Aðsend grein og frétt í Morgunblaði dagsins 29/8/2022 vekja athygli.
Greinin er rituð af Magnúsi B. Jóhannessyni framkvæmdastjóra ,,Storm Orku" og fjallar um orkumál.
Magnús útskýrir ástæðuna fyrir háu orkuverði í Evrópu, sem er eins og flestir vita stafa af viðskiptaþvingunum sem settar voru á Rússland vegna stríðsins í Úkraínu.
Einhverjir munu hafa haldið því fram að ástæðan væri orkupakki og sæstrengur, sem er vitanlega algjör firra eins og Magnús sýnir fram á.
Hann kemur inn á erfiðleikana sem eru til staðar við að koma framkvæmdum af stað ef hugað er að orkuöflun og segir á einum stað í grein sinni:
,,Erfiðlega hefur þó gengið að koma grænorkuverkefnum í gegnum leyfisveitingaferilinn á Íslandi, sem er verulegt áhyggjuefni."
Magnús nefnir ekki þau öfl sem í veginum standa, en eins og kunnugt er, þá er flokkur núverandi forsætisráðherra þar framarlega og styðst við samtök eins og ,,Landvernd", sem berjast gegn flestu sem til framfara horfir í orkumálum, eins og a.m.k. sumir hafa tekið eftir.
Niðurlagskafli greinarinnar er eftirfarandi og ættu menn að hugleiða það sem þar kemur fram:
,,Þegar verð á hráefni, sem notað er til framleiðslu á vöru, hækkar um ríflega 1.000 prósent þá er ekki nema von að verð á vörunni hækki til samræmis. Þetta er tilfellið þegar kemur að raforku og húshitunarkostnaði í Evrópu og Bretlandi þessa stundina. Þessar tölur sýna svart á hvítu að orsök hás raforkuverðs í Evrópu og Bretlandi er hækkun á verði á gasi sem notað er til húshitunar og raforkuframleiðslu. Mikill misskilningur er að halda að skýringuna sé að finna í orkupakka EB eða afleiðingum af innleiðingu orkupakkans og að ástæða þess að raforkuverð hækki ekki á Íslandi líkt og í nágrannalöndum okkar sé vegna þess að landið er ekki tengt öðrum mörkuðum með sæstreng. Það er fjarri sanni. Aðalástæða þess að Íslendingar sjá ekki viðlíka hækkanir hér er hátt hlutfall grænnar raforku sem framleidd er án þess að nota þurfi gas til framleiðslunnar. Þriðji orkupakkinn eða sæstrengur er ekki orsökin."
Fréttin sem tekið var eftir er um flugvallarmál.
Umræða hefur vaknað upp varðandi þau mál vegna eldgossins á Reykjanesi. Þar er bent á þá augljósu staðreynd, að Alexandersflugvöllur við Sauðárkrók gæti verið álitlegur kostur sem varaflugvöllur, til að grípa til, ef svo færi að Keflavíkurflugvöllur lokaðist.
Flugvöllurinn er til staðar og tiltölulega lítið þarf að gera til að bæta hann og stækka þannig að hann geti gengt hlutverki sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll.
Að horfa til flugvallarins í Vatnsmýrinni í Reykjavík er augljós skammsýni.
Flugvöllur í miðborg höfuðstaðarins, sem rekur tilveru sína til þess að Bretar þurftu að koma upp flugvallaraðstöðu í seinni heimsstyrjöldinni getur ekki gengið upp.
Gera verður ráð fyrir að jafnvel Framsóknarmenn, fari að sjá til sólar í flugvallarmálunum og átta sig á því að lendingar og flugtök stórra farþegaflugvéla eiga ekki heima í miðborginni og þar að auki á einu besta byggingarlandi Reykjavíkurborgar.
Í þessum efnum þurfa menn að horfa opnum augum til þeirra kosta sem til eru og flugvöllurinn við Sauðárkrók er einn þeirra möguleika sem vert er að skoða.