Skógrækt og sauðfjárhald




Það hefur komið fram að undanförnu að sumum sauðfjárbændum finnst ekki vera nóg að gert til að girða fé þeirra utan vegsvæða og einn velti upp þeirri spurningu hvort ekki væri sanngjarnt að krefja bílstjóra um 10.000,- krónur fyrir lamb sem hann hefði ekið hefði yfir.

Í þessari umfjöllun Fréttablaðsins er velt upp öðru atriði, þ.e.a.s. því sem snýr að fólki sem er að reyna að rækta upp skóg.

Þar þurfa þau sem skóginn rækta að girða kindurnar frá skóginum, en fjárbóndinn er laus við það að halda sínu fé innan girðingar.

Í umfjöllun blaðsins kemur fram að rekja megi vandann til þess að á árinu 2002 hafi verið sett lög um búfjárhald.
Þau lög virðast vera ólög, til þess sniðin að firra sauðfjárbændur ábyrgð af sauðfjárhaldinu.
Í grein blaðsins segir eftirfarandi:

,,Rótin að vandanum eru búfjárhaldslögin frá árinu 2002. Þessi lög leystu lög um fjallaskil af hendi, en samkvæmt þeim átti sveitarstjórn að sjá um að smala ágangsfé á kostnað eigenda, annars lögregla. En með hinum nýju lögum þurfa landeigendur að fá jarðir sínar sérstaklega friðaðar fyrir ágangsfé og þurfa þá girðingar að vera vottaðar árlega af búnaðarsamböndum, sem fáir ef nokkrir geri í raun."

Eins og sjá má voru það sveitarfélög sem áttu að smala fénaðinum á kostnað eigenda sauðkindanna, en nú eru það þeir sem ekki halda sauðkindur sem þurfa að vera með ,,vottaðar" girðingar utan um lönd sín sem eru gerðir ábyrgir fyrir sauðfjárhaldinu!

Getur það galnara orðið?

Mislukkað styrkjakerfi




Styrkjakerfi landbúnaðarins er ekki hafið yfir gagnrýni og hefur blómstrað í tíð núverandi ríkisstjórnar sem aldrei fyrr og er þar skemmst að minnast milljarðs sem hristur var sem fram úr ermi og færður sauðfjárræktinni undir því yfirskini að bæta þyrfti henni upp kárínur vegna COVIT-19 og er þá ekki allt til talið.

Vefmiðillinn ,,Kjarninn" segir frá því að Þórólfur Matthíasson hafi skrifað grein í ,,Vísbendingu" og farið þar yfir hvernig útkoman hafi verið úr athugun hans á málinu.

Samkvæmt því sem segir, í Kjarnanum koma eftirfarandi atriði fram:

Meðallaun í landbúnaði eru 200.000 krónur á mánuði árið 2019 og eru undir lágmarkslaunum, sem Þórólfur segir endurspegla lélega framleiðni í greininni.

Niðurstaðan er að með styrkjakerfinu hefur algjörlega mistekist að auka og bæta velferð þeirra sem vinna við greinina, en Þórólfur bætir við, að ekki sé styrkjunum um að kenna, því þeir séu með því hæsta sem gerist í samanburði við önnur lönd.

Þórólfur tekur sveitarfélagið Skagafjörð sem dæmi, en það sveitarfélag er með hæstu styrkina eftir því sem hann kemst að og jafngildi þeir því að um 400 störf séu þar kostuð af hinu opinbera í þessum tilgangi.

Þá samsvari þetta því að hið opinbera leggi 30 aura til velferðar kúa og kinda fyrir hverja krónu sem varið er til velferðar barna og íbúa í sveitarfélaginu!

Þórólfur bendir jafnframt á að kerfið tryggi samt ekki byggð í dreifbýlinu, því íbúum hafi fækkað milli áranna 1998 og 2019 um 325 í Skagafirði og að ástandið sé svipað í öðrum sveitarfélögum.  

Að því gefnu að niðurstöður Þórólfs séu réttar, hlýtur að verða að endurskoða þetta kerfi og taka til alvarlegrar uppstokkunar.


 



,,Misráðinn" samningur

 


Björn Bjarnason skrifar grein um landbúnaðarmál í Morgunblaðið 25.6.2021.

Í grein sinni fer Björn yfir málin og á einum stað segir þar, að samningurinn við ESB sem gerður var árið 2015 hafi verið ,,misráðinn".

