Það er alvörumál að þurfa að skera niður bústofna

Myndir í þessari færslu eru klippur úr Bændablaðinu sem út kom 23.9.2021.



Það er varla hægt að setja sig í spor þeirra fjárbænda sem verða fyrir riðusmiti í bústofni sínum og því síður, þegar smit kemur upp aftur og aftur.

Víst er það þekkt að smit geta komið upp í bústofnum annarra tegunda en sauðfjár, en riðuveikin var litin það alvarlegum augum á sínum tíma að ástæða þótti til að setja sérstök lög, sem gilda um bætur til bænda vegna riðuveiki og sem greiðast úr ríkissjóði.

Bjargráðasjóður sá sem áður var, er ekki lengur til og því geta bændur ekki almennt leitað til hans ef þeir lenda í hremmingum vegna sjúkdóma eða smits í bústofni. Það er ekki lengur þannig að bændur kaupi sér tryggingu í sjóðnum með iðgjöldum og því er það komið undir velvild sitjandi ráðherra og félaga hans í ríkisstjórn, hvort sjóðnum eru lagðir til fjármunir til að geta greitt bændum hlut í tjóni sem þeir verða fyrir!

Á þessu þarf að taka af samtökum bænda og koma a.m.k. á þeim tryggingum sem þeir áður höfðu í gegnum Bjargráðasjóð og best væri að tryggingin væri betri en sú sem var, frekar en hitt.
Það er eðlilegt að mikið sé fjallað um riðuveiki í Bændablaðinu sem kom út í vikunni sem leið, en eins og kunnugt er, þá greindist hún á stóru sauðfjárbúi í Skagafirði.

Því hefur verið velt upp af því tilefni, hvort ekki sé hægt að taka öðruvísi á þessum málum en gert hefur verið til þessa, þ.e. að rækta upp fé sem ónæmt er fyrir sjúkdómnum og víst væri það góður kostur ef hann væri fyrir hendi.
Í framhaldi af því hefur verið upplýst: að sá kostur sé ekki til í íslenskum sauðfjárstofni.

Þegar riða greinist, er stofninn skorinn niður á viðkomandi bæ og við tekur fjárleysi í nokkur ár.

Hins vegar er heimilt að beita kindum sem gengu með þeim sem smitaðar voru í hálendishögum, strax árið eftir í sömu högum.

Það hefur sem sé verið fundið út, að ekki sé hætta á smiti frá riðuveiku kindunum í sumarhögunum, en að smithætta sé af heimahögum þess bæjar sem fyrir óláninu varð og því skuli hann vera fjárlaus. Þó gengu kindur þess bæjar í sumarhögunum árið áður!

Er öruggt að smitefnið sé ekki á hálendinu vorið eftir að smit greindist í fé sem gekk þar í haga sumarið áður?
Ef svo er, hversvegna þurfa þá bæir sem greinst hefur smit hjá, að vera fjárlausir í nokkur ár?







Viðhorf nokkurra framboða til landbúnaðarmála eins og þau birtast í Bændablaðinu









Eftirfarandi textar, þar sem fulltrúar framboða til Alþingis tjá stefnu flokka sinna, eru fengnir úr Bændablaðinu og er eingöngu um að ræða flokka sem ritari telur líklega til að verða raunverulegir áhrifavaldar á Alþingi sem hér er vitnað til.

Sé boðskapur flokkanna, eins og hann birtist í þessum textum lesinn, má ljóst vera að ef núverandi stjórnarflokkar sitja áfram við stjórnvölinn verða engar eða afar litlar breytingar í landbúnaðarmálunum.

Séu hugmyndir Viðreisnar og Samfylkingarinnar skoðaðar, virðist sem horft sé bæði til nútímans og framtíðarinnar. 

Upphafsorð fulltrúa Vinstri grænna eru athyglisverð, því eftir fjögurra ára stjórnarsetu virðist sem ,,stefna ríkisins hafi ekki verið skýr" varðandi málaflokkinn og ætti það ekki að koma mörgum á óvart!

