Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda - þar með talið kjötheildsala -, hefur hug á að hjálpa landinu sem er á hvers manns vörum nú um stundir, þ.e. Úkraínu.
Hjálpin og bjargræðið á að felast í því að heimilaður verði tollfrjáls innflutningur á kjúklingakjöti frá landinu, sem nú stríðir við nágranna í austri meira en nokkru síðustu árin og að kjötið verði flutt til Íslands.
Í staðinn fyrir tollfrjálsa kjúklinga frá Úkraínu, munu Úkraínar fella niður alla tolla af vörum sem seldar verða frá Íslandi til þeirra. Hverjar þær vörur eru veit höfundur þessa pistils ekki, þar sem fáum sögum fer af því hverjar þær eru, hafi verið, eða komi til með að verða.
Framkvæmdastjórinn skrifar líka um ,,beinið“ í nefi fjármálaráðherra og virðist hafa af því einhverjar áhyggjur.
Verður að teljast dálítið sérstakt, að áhyggjur af þeim líkamsparti íslensks ráðherra bætist við áhyggjurnar fyrrnefndu af vöruinnflutningi, sem augljóslega hljóta að vera mun meira og stærra áhyggjuefni.
Seint verður það sagt um ráðherrann að hann sé ekki brattur á velli og að hann komi ekki ágætlega fyrir, á hinum pólitíska vettvangi, sem öðrum.
Til að auka sér lífsgleði og kæti og þar með íslensku þjóðinni, vill framkvæmdastjórinn fella niður tolla, af því sem hann kallar úkraínskt kjúklingakjöt.
Það er reyndar ekki framleitt af Úkraínum nema óbeint, sé tekið mið af því sem komið hefur af þeirri vöru til landsins til þessa. Því samkvæmt því sem upplýst hefur verið, er um að ræða kjöt, sem framleitt er af stórfyrirtæki sem ekki er í Úkraínu, en notar sér aðstæður þar til framleiðslurnar.
Fram hefur komið að sýklalyfjaónæmi er útbreitt í landinu og því er ekki hægt að reikna með að um sé að ræða trausta gæðavöru. Auk þess sem meira en líklegt er, að það eftirlitskerfi sem til var(?) í landinu sé nú meira og minna í molum.
Af einhverjum ástæðum skipta slíkir smámunir framkvæmdastjórann engu máli og þar sem líklegt er að heimild fyrir innflutningnum fáist nokkuð auðveldlega, vegna samúðar með úkraínsku þjóðinni, er við því að búast að málið fái fljóta og lipurlega afgreiðslu.
Lítil ástæða er til að ætla, að fólkið sem í landinu býr, njóti þess greiða í einu né neinu. Mun líklegra er, að það verði hinir erlendu framleiðendur sem muni hagnast á að selja vöruna og síðan íslenskir kjötsalar á heildsölustigi.
Þegar þessi ágæta vara verður komin til Íslands, verður ef að líkum lætur, reynt að selja hana í matvöruverslunum með mismunandi góðum merkingum.
Ekki er ólíklegt að laumað verði í texta, eða á umbúðirnar íslenskri fánamynd, eða einhverju öðru sem blekkt geti viðskiptavini til að kaupa sér ódýr matvæli.
Kaupi þau í trausti þess, að þau uppfylli íslenskar kröfur til gæða og heilbrigðis og eða, að hinar fjölónæmu bakteríur hafi skriðið á brott þegar þær áttuðu sig á því hvert þær voru að fara og hve ódýrt átti að selja þær!
Það er að segja, ef varan verður þá ódýr, þegar hún er búin að fara um hinar íslensku kjötsalahendur, því eitthvað verða menn jú að fá fyrir snúð sinn, ef að líkum lætur.