Björn er ekki stóryrtur í greinum sínum eftir því sem ég hef séð, þannig að vert er að veita því athygli þegar hann kveður þetta fast að orði og gefur einkunn sem þessa.

Á það að umræddur samningur væri illa lukkaður var bent af mörgum strax árið 2015 og oft síðan og þar á meðal af þeim sem þetta ritar.

Við munum að sá sem var í forsvari fyrir landbúnaðarmál í ríkisstjórninni sem var við völd árið 2015 var núverandi samgönguráðherra og núverandi formaður Framsóknarflokksins, og þó ofsagt sé að hann beri einn alla ábyrgð á samningnum, er þó óhætt að segja að ábyrgðin sé mikil.

Tilgangurinn var augljós og greinilegur, þ.e.a.s. að opna á markað fyrir kindakjöt í ESB- löndunum. Ekki er vitað til að gerð hafi verið nokkur greining á hver markaðstækifærin væru og helst var svo að sjá, sem blautur fingur hafi verið settur upp í loftið og niðurstaðan orðið sú að handvalið hafi eftir óskhyggjunni einni hver tækifærin væru og engu máli hafi skipt hvernig vindurinn blés.

Engin greining, ekkert mat og óskhyggjan réði för.

Markaðstækifærin reyndust engin. Höfðu engin verið og verða trúlega engin og aldrei. Nema að talið sé að markaðstækifæri felist í að selja vöru á verði sem er langt undir framleiðslukostnaði. 

Og einn gámur af kindakjöti dagaði uppi í Færeyjum eftir eins eða tveggja ára ævintýraflakk um Evrópu og dvöl á Spáni.

Við skulum ekki óska þess að sú staða komi aftur upp sem var, þegar Evrópu skorti matvæli eftir ægilegar hörmungar af mannavöldum. Þá var hægt að selja kindakjöt úr landi. Síðan er liðinn mannsaldur.

Þegar ráðherranum var bent á hve varasamur samningurinn væri, á fundi með sunnlenskum bændum þar sem hann var til umfjöllunar, svaraði ráðherrann því m.a. til, að menn yrðu ,,að standa sig".

Bændur sem framleiða nautakjöt, mjólkurafurðir, svínakjöt, svínakjötsafurðir og alifuglakjöt og afurðir þess, áttu ,,að standa sig" gagnvart innflutningi til Íslands á afurðum þeirra framleiðslugreina til að íslenska ríkið gæti ,,selt" kindakjöt til Evrópulanda. 

Voru notaðir sem skiptimynt í samningagerðinni og hagsmunir þeirra voru vegnir og léttvægir fundnir.

Hafi sunnlenskir og aðrir bændur og afurðastöðvar þeirra ,,staðið sig" í þeim ólgusjó sem samningurinn olli bændum og fyrirtækjum þeirra, þá er það þrátt fyrir þá samningsgjörð sem ráðherrann barði í gegn, en ekki vegna hennar.

Landbúnaðarráðherrann fyrrverandi og núverandi formaður Framsóknarflokksins býður sig fram fyrir Suðurkjördæmi í komandi alþingiskosningum.

Hestar, helsingjar og léleg grasspretta

Morgunblaðið er á landbúnaðarnótum í dag (16.6.2021) og við kvörtum ekki yfir því!

Fyrst sjáum við fallega mynd af tveimur hestum með Reykjanesið og eldgosið í baksýn:


Næst er frétt af því að bændur vilji fá að skjóta helsingja vegna ágangs þeirra á tún og akra:

Rifjast þá upp þrálát umræða sumra bænda sem vilja fá að skjóta álftir og gæsir vegna þess sama.

Að lokum er frétt af því að sláttur tefjst vegna kulda:


Getur verið að það sé ástæðan fyrir að fuglarnir halda sig í byggð og fara ekki inn á heiðar. Hjá mér var hitinn í morgun um einni gráðu yfir því sem við stillum kæliskápinn!

Ég á ekki byssu en gæti trúlega eignast hana og sé ekki fyrir mér að á vori - vori sem stendur fram á sumar - myndi ég fara að reyna að skjóta farfuglana til að losna við þá úr túnunum.

Verðum við ekki að bíða þetta af okkur, eins og gert hefur verið alla tíð? Að minnsta kosti þar til að við náum því að stjórna veðrinu!

Ekki fer sögum af því að bændur fyrir norðan heiðar hafi látið sér til hugar koma að skjóta í burtu snjóinn af túnunum.

Þeir bita á jaxlinn og bíða eftir að langdregið vorið breytist í sumar, eða a.m.k. almennilegt vor!