Viðreisn: 

,,Við erum ekki sammála því að standa þurfi vörð um núverandi afkomu bænda. Í fyrra settum við tvö Evrópumet sama dag, bændur fengu lægsta afurðaverðið og neytendur hæsta verð. Það er óboðlegt fyrir bændur og neytendur. Við viljum breyta þessu og ætlum að gera það.Við ætlum að gera það með framsýni, með auknum tækifærum fyrir bændur til að framleiða fjölbreyttari og hagkvæmari vöru. Við ætlum að auka fjölbreytnina og innri samkeppni meðal bænda þannig að þeir geti selt betur og nær til neytenda. Við ætlum að tryggja aukinn sveigjanleika til að mæta breyttum kröfum sem neytendur eru að kalla eftir. Við ætlum að aðstoða bændur að nálgast markaðinn betur svo þeir geti svarað kalli neytenda eftir breyttum landbúnaðarafurðum. Við viljum auðvelda bændum að hámarka sína eigin afkomu með aukinni vinnslu og auknum sveigjanleika í framleiðslu með einföldun á íslensku reglugerðarverki. Við ætlum að umbreyta búvörusamningnum úr framleiðslutengingu og yfir í umhverfisvænni framleiðslu. Við ætlum að leggja aukið fé til útiræktunar. Við viljum leggja aukna áherslu á lífrænan landbúnað. Við viljum leggja aukna áherslu á hringrásarhagkerfið og sjálfbærni og við viljum sjá mikið meira fé renna í jarðræktarstyrki. Við viljum leggja aukna áherslu á möguleika til heimavinnslu."

Samfylkingin:

,,Við höfum engan áhuga á að draga úr fjárframlögum til landbúnaðar á Íslandi en teljum tímabært að ráðast í róttæka endurskoðun á landbúnaðarkerfinu í góðu samráði við bændur. Stuðningurinn við landbúnaðinn verður að fagna fjölbreytileikanum á sterkari hátt en nú er. Markmiðið hlýtur að vera að nýta styrki hins opinbera vel, gera það með það fyrir augum að auka frelsi og bæta hag bænda og neytenda, stuðla að nýsköpun og fjölbreytni, til dæmis aukinni grænmetisrækt og umhverfisvænni matvælaframleiðslu. Ég held að eitt af því sem þarf að gera til að bæta afkomu bænda sé að auka frelsi þeirra og að hverfa frá því að einskorða styrkjakerfið í landbúnaði við tvær framleiðslugreinar. Það er tími til kominn að hugsa það upp á nýtt, skoða hvort væri ástæða til að styrkja fleiri landbúnaðar- og atvinnugreinar sem fólk hefur áhuga á að stunda í sveitum landsins, einfaldlega með því að styðja fólk til búsetu. Bændur hafa margir sýnt mikla hugvitssemi við að fullvinna sjálfir sínar vörur, selja beint frá býli, og við höfum séð hvað skýrar upplýsingar um hreinleika og uppruna vörunnar skipta miklu máli. Það þarf að gera bændum kleift að nýta eigið hugvit til framfara og að þróa eigin framleiðslu."

Framsóknarflokkurinn:

,,Það liggja tækifæri í því að hætta að líta á loftslagsvanda sem vanda landbúnaðar og landnýtingar heldur sjá sóknarfæri þar, auka tekjur landbúnaðarins og byggða um allt land í gegnum þær aðgerðir sem við þurfum að grípa til. Við viljum breyta lögum um samkeppnisumhverfi og auka heimildir til frelsi til athafna. Jafnframt að koma til með einhvern nýstárlegan öðruvísi stuðning við fjölbreyttari landnýtingu og landnot í því skyni að bæði kolefnisbinda en líka framleiða vöru sem skortur er á á Íslandi. Heimila þarf afurðastöðvum aukið samstarf í anda þess sem er hjá mjólkurframleiðendum og að frumframleiðendur hafi meiri rétt til samstarfs og samvinnu. Heimila þarf athafnafrelsi fyrir bændur í kjötgeiranum, heimila slátrun og vinnslu að undangengnum ákveðnu áhættumati og hugsanlega námskeiðum og leyfum. Við stefnum að því að segja upp tollasamningnum við Evrópusambandið vegna forsendubrests. Annars vegar vegna þess að við á Íslandi höfum eiginlega ekki nýtt neitt af þeim sóknarfærum sem landbúnaðurinn sóttist eftir þegar samningurinn var gerður upphaflega og hins vegar sú staðreynd að Bretland er farið út, með sín 15% af markaðnum. Núverandi ríkisstjórn kallaði eftir endurskoðun á samningnum, en til þess að draga Evrópusambandið að borðinu þá verðum við að segja honum upp. Það er það sem við ætlum að gera."

