Facebook var að minna mig á grein sem ég ritaði fyrir nokkrum árum á Vísi og vegna þess að þetta blogg mitt er nýtt og lítt þroskað ákvað ég að setja greinina hingað inn.
Innflutningur landbúnaðarvara er sífellt til umræðu og sitt sýnist hverjum um ágæti þess að vilja byggja á innflutningi þeirra annars vegar og hins vegar, að vilja treysta sem mest á innlenda framleiðslu. Ég hef alla tíð hallast að því að við sem þjóð eigum að framleiða sem mest fyrir okkur sjálf, það byggi undir íslenskt þjóðfélag og styrki stoðirnar undir því og stuðli einnig að því að þekking haldist í landinu, auk þess sem það eykur fjölbreytni í atvinnulífinu.
Hátæknibúgreinarnar alifuglarækt, garðyrkja, nautgriparækt og svínarækt stuðla að viðhaldi tækniþekkingar, líkt og fiskveiðar og vinnsla og iðnaðurinn gerir. Án hátæknifyrirtækja væri líka lítið um hátæknigreinarnar sem hér voru taldar.
Nútimaþjóðfélag er flókið fyrirbæri á mælikvarða fyrri tíðar og ekki þarf að fara langt aftur á tímalínunni til að komast að því hve stutt er síðan við komumst inn í nútímann. Á þeirri vegferð voru margir frumkvöðlar. Margir minnast Árna Magnússonar og Innréttinganna sem fyrsta skrefsins og líklega er það ekki fjarri lagi, en í kjölfarið hafa síðan komið fjölmargir aðrir og líklega trónir tæknifyrirtækið Marel hf. núna einna hæst ásamt fleirum á toppi nýrrar iðnbyltingar, en frá Innréttingunum til fyrirtækja nútímans er ótrúlega löng leið, þrátt fyrir að tíminn sé stuttur í sögulegu tilliti.
Marel hf. hefur haslað sér völl um veröld alla með vönduðum tæknibúnaði fyrir úrvinnslu afurða úr hátæknilandbúnaði og hátækni fiskveiðum og vinnslu. Vonandi mun þeim vegna vel áfram á sinni vegferð, haldandi merki þekkingar og hugvits á lofti.
Án fjölbreyttni og grósku þrífast samfélög treglega, en með fjölbreytni, þekkingu og hugviti ásamt dugnaði og heilbrigði í stjórnsýslu og metnaðarfullum rekstri menntastofnana sem þjóna fjölbreytni í atvinnulífi þrífast þau og blómstra þjóðinni allri til hagsbóta.
_ _ _
Greinin hér fyrir neðan er eldri en Facebook telur, enda miðar hún við hvenær hún birtist á sjálfri sér, ef svo má segja um svo dularfullt fyrirbrigði sem vefmiðil. Greinin birtist sem sagt fyrst 17. apríl 2013 eins og glöggir lesendur taka sjálfsagt eftir. Rétt er að leggja áherslu á að án verslunar og þjónustu erum við öll í miklum vanda og þó í greininni sé skotið dálítið á innflutningsverslunina, þá er það skoðun höfundar að án hennar væri mikils misst og að bæði margt og mikið myndi skorta, til að þjóðfélag okkar sem annarra gæti þrifist og blómstrað.
Við þurfum nefnilega að vinna saman, fólkið og atvinnuvegirnir og þá mun okkur vel farnast.
Hér kemur þá greinin:
Innflutningur án takmarka
Öðru hverju koma fram raddir um að hafinn skuli hömlulaus innflutningur á landbúnaðarvörum. Þykir ýmsum sem matarkarfan sé dýr hér á landi, hún sé ódýrari í nágrannalöndunum og víst er að ekki er hægt að bera á móti því, að í mörgum tilfellum er það svo. Samanburður af þessu tagi er hins vegar afar vandmeðfarinn, þó ekki sé nema vegna þess að bera verður saman sambærilega hluti. Það er snúið þegar bakgrunnur vörunnar er óljós, eins og t.d.: hvaða kröfur þurfti viðkomandi framleiðandi að standast.