Sviðsmynd, sem var leyndarmál, afhjúpuð


 Í Bændablaðinu sem út kom 7. júní 2021 segir formaður Bændasamtaka Íslands í forystugrein, söguna af því sem fyrirhugað var að yrði, er gerður var tollasamningur milli milli Íslands og Bretlands. 

Þó frásögnin sé ótrúleg, má gera ráð fyrir að hún lýsi því sem raunverulega var að gerast eða átti að gerast og er satt að segja ekki ótrúleg eftir að maður hafði haft á sínum tíma aðstöðu til að stinga nefinu í gættina á þáverandi stjórnarheimili, því sem var árið 2015 og áfram. 

Þau stjórnvöld sem þá voru við taumana virtust vera tilbúin til að gera nær hvað sem var ef takast mætti að pranga inn á ESB- löndin kindakjöti og létu að lokum hagsmuni annarra falla fyrir borð í þeirri viðleitni sinni.

Sagan sem formaður B.Í. segir, er í stuttu máli: að til stóð að gera samning við Bretland um tollfrjálsan innflutning á umtalsverðu magni af meðal annars nautakjöti og fleiru í skiptum fyrir innflutning til Bretlands á lambakjöti. 

Eða svo vitnað sé beint í grein Gunnars Þorgeirssonar í leiðara Bændablaðsins: 

,,Landbúnaðurinn fékk kynningu á þeirri sviðsmynd, sem framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda hefur nú afhjúpað síðustu daga í fjölmiðlum, þ.e. að til stóð að semja við Breta um innflutningsheimildir á 140 tonnum af nautakjöti (með eða án beins vissu nú samningamenn lítið um), 180 tonn af ostum, 50 tonnum af ís og 460 tonnum af öðrum kjötvörum. En okkur var tjáð að þetta væri hernaðarleyndarmál sem við mættum alls ekki ræða við nokkurn mann þar sem viðræður væru enn á viðkvæmu stigi að sögn ráðuneytis utanríkismála."

Það átti sem sagt að endurtaka leikinn sem leikinn var árið 2015 þegar þáverandi landbúnaðarráðherra gerði alræmdan samning við ESB, þar sem skipt var á kindakjöti til ESB fyrir innflutning þaðan á alifuglakjöti, svínakjöti og nautgripaafurðum ýmiskonar til Íslands.

Það að hafa ætlað að endurtaka þann leik í samningaviðræðum við Bretland árið 2021 sýnir fátt annað en að ráðamenn þjóðarinnar hafa engu gleymt og ekkert lært af fyrri reynslu.

Árið 2015 naut ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins stuðnings Bændasamtakanna, sem þá voru, sem áður, fyrst og fremst samtök sauðfjárbænda. 

Nú er komið annað hljóð í strokkinn og samtök bænda eru undir nýrri og víðsýnni stjórn í sameinuðum Bændasamtökum og vonandi er að það samstarf haldi og að ekki sækji í fyrra horf með forystu sem af fyrri gerðinni, þeirri sem alla tíð hefur verið þar til nú.

Því er vart að treysta að hin gömlu öfl muni ekki í krafti fjöldans, en ekki framleiðslumagns markaðsstöðu eða verðmæta framleiddra afurða, reyna að ná undir sig yfirstjórn Bændasamtakanna. Við vonum að svo fari ekki, en treystum engu og þau sem nú eru á sviðinu mega ekki sofna á verðinum. Það er nefnilega auðveldara að finna fólk með félagsþorsta í fjölmennri stétt sauðfjárbænda en í mun fáliðaðri stéttum annarra búgreina.

Gunnar  segir í niðurlagi greinar sinnar og það verða niðurlagsorð þessa pistils: 

,,Bændasamtökin eru ekki á móti fríverslunarsamningum og frjálsri verslun. Bændasamtökin eru hins vegar á móti ósanngjörnum samningum sem flytja störf og verðmætasköpun frá Íslandi á erlenda grundu. 

Ráðamenn þjóðarinnar ávarpa Búnaðarþing á hverju ári og tala lofsamlega um tækifærin og verðmætasköpun í íslenskum landbúnaði á tyllidögum og í aðdraganda kosninga. Hina dagana virðast þeir ekki hafa mikla tengingu við hinn raunverulega heim vinnandi manns. En eins og ítrekað er rætt þá er einfaldara að flytja bara inn. Þá skiptir engu hvort aðbúnaður dýra sé fyrir borð borinn eða lágmarkslaun þeirra sem vinna að framleiðslunni. 