Sjálfstæðisflokkurinn:

,,Afkoma í kjötgreinum verður að vera betri til að viðhalda framleiðsluvilja. Ég horfi til þess að það sé hægt að ná meiri hagkvæmni með samstarfi milli afurðastöðvanna. Við verðum að átta okkur á því að það hefur orðið grundvallarbreyting á íslenskum búvörumarkaði. Við erum ekki lengur lokaður innlendur markaður, heldur erum við í samkeppni við miklu stærri markað erlendis. Því verður að skapa matvælaiðnaði og úrvinnslu á landbúnaðarvörum, sem er ein stærsta iðngrein á Íslandi, eðlileg samkeppnisskilyrði. Það er það sem hefur vantað upp á á undanförnum árum. Það mun algerlega ráða framtíð kjötgreina hér á landi, hvernig okkur tekst að breyta þessari umgjörð á næstu árum. Til viðbótar við það eru sóknarfæri í að gera búskapinn hagkvæmari og skilvirkari. Þar horfi ég ekki síst á eflingu RML og þjónustu við bændur, meiri rekstrarráðgjöf og rannsóknir í landbúnaði sem og til loftslagsmála. Íslenskur landbúnaður á að vera hluti af því verkefni. Íslenskur landbúnaður getur verið búbót, það er hægt að kaupa ákveðna þjónustu af bændum í loftslagsmálum sem mér finnst að eigi að flétta með eðlilegum hætti við byggðastefnu og/ eða landbúnaðarstefnu." 

Vinstri græn:

,,Það hefur ekki verið skýrt hver stefna ríkisins er en nú eru komin drög að landbúnaðarstefnu sem er mjög mikilvægt fyrsta skref. Þar er m.a. talað um að draga úr framleiðslutengingu stuðningsins en auka hann við fasta búsetu, auk þess að efla jarðræktarstyrki. Við þurfum að bæta afkomu og efla innlenda framleiðslu og styðja við ræktun á fleiri tegundum, t.d. í grænmeti. Við þurfum að tryggja að bændur fái raforku á viðunandi verði þannig að þeir geti haft einhvern arð af því sem þeir eru að gera. Við þurfum líka að skapa afurðastöðvunum stöðu til þess að vera í samstarfi í sama mæli og við sjáum í nágrannalöndunum okkar. Við hljótum að geta gert slíkt hið sama og þetta hefur verið gert í mjólkuriðnaðinum. Við verðum að tryggja nauðsynlega aðkomu bænda að lausnum í loftslagsmálum, að þeirra framlag til loftslagsmarkmiða skapi þeim tekjur þannig að þeir sjái hag sinn í því."

Grein lesin og minningar vakna um það sem ekki ,,mátti" gera.

 



,,Viðreisn er svo eini stjórnarandstöðuflokkurinn, sem ekki hyggst auka útgjöld með lántökum og talar gegn skattahækkunum."

 

Svo segir Þorsteinn Pálsson grein sinni í Fréttablaðinu í dag(23.9.2021) og undirritaður er ekki búinn að gleyma því þegar formaður Viðreisnar sat í skammlífri ríkisstjórn, sem stóð frammi fyrir því að endurskoða þurfti svokallaða búvörusamninga, sem er reyndar ónefni eða nafnskrípi, því sá samningur nær ekki yfir nema sumar búvörur.

Þá hafði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem var landbúnaðar og sjávarútvegsráðherra kjark til að endurskipa í nefndina, í þeim tilgangi að fá inn fólk með fleiri sjónarmið en fyrir hafði verið.

Varð þá af nokkur hvellur af hálfu Bændasamtakanna sem lýstu yfir óánægju með að kórinn í nefndinni væri orðinn fjölraddaðri.

_ _ _

Það er þörf fyrir fólk í íslensk stjórnmál sem hefur kjark og þor til að taka til og brjóta upp steinrunnið fyrirkomulag.

Það sýndi Þorgerður að hún hefði í þetta sinn og þó ekki yrði af sá árangur sem vonast hafði verið eftir, þá var það ekki henni að kenna.

Það voru aðrar og nöturlegri ástæður sem styttu ævidaga ríkisstjórnarinnar sem þá var.

Og þar með sat allt við sama keip varðandi svokallaða ,,búvörusamninga", samninga um sumar búvörur, sumra búa og sérvalinna bænda.