Eitt það fyrsta sem í hugann kemur, þegar hugsað er til íslenskra verslunarmanna í innkaupaleiðöngrum erlendis, er hve lítið það er sem þeir geta boðist til að kaupa. Þeir koma frá landi sem er með afar fáa íbúa og ekki nóg með það, heldur eru þeir svo ólánsamir að alþekkt er að kjör landsmanna eru ekki neitt tiltakanlega slök í alþjóðlegum samanburði; kaupgetan svokallaða er sem sagt umtalsverð. Þarna eru strax komnar tvær ástæður til að gera kaupmanninum okkar erfiðara fyrir en ef hann væri frá öðru og fjölmennara ríki og það strax í upphafi leiðangursins sem er þó rétt að byrja. Eftir er að koma vörunni heim.
Þó ekki sé með sanni hægt að halda því fram að siglingar til eyjunnar okkar, sem er á Atlantshafshryggnum miðjum í Norður-Atlantshafi séu stopular, mælt á þann kvarða sem gilti er einungis var talað um haust- og vorskip, þá er það samt sem áður svo, að landið er ekki í tengslum við flutningakerfi meginlandanna á þann hátt sem vera myndi ef takast mætti að drösla því dálítið til þannig að það yrði samfast annað hvort Evrópu, nú eða Ameríku ef mönnum hugnaðist það betur.
Það er illgerlegt að flytja Ísland til meginlandanna, því verður að flytja vöruna sem keypt er erlendis til Íslands. Það er að segja, ef ætlunin er að selja hana þar. Það er hins vegar ekki endilega nauðsynlegt, því hinn íslenski kaupmaður getur vitanlega selt það sem hann var að kaupa hvert sem hann vill og Ísland er ekki eina landið sem er í boði. Hann vill hins vegar, af einhverjum ástæðum, selja það sem hann er búinn að kaupa, á Íslandi og verður því að koma vörunni yfir hafið og það kostar peninga. Af ástæðum sem allir þekkja sem stundað hafa verslun, hefur hann hug á að fá til baka það sem hann lagði út og gott betur. Fá bæði það sem hann greiddi fyrir vöruna og að auki útlagðan kostnað við að koma henni á markað, sem hún er ekki nærri komin á þó komin sé á hafnarbakkann í Reykjavík. Ýmislegt er eftir sem ekki verður farið út í að telja upp hér, en á endanum vill hinn virðulegi verslunarmaður fá eitthvað fyrir sinn snúð.
Það sem kaupmaðurinn veit eftir að hafa farið í þennan leiðangur er, að það getur fylgt því dálítið bras að stunda verslun og þjónustu á Íslandi, jafnvel eilítið meira bras á hverja vörueiningu en ef hann hefði haldið sig við stærra markaðssvæði.
Það hlýtur því að mega álykta að eitthvað annað en hrein gróðavon valdi því að hann vill selja vörur sínar á Íslandi. Á þessum vettvangi verður honum ekki ætlað annað en það „að römm sé sú taug…“ o.s.frv. Hann langar að eiga heima og starfa í landinu sínu og lái honum hver sem vill. Kaupmaðurinn er svo lánsamur að hann er ekki einn um þá skoðun, að gott geti verið að búa þar. Ekki síst er það mikið lán fyrir hann, að á landinu hans búa, auk hans sjálfs, u.þ.b. 320.000 manns sem hann getur snúið sér til sem líklegra kaupenda.
Þar býr sem sagt þjóð og hún er töluvert upptekin við að halda úti þjóðfélagi og því fylgir að fólkið í landinu er við ýmsan starfa, sumir eru verslunarmenn, en ekki allir, sem betur fer myndi kannski einhver segja. Sumir eru sjómenn aðrir bændur, þá finnast í landinu smiðir af öllu mögulegu tagi og svona mætti lengi telja því starfsstéttirnar eru ótrúlega margar og fullvíst er að kaupmaðurinn okkar gleðjist í hjarta sínu yfir því hve fjölbreytt samfélagið hans er. Hann er samt ekki alveg ánægður og langar alveg óskaplega mikið til að flytja til landsins ódýr matvæli þjóð sinni til hagsbóta og í þessu vinnur hann vakinn og sofinn.