[...]

Bændasamtökin hafa hlotið bágt fyrir síðustu ár þar sem fullyrt er að samtökin hafi ekki staðið nægjanlega með greininni. Í því samhengi er því vert að nefna að hér á landi hafa nefnilega tilraunir verið gerðar síðustu ár til þess að beita gamalgrónum meðölum, að deila og drottna. Sá leikur stjórnvalda að etja saman búgreinum [...] gengur ekki lengur. Flest búgreinafélög hafa ákveðið að sameinast í eina sterka heild. Þeir tímar eru einfaldlega liðnir að sú leikbók, að etja saman hvíta og rauða kjötinu, virki."

Belti og braut og fleira

 


Kjarninn fjallar um niðurstöðu fundar ríku þjóðanna G7 eins og það mun heita og segir frá því að á fundinum hafi verið ákveðið að stofna til sérstakrar útgáfu af ,,Belti og braut". Fundið var upp nýtt nafn á hugmyndinni og allt á þetta að vera gert af góðum hug til að hjálpa fátæku þjóðunum.

Fyrirbærið heitir ,,B3W" og þýðir trúlega eitthvað bæði háfleygt og merkilegt.

Í Kjarnanum er einnig hægt að lesa aðra grein, sem er um Rússland. Þar fer fram snöggsoðin söguskoðun á því hvers vegna Rússland sé eins og það er, en ekki tilbúið til að hleypa heimsvaldasinnum inn að rúmstokki sínum - sem reyndar eru ekki kallaðir því nafni nafn í greininni. 

Sé í eilífri vörn og ekki tilbúið til að hleypa heimsvaldastefnu Bandaríkjanna og fylgiríkja þeirra inn á gafl hjá sér. Farið er yfir helstu kárínur sem innrásir ýmsar og ægilegar hafa valdið Rússlandi, en samt furðast á að þeir vilji stíga gætilega til jarðar í samskiptum við umheiminn.

Rússar er sjálfum sér nægir í langflestu og búa að miklum auðæfum. Þeir hafa átt í góðum viðskiptum við Ísland og margar fleiri þjóðir undanfarin ár, þrátt fyrir heimskulegar viðskiptaþvinganir varðandi matvæli, sem á þá voru settar í lágkúrulegri fylgispekt við NATO löndin.

Niðurstaðan varð sú að í stað þess að það tækist að svelta Rússa til hlýðni, þá hristu þeir af sér óværuna, ákváðu að treysta ekki vesturlöndum nema hóflega og búa að sínu. Þeir eru núna stórir útflytjendur matvæla og sjálfum sér nægir á flestum sviðum.

Tækniþekkingu eiga þeir næga til að framleiða flest það sem þá langar til og þurfa. 

Menning þeirra er rík og frjó og þjóð sem er sjálfri sér næg varðandi nær allt sem hún þarfnast, þarf ekki að skríða fyrir furðuþjóðasamsteypu líkt og þeirri sem var komin nærri því að endurkjósa til forseta fyrirbrigði sem enginn vissi hvaðan var að koma eða hvert var að fara.

Að allt sé ógallað og fullkomið í Rússlandi frekar en öðrum löndum verður samt ekki sagt. 

Furðuleg er samt sú árátta að reyna stöðugt að viðhalda rússagrílu þeirri sem fundin var upp í kalda stríðinu.

Samskipti þjóða hljóta að mótast jafnt af því, hvernig komið er fram við þær og hinu hvernig þær koma fram við aðra. 

Vel er hægt að komast að því að lýðræðið sé ekki sérstaklega vel þroskað í Rússlandi og einnig má finna það út að lýðræðið (auðræðið) í Bandaríkjunum sé ofþroskað eða vanþroskað. 

Svo ekki sé nú minnst á litla Ísland, þar sem þjóðþinginu er slitið í bráðræði á hverju vori til að þingmenn geti komist í heyskap og sauðburð; hefur ekki getu né burði til að ræða til niðurstöðu og betrumbæta gamla og úrelta stjórnarskrá hvað þá annað.  

Samið við Bretland

 

Myndin er úr ,,Dagskráin fréttablað" og sýnir smalamennsku með nútímalegum aðferðum.

Ritara þessarar síðu barst ábending um að birst hefði grein eftir formann Bændasamtanna um samning sem nýlega var gerður við Bretland varðandi viðskipti með landbúnaðarvörur.