Gæsalappanotkun og samanpökkun hjálparflokka Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórninni

Þorsteinn Pálsson​ skrifar í Fréttablaðið í dag (16.9.2021) og rifjar upp að:

,,Árið 2000 komst nefnd, með fulltrúum allra flokka og helstu hagsmunasamtaka, [...] að þeirri niðurstöðu að setja þyrfti ákvæði í stjórnarskrá um gjaldtöku fyrir tímabundinn afnotarétt af þjóðareign til þess að fullnægja kröfum um réttláta og sanngjarna löggjöf."

Og minnir á að:

,,Á því kjörtímabili, sem nú er að ljúka, stóðu stjórnarflokkarnir þrír gegn því að kvöð um tímabindingu yrði fest í lög. Áður en kjörtímabilið hófst voru Framsókn og VG hins vegar fylgjandi slíkri breytingu." 

Þorsteinn bendir á gæsalappanotkun Morgunblaðsins sem:

,,séu reistar á þeirri trú að réttlæti og hagkvæmni geti ekki farið saman."

Við höfum sum hver tekið eftir því hvernig Morgunblaðið sníður sannleikann að sínum þörfum til að koma hinum eina sanna sannleika Sjálfstæðisflokksins að og undirrituðum finnst sem það aukist eftir því sem styttist í kosningar. 

Það er þó algjört aukaatriði í samanburði við hvernig stjórnmálaflokkarinir sem eru með Sjálfstæðisflokknum í núverandi ríkisstjórn hafa hagað seglum eftir vindi og fellt þau sum og pakkað saman í stjórnarsamstarfinu.

En okkur grunar að hugsanlega verði þau leyst úr böndum og dregin að hún á þeirri viku sem eftir  er til kosninga; viðruð og látin blakta í þeirri von að siglingin gangi betur. 

Eftir kosningar hefst síðan rifunin og samantektin og sigling Sjálfstæðisflokksins tekur við og ræður för nema við gætum okkar á kjördegi.

Pólitískur ómöguleiki og möguleiki í nútíð og fortíð

 Þórður Snær Júlíusson fjallar meðal annars um ,,pólitiskan ómöguleika" (Bjarna Benediktssonar) og ,,pólitískan möguleika" (flestra annarra pólitíkusa) í leiðara Kjarnans og þar segir meðal annars:

,,Í annarri könnun, sem MMR gerði fyrir Öldu – félags um sjálfbærni og lýðræði, og var birt í ágúst, [sögðust ] 66 prósent landsmanna, tveir af hverjum þremur, vera óánægðir með núverandi útfærslu á kvótakerfi í sjávarútvegi. Þar af sögðust 38 prósent vera mjög óánægð með hana. Tæpur fimmtungur, 19 prósent aðspurðra, sagðist ekki hafa sterka skoðun á útfærslunni en einungis 14 prósent voru ánægð með hana. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins reyndust þeir einu sem eru ánægðari með útfærslu kvótakerfisins en óánægðari. Alls sögðust 42 prósent þeirra vera ánægðir með hana en 25 prósent eru óánægð."
Og við vitum að auk Sjálfstæðisflokksins er Framsóknarflokkurinn líka ánægður með kvótakerfi í sjávarútvegi, kvótakerfi í sauðfjárrækt, kvótakerfi í mjólkurframleiðslu og frá þessum tveimur stjórnmálaflokkum, voru einnig sýndir alvarlegir tilburðir til að kvótasetja fleiri greinar landbúnaðarins á sínum tíma.

Það tókst að nokkru hluta og má þar til nefna kvótakerfi í eggjaframleiðslu, í framleiðslu á alifuglaköti og gott ef svínakjötið flaut ekki með í því pólitíska skolvatni, sem kallað var ,endurgreiðsluréttur á kjarnfóðurgjaldi' (eða eitthvað í þá veru) og sem í upphafi var sett í 200% aðeins - af ráðherra Sjálfstæðisflokksins!

Og neytendur áttu að geiða reikninginn þegar dæmið yrði gert upp, væru þeir svo óforskammaðir að vilja ekki sætta sig við neyslu annarra landbúnaðarafurða en þeirra sem skatturinn féll á, - það er einkum þeirra sem til verða við beit upp um fjöll og firnindi.

