fara að leiða að því hugann hvernig blýanturinn varð til og er það sama að segja um rafbílana sem allir eiga, að eiga og aka á.

Það á að knýja þá með rafmagni sem verður til af sjálfu sér, fyrir nú utan það, að bílarnir eiga væntanlega að spretta fram fullskapaðir án þess að nokkur staðar hafi verið hróflað við einu né neinu.

Eiga að vera sjálfrennireiðar sem verða til utan sviðsins ef svo má segja.

Landeyjahöfn, fastir liðir eins og venjulega.



Í útvarpi allra landsmanna eru ,fastir liðir eins og venjulega' í fréttum, miðað við árstíma.

Stærsti sandkassi þjóðarinnar er fullur af sandi og það svo, að bæjarstjóri Vestmannaeyja telur þurfa að fá stærra sanddælu og sandflutningaapparat til að moka sandinum úr kassanum svo hann geti síðan flotið í hann að nýju og þannig aftur og aftur, í sífelldri endurtekningu sem virðist engan enda taka.

Þetta sandflot út og inn í Landeyjahafnleysu, veldur síðan því að íbúar Vestmannaeyja og þeir sem þá vilja sækja heim, þurfa að sigla með ferju (sem um sinn var rafknúin frá rafhlöðu sem stungið er í samband þegar skipið er í sandkassanum í Landeyjafjöru eða við bryggju í Vestmannaeyjum) til Þorlákshafnar og aka síðan þaðan, þangað sem þeir vilja komast erinda sinna vegna. 



Í Þorlákshöfn geta bílarnir beðið ósandblásnir eftir eigendum sínum kjósi þeir að hafa þá þar, en einnig er sá möguleiki að sjálfsögðu líka til staðar, að taka bílana með skipinu.

Þegar ákveðið var með pólitískum þrýstingi að koma upp ,,höfn" í Landeyjum, var vitað að málið yrði torleyst og niðurstaðan varð sú að grafa skál inn í landið með hafnarkjafti á móti úthafsöldu Atlantshafsins. Líklega í þeirri von að vindur myndi í framtíðinni standa af Vestmannaeyjum ef hann væri suðlægur, en ekki framhjá þeim og gerðu menn sér þannig von um að eyjarnar myndu skapa náttúrulegt skjól fyrir höfnina. Svo var vitanlega sá möguleiki líka til staðar í því pólitíska rófi sem réði för við ákvarðanatökuna, að framvegis yrði norðanátt

Þegar til kom reyndist vindurinn ekki vera tilbúinn til samninga um hátterni af þessu tagi og veldur það vonbrigðum.

Höfnin er semsé sífull af sandi, sem er engum til gagns nema sanddæluskipi sem getur skapað eigendum sínum fjármuni, svo lengi sem það fær að vera launað af Vegagerðinni við dælingu úr sandkassanum mikla.

Svona er staðan og sandurinn kemur og sandurinn fer og eins er með rafmagnið umhverfisvæna sem nota átti til siglingarinnar og búa til úr vatni og gufu að það er farið, sokkið í umhverfisvæna hít, en umhverfisvæningar gerðu sér vonir um að raforkan í landinu væri ,,fasti"; væri eitthvað sem kæmi af sjálfu sér eftir vírum sem væru hangandi á staurum og möstrum. 

Það reynist þegar til átti að taka ekki vera svo, en hvernig rafmagninu er troðið í vírana er þessum spekingum enn hulið og nú stendur draumur þeirra til þess, að vírar af þessu tagi séu grafnir í Jörðu í þeirri von að þeir sogi þaðan til sín orku hennar með dularfullum hætti.

Allt reynist þetta vera draumur sem illa gengur að láta rætast og afleiðingin er m.a. sú sem hér hefur verið um rætt, að skipið (raf)magnaða svamlar nú á sjónum dieselknúið, til og frá Vestmannaeyjum og fer nú til Þorlákshafnar, þangað sem tiltölulega stutt er að fara til þéttbýlisins við Faxaflóa ef hugur manna stendur til að fara þangað.  


Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...