Greinina ritar formaðurinn í Fréttablaðið undir fyrirsögninni ,,Nýr tónn í viðskiptasamningum“.

Þar segir frá því að: ,,Bretland [sé] einhver mikilvægasti markaður Íslendinga fyrir bæði vörur og þjónustu“[…] og að ,,það [sé] mikið hagsmunamál fyrir Ísland að viðskiptakjör við Bretland [haldist] sem næst því sem var meðan Bretland var hluti af ESB.“

Þá segir einnig að ástæða sé til að fagna ,,að utanríkisráðherra gerði samning með allt öðrum forsendum en síðasti stóri viðskiptasamningur Íslands sem gerður var við ESB árið 2015 og tók gildi 1. maí 2018 að lokinni fullgildingu. Í [þeim] samningi Íslands við ESB var samið um um það bil 1,8 kílógramm í útflutningi á móti hverju kílógrammi í innflutningi.“

Eftir lítið eitt lengri lestur kemur fram að þessu hafi verið ,,snúið á hvolf“ í samningunum við hið útgengna Bretland úr ESB, því eins og í grein formannsins segir: ,,þar var samið um 20 kg af útflutningi á móti hverju kílógrammi í innflutningi. Þó það sé enn þá þannig að Bretar fái mun stærri markaðshlutdeild heldur en Íslendingar fá þá er samningurinn mun sanngjarnari en fyrri samningur.“

Núverandi samningur er sem sagt rúmlega tíu sinnum betri en samningur sá sem formaður Framsóknarflokksins gerði í sinni tíð árið 2015, samkvæmt þessum samanburði.

Við fáum síðan að vita að formaður Bændasamtakanna hafi verið í fermingarveislu þegar honum bárust fréttirnar s.l. sunnudag!

Í greininni segir frá því að vart hafi samningurinn verið ,,gerður“ þegar ,,Félag Atvinnurekenda [hóf] að kvarta yfir niðurstöðunni“. Við erum einnig upplýst um hve mörg orð hafi verið notuð til að fagna samningnum af Félagi atvinnurekenda þ.e. 20, en 713 orðum hafi verið varið til að gagnrýna samningsniðurstöðuna og leiðbeiningar til Bændasamtakanna varðandi samningsgerðina, og að læðist grunur um, að Bændasamtök Íslands hafi ekki verið langt undan varðandi ,,ráðgjöf“ þegar samningurinn var gerður 2015!

Það er ánægjulegt að sjá að formaður B.Í. telur: að ,,leikur stjórnvalda að etja saman búgreinum […] gengur ekki lengur.“ Ekki er samt víst að allir trúi því að svo sé.

Á það ber að líta í þessu sambandi, að samið var um útflutning á kindakjöti til Bretlands en ekki öðru kjöti og að á vef Utanríkisráðuneytisins má lesa eftirfarandi texta:

,,Hvað landbúnaðarafurðir varðar eru tryggð viðbótartækifæri til útflutnings fyrir lambakjöt og skyr með tollfrjálsum innflutningskvótum, sem nema 692 tonnum fyrir lambakjöt og 329 tonn fyrir skyr. Þannig má segja að samningurinn stækki Evrópumarkað varanlega fyrir íslenskar útflutningsvörur. Þessi niðurstaða náðist án þess að stækka til muna innflutningsmöguleika til Íslands. Ísland mun veita Bretlandi tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir 19 tonnum af hverskonar osti, 11 tonnum og ostum sem verndað afurðaheiti vísar til uppruna og 18,3 tonn af unnum kjötvörum.“

Það var sem sagt samið um útflutning á lambakjöti og skyri, en á móti kemur að heimilt er að flytja inn tollfrjálst frá Bretlandi osta (30 tonn) og síðan 18,3 tonn af unnum kjötvörum. 

Af þessu sést að samningurinn gengur fyrst og fremst út á að opna möguleika á að geta losað íslenska ríkið við lambakjöt til Bretlands og að samningurinn snýst ekki um að opna fyrir útflutning á öðrum landbúnaðarvörum frá Íslandi til Bretlands utan þess sem fram kemur varðandi skyr.

Íslenskur landbúnaður er talsvert meira en lambakjöt og skyr og hefði verið æskilegt að utanríkisráðherra og leiðbeinendur hans hefði haft það í huga við samningagerðina og kannski hefur svo verið, þó við höfum ekki tekið eftir því, né haft af því fréttir.