Kúabændur áttu líka að sitja uppi með fyrrnefnt gjald á kornfóður, væru þeir svo djarfir að nota slíkt fóður, en á þessum tíma trúðu þeir sem réðu ríkjum í landbúnaði og stjórnmálum því, að ef gras væri pressað saman með ógnar krafti í verksmiðjum, þá breyttist það í einhverskonar íslenska útgáfu af kjarnfóðri líku því sem notað er í ,,útlöndum".

Það tók síðan þó nokkurn tíma fyrir þessa menn að átta sig á því að gras væri og yrði gras, hve mikið sem því væri þjappað saman og nú mun þessum æfingum vera lokið, í bili að minnsta kosti.

Sem betur fer tókst að hnekkjar þeirri fléttu sem undin var af svartnættisöflum úr bæði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki sem fyrir þessu stóðu og því eru þessar greinar ,,frjálsar" orðnar og framleiðsla þeirra stýrist af því sem markaðurinn tekur við og því hvað neytendur vilja.

Matvöruverslun að þróast í átt til kaupfélags?



Við munum eftir kaupfélögunum sem eitt sinn voru í öllum landshlutum og SÍS (Sambandi íslenskra samvinnufélaga) sem nú er aðeins nafnið eitt og nú er svo að sjá sem Bónus stefni að því að verða einhverskonar arftaki þessara samtaka.

Á heimasíðu Bónus kemur fram að til standi að fyrirtækið opni nýja verslun á Akureyri og nú kveður við tón sem við höfum ekki tekið eftir áður, því svo virðist sem verslunin muni verða einhverskonar héraðsverslun og halda sérstaklega fram norðlenskum vörum, eða eins og segir í kynningunni: 

,,[...] í verslunum á Akureyri verður lögð sérstök áhersla á að koma norðlenskri framleiðslu á framfæri til viðskiptavina."

Og síðar:

,,,,Einnig vonumst við til að norðlenskir ræktendur og framleiðendur sjái tækifæri til þess að auka framleiðslu sína með auknu framboði á verslun á svæðinu“ segir Guðmundur Marteinsson framkvæmdastjóri Bónus."

Bónus verslanir eru í öllum landshlutum og nú má reikna með að á ferðum sínum um landið muni viðskiptavinir Bónus geta fundið landshlutabundna framleiðslu í verslunum fyrirtækisins á viðkomandi svæði.

Það verður áhugavert að fylgjast með því hvernig þetta þróast hjá fyrirtækinu; vestlenskar ,,í áherslu" á Vesturlandi, austfirskar á Austurlandi, sunnlenskar á Suðurlandi og jafnvel verður þróunin enn nánari og staðbundnari, s.s. reykvískar vörur í Reykjavík, borgfirskar í Borgarnesi o.frv....

0,68% ársvextir og 7,14% ársvextir



Tilboðið er svohljóðandi: 
,,[...] lán upp á 27.000 evrur, sem dreift yrði yfir 7 ára endurgreiðslutímabil, væri að fullu endurgreitt með 27.670,44 evrum.

Þannig kostaði það aðeins 670,44 evrur (100.000 kr.) að hafa og nýta sér 27.000 evrur (4.000.000 kr.) yfir þetta árabil."

Svona lán taka menn náttúrulega ekki, því miklu betra, stórmannlegra og flokkshollara, er að taka lánið með íslenskum kjörum í íslenskum banka og geta að uppgreiðslunni lokinni talið sér trú um að hafa lagt nokkuð af mörkum og því tekur maður svohljóðandi lán:

,,[...] lán væri tekið hér á Íslandi, væru ársvextir frá 7,14% (Íslandsbanki) upp í 8,4% (Landsbanki). Lengstur lánstími er þó 5 ár hér.

Ársvextir af 4.000.000 kr. miðað við 0.68% eru 27.200 kr., ársvextir af 4.000.000 kr. miðað við 7,9% (meðal­tal) eru 316.000 kr.

Árlegur sparnaður, miðað við lántöku í evrum, 288.800 kr."

Svona lán, íslenskt lán, tökum við Bjartarnir í Sumarhúsunum og líður bara vel með útkomuna.

Við erum stolt þjóð í góðu landi og viljum hafa okkar krónu og skiptir þá engu þó enginn annar vilji sjá þá mynt. Við trúum því að hún sé gull og gersemi, góð fyrir land og þjóð og gott ef ekki andann líka og við gefum ekkert fyrir það þó einhver hópur smáríkja í Evrópu notist við evru, eða hvað sem hún nú heitir sú blessaða mynt sem notur er það austur og suður frá.