Hann hefur komist að þeirri niðurstöðu, eftir vandlega athugun, að matur sé nokkru dýrari í litla samfélaginu hans, en hann getur hugsanlega keypt hann á í útlöndum. Þá hefur hann einnig fundið það út, að bændur séu ekki allir þar sem þeir eru séðir, þeir séu a.m.k. tvenns konar, þ.e. annars vegar góðir og hins vegar vondir og það skiptist nánast að jöfnu kjötið sem hann borðar, þannig að „vondu“ bændurnir framleiði um helming þess kjöts sem hann setur ofan í sig og kjötið er af svínum og kjúklingum, dýrin eru höfð í húsum en ganga ekki upp um fjöll og firnindi og af því dregur hann þá ályktun, að eldi dýranna sé „iðnaður“. Líklega er það vegna þess að hann þekkir fremur lítið til iðnaðar að hann telur „iðnað“ vera af hinu illa. Í þessum hugrenningum sést kaupmanninum okkar yfir það að önnur dýr eru einnig höfð í húsum, sum mikið og önnur minna, en þar sem hann veit það ekki, þá hefur hann engar áhyggjur af því. Eins og allir vita þá er það einungis það sem við vitum um, sem við getum haft áhyggjur af, hitt er utan sviðsins ef svo má að orði komast.
Það er reyndar nokkuð margt sem kaupmanninum okkar sést yfir í þessu sambandi og t.d. sést honum algjörlega yfir þá staðreynd að matvara er ekki hvað sem er. Kjöt er, svo dæmi sé tekið, afurð af einhverju dýri sem alið hefur verið til þess að verða í fyllingu tímans að kjöti og kjöt verður ekki gott til neyslu, nema farið sé með það eftir ákveðnum reglum. Til að þær reglur séu virtar hafa flestar þjóðir heimsins komið sér upp eftirliti með framleiðslunni. Reglurnar eru misjafnar eftir löndum, en í þeim löndum sem við þekkjum best, er um að ræða umtalsverðan „reglugerðaskóg og eftirlitskraðak“, eins og ég ímynda mér að títtnefndur kaupmaður myndi kalla það.
Á eyju kaupmannsins er talsvert um slíkar reglur neytendum til hagsbóta og öryggis – og gleymum því ekki að allir á eyjunni eru náttúrulega neytendur líka – en einnig er talsvert mikið um alls kyns reglur og eftirlit til að vernda búfénaðinn sem þar er, sem öfugt við kaupmanninn, hefur ekki átt þess kost að ferðast til annarra landa og krækja sér í ýmsar miskræsilegar pestir. Af því leiðir, að dýrin eru í svipaðri stöðu og frumbyggjar Ameríku forðum, að hafa ekki mótstöðu gegn sjúkdómum sem herjað hafa annars staðar og þarlendir dýrastofnar hafa náð að byggja upp mótstöðu gegn í aldanna rás.
Ekki svo að skilja að ekki hafi verið reynt að flytja inn til landsins ýmis dýr til kynbóta, það hefur verið gert um aldir með tilheyrandi tjóni fyrir samfélagið á hverjum tíma. Það getur kaupmaðurinn kynnt sér þegar hann má vera að. Gæti t.d. byrjað á að fara svo sem 900 ár aftur í tímann. Hvað gerðist þá og hvernig var brugðist við.
Það eru sem sagt alls kyns ljón í veginum til að kaupmaðurinn geti fengið ósk sína uppfyllta. Sjálfsagt er það miður, ekki síst vegna þess að óskin er sett fram af góðum hug, eins og hann tók sjálfur svo vel og vandlega fram.
Í lok þessa pistils er rétt að koma því á framfæri að skv. upplýsingum sem birtust í Fréttablaðinu þann 6. apríl sl. þá hefur vísitala kornvöru hækkað um rúm 80 stig á síðastliðnum fimm árum á meðan vísitala fuglakjöts hækkaði um rúm 30 stig. Samkvæmt sömu heimild hækkuðu raftæki um 45 stig á sama tíma. Fróðlegt væri að fá upplýst hvaða ástæður liggja þar að baki. Þá má og geta þess að föt eru talin hafa hækkað um 70 stig.
Til að kaupmaðurinn okkar geti aflað sér greinargóðra upplýsinga um hvað geti verið til ama við innflutning á kjötvörum er rétt að benda honum á að kynna sér t.d. meðfylgjandi tengla þegar hann má vera að og getur litið upp frá því göfuga áhugamáli sínu að bæta kaupmátt íslensku þjóðarinnar.
https://boli.bondi.is/fyrirlestrar/hadegi_3_april_2013/smitsjukdomastada_islensks_bufjar/ og https://boli.bondi.is/fyrirlestrar/hadegi_3_april_2013/innflutt_fersk_matvaeli_og_sykingarhaetta/