Viðurkenna verður, að séð út frá þröngum  sérhagsmunum er samningurinn góður áfangi, en hagsmunirnir sem gleymdust(?) standa útaf og spyrja má hvort ekkert annað hafi komið til umræðu en kindakjöt og skyr, unnar kjötvörur og ostar?

Svo vikið sé að því sem segir í grein formanns Bændasamtakanna, þá er augljóst að núverandi stjórnvöld kunna vel ,,að etja saman búgreinum“. Að minnsta kosti er augljóst að samningurinn sem hér er til umræðu snýst um lítið annað en það að ,,selja“ úr landi svo sem unnt er framleiðslu sem verður til sem verktaka hjá ríkinu í gegnum búvörusamninga.

Þá má benda formanni BÍ og öðrum á, að fjáraustur úr ríkissjóði til sauðfjárræktarinnar í nafni COVIT-19, hefur ekki farið framhjá þeim sem fylgjast með landbúnaðarmálum og að athygli hefur vakið að engin raunveruleg greining fór fram á því hvort sauðfjárræktin þyrfti tæpan milljarð í ríkisframlag vegna pestarinnar, frekar en aðrar búgreinar.

Er sá styrkur samt sem dropi í það styrkjahaf sem sú búgrein nýtur.

 


Myndin er af vef visir.is

Í texta með frétt á visir.is segir m.a.:

,,Skyndibitakeðjan KFC er nú í viðræðum við fasteignafélagið Klettás um mögulega opnun nýs veitingastaðar við Norðurtorg á Akureyri. Viðræðurnar eru á byrjunarstigi en stjórnendur KFC hafa reynt að nema land fyrir norðan í tuttugu ár."

- - -

Eftir japl jaml og fuður hafðist að opna Bónus verslun á Akureyri. Sagan sagði að KEA- veldið hefði valdið þeirri tregðu.

Helgi ,,í KFC" en oftast kenndur við Góu, er búinn að berjast í 20 ár, eftir því sem hér segir, fyrir því að geta opna veitingastað á Akureyri en ekkert gengið, en nú er von.

Eitt sinn var kjúklingabú í Eyjafirði og kjúklingamatstaður á Akureyri sem seldi kjúklingarétti úr eyfirskum kjúklingum og gerir kannski enn.

Og það bara ágæta rétti ef rétt er munað.

Þeir sem öllu réðu norður þar, vildu búa að sínu: og því skyldi selja eyfirska kjúklingarétti úr eyfirskum kjúklingum í eyfirskt fólk og reyndar líka í þá sem ættu þar leið um. Það væri ekki verra.

Eyfirskan fisk, lambakjöt og nautgripaafurðir svo sem mjólk og fleira mætti líka að sjálfsögðu selja út fyrir Eyjafjörð, sem er jú aðallega Akureyri og næsta nágrenni eins og við eigum að muna. Það myndi frekar styrkja byggðina en hitt.

Helgi, kenndur við Góu, er orðinn aumur í hnjánum, að eigin sögn af að þurfa að skríða fyrir menn og biðja um leyfi fyrir opnun veitingastaða. Og af frásögninni ráðum við að ,heimóttarskapurinn' sé ekki eingöngu bundinn við Akureyri og Helgi heldur í vonina.

Þeir sem búa langt inn í landi fyrir botni hins fagra Eyjafjarðar þurfa ekkert að óttast. Helgi og hans fólk og fyrirtæki þeirra bregast ekki vonum og væntingum. Það getum við sem til þekkjum borið um.

Og nú heyrast raddir að norðan um, að á Akureyri sé best að hafa Landhelgisgæsluna, það sé góður staður fyrir svoleiðis starfsemi.

Það er vissulega ekki vitlaus afstaða ef markmiðið er að hafa Gæsluna sem lengst frá þeim svæðum sem helst gætu þurft á aðstoð, þjónustu og eftirliti að halda.

Taka verður fram að hugmyndin var sett fram af frambjóðanda í kosningastellingum og við vitum mörg að það sem þá er sagt er ekki alltaf djúpt hugsað.

En samt, ,,öl er innri maður" og ,,orð eru alls fyrst" eins og þar stendur og ef til vill koma síðar fram frá einhverjum frambjóðanda, hugmyndir um að hafa Landhelgisgæsluna á miðjum Hofsjökli með höfuðstöðvar, skip og flugflota vegna þess að það sé svo ,,miðsvæðis".

Þegar þar er komið köllum við til Umhverfisstofnun til að þæfa málið og þvæla, þar til enginn nennir lengur að hugsa um það.

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...