Ole telur upp hóp smáþjóða sem fallið hafa fyrir evrunni og listinn er all nokkur og við skoðun kemur í ljós að engin þeirra er eins merkileg og þjóðin Okkar!:

Finnland, Eistland, Lettland, Litáen, Írland, Lúxemborg, Austurríki, Slóvakía, Slóvenía, Svartfjallaland, Kósovó, Grikkland, Kýpur, Malta, Vatíkanið, Mónakó, San Marínó og Andorra.

Átján smáþjóðir sem fallið hafa á prófinu og tekið upp evru!

Og líður bara vel með það eftir því sem best er vitað.

Það þarf að fara að kynna þetta fólk í Evrópusambandinu fyrir íslenskri krónu!!


 

Hinn teygjanlegi sannleikur



Stærðfræðingurinn og stofnandi Viðreisnar Benedikt Jóhannesson, ritar grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag (10.9.2021) og hnýtur m.a. um rökvillur forsætisráðherra.

Við teljum okkur muna að Katrín Jakobsdóttir hafi haldið því fram að Íslandi hafi gengið betur en Grikklandi að komast út úr erfiðleikum Hrunsins.

Katrín gleymdi að taka það fram að það var þrátt fyrir veru gríska ríkisins í ESB en ekki vegna, og þó íslenskir fjármálasnillingar hafi staðið sig vel við að koma Íslandi fram af brúninni, þá stóðu þeir félögum sínum í Grikklandi hvergi á sporði og vantaði þar talsvert til og ekki skulum við gleyma þætti íslenskra stjórnmálamanna í að koma fjármálum þjóðarinnar fyrir kattarnef.

En eins og Benedikt bendir ágætlega á, þá er ,,strax" teygjanlegt hugtak og svo virðist einnig vera þegar andstæðingar ESB teygja sig svo sem þeir geta eftir röksemdaprjónlesinu.

Eða eins og Benedikt skýrir þetta ágætlega:

,,For­sæt­is­ráðherra gleym­ir því að staða Grikkja og Íslend­inga var gjör­ólík fyr­ir hrun. Rík­is­sjóður stóð vel á Íslandi meðan Grikk­land var þá þegar skuldugt upp fyr­ir haus. Skuld­ir Íslend­inga ruku upp þegar gengi krón­unn­ar hrundi. Skuld­ir Grikkja juk­ust vegna þess að ekki var hægt að fela þær leng­ur."

Efnahagslegur stöðugleiki valinna hópa

Í Fréttablaðinu (9.9.2021) er grein eftir Þorstein Pálsson þar sem farið er yfir stöðu Íslands eftir COVIT-19 samanborið við nágrannalönd.

Þar segir að ,,viðreisn efnahagslífsins gengur mun betur í öðrum Evrópuríkjum en hér á landi" og vitnar Þorsteinn þar í orð Más Guðmundssonar fyrrverandi bankastjóra Seðlabankans, sem byggir samanburð sinn á gögnum frá Hagstofu Íslands og OECD.

Þessu er Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ekki sammála eftir því sem segir í frétt blaðsins og telur hann ,,að umfjöllun Þorsteins gefi ranga mynd af þróun mála".

Samkvæmt Bjarna er um bókhaldslegar færslur að ræða þ.e. þjónustuútflutning ,,á vegum lyfjafyrirtækja" sem ,,skekki myndina og hafi lítið sem ekkert með innlend efnahagsumsvif að gera" og að ef miðað sé við t.d. árið í heild sé ,,þróunin sambærileg eða betri en í öðrum Evrópuríkjum".

 Og bætir því við að ,,viðsnúningur sé framundan í efnahagslífinu" og að ,,okkur hefur gengið einstaklega vel að takast á við efnahagsáfallið" og að innlend eftirspurn hafi dregist minna saman en ,,alls staðar í Evrópu" að undanskilinni Danmörku og að þetta sé hinn eini rétti mælikvarði til að miða við og skipti mestu máli fyrir heimilin í landinu.

Í umfjöllun Fréttablaðsins um þessi mál segir að Þorsteinn byggi greiningu sína á erindi Más Guðmundssonar en þar segir:

 ,,Reynslan hér á landi sem og rannsóknir annars staðar, sýni að faraldurinn hafi áhrif á efnahagsumsvif óháð sóttvörnum. Reynslan sýni líka að vel útfærðar sóttvarnir hafi neikvæð skammtímaáhrif á efnahagsumsvif en geti haft jákvæð áhrif til lengri tíma."

 Þorsteinn bendir jafnframt á að:

 „Ísland væri ekki eftirbátur í viðspyrnu Evrópuþjóða ef innistæða væri fyrir staðhæfingum um efnahagslegan stöðugleika.“

_ _ _

 Við sem búum á Íslandi vitum að verulega skortir á hinn margumrædda efnahagslega stöðugleika. Það góða er að formaður Sjálfstæðisflokksins telur sig vera með stöðugleikann í sinni hendi og vel getur verið að svo sé: að hann sé í annarri hvorri hendi Bjarna. Sé það svo, væri gott ef hann varpaði honum inn í hagkerfið, þjóðinni allri til að njóta!

Annars staðar en sem hugarfóstur er hann ekki, það vitum við sem í landinu búum og sem um er rætt, það er Íslandi, sem þekkt er fyrir allt annað en efnahagslegan stöðugleika.

Efnahagslegur stöðugleiki fyrir heila þjóð verður aldrei til með því nöturlega hagkerfi sem komið hefur verið hér upp og notaðst við.

Hvort heldur um er að ræða aðganginn að fiskveiðiauðlindinni, eða hið sérstaka stýrikerfi að neytendum landbúnaðarvara sem komið hefur verið upp í landbúnaðinum, þar sem gefinn er út kvóti til aðgangs að pyngjum neytenda eins og þeir séu auðlind tveggja búgreina.

Sauðfjárræktarinnar sem rekin er sem i verktöku hjá ríkissjóði og að stórum hluta til útflutnings afurðanna á hrakvirði að teknu tilliti til þess kostnaðar sem að baki býr. 

Hin greinin er nautgriparæktin. Þar var búinn til auður einnar kynslóðar með kvótaúthlutun til þeirra sem stunduðu mjólkurframleiðslu. Afleiðingin varð hækkun á verðmæti jarða þeirra sem í framleiðslunni voru. Verðmæti sem þeir geta síðan leyst út er þeir hverfa úr rekstrinum vegna aldurs eða af öðrum ástæðum.

Ný kynslóð situr síðan uppi með baggann og þeir sem voru að koma sér fyrir, en ekki komnir með fullan rekstur þegar gjörningurinn var gerður, sátu á sínum tíma uppi með jarðir sem voru skyndilega orðnar lítils virði.

Ekki vegna lélegra landkosta, fjarlægðar frá mörkuðum né annars í þá veru, heldur vegna reglna sem komið var á af þeim sem um véluðu, sitjandi við borðið allt um kring og undir og ofaná.

,,Efnahagslegur stöðugleiki" í landinu okkar er allt of oft, stöðugleiki valinna og útvaldra og það þarf mikið til að einstaklingar nái því að rífa sig út úr hnappheldunni sem hinn efnahagslegi stöðugleiki forréttindahópsins er byggður á: baktjaldamakki og undirferli í bland við takmarkaðan heiðarleika.

Þó er það til og hefur gerst en það þarf mikið til.

Um meinta ,,þrælslund"


 Ole Ant­on Bielt­vedt ritar grein í Morgunblaðið og spyr hvort einhver telji að Þorsteinn Pálsson sé haldinn ,,þrælslund"?

Tilefni spurningar Ole, er að 5. frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjödæmi Arnar Þór Jónsson, skrifaði grein sem hann kallar ,,Höfum það sem sannara reynist" í Morgunblaðið 10. júlí og ritaði þar m.a.: 

,,[...] að Þorsteinn telji rétt að líkja lágmarkskröfum um þinglega meðferð, hagsmunagæslu og lýðræðislega rót laga við einhvers konar „uppákomur“ þá ber það vott um stjórnlyndi og valdboðsstefnu annars vegar og þrælslund hins vegar, en ekki það „frjálslyndi og lýðræði“ sem flokkur Þorsteins vill þó kenna sig við í orði kveðnu."

Málið snýst um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu og/eða hugsanlega frekari samvinnu við það. 

Hver ástæða afstöðu andstæðinga nánari tengsla við ESB er, verður ekki fullyrt hér. En í hugann reikar minning um skopmynd sem teiknuð var af kunnum forystumönnum þeirrar andstöðu, þar sem þeir voru sýndir húkandi í helli á öræfum uppi og áttu lítið annað eftir, en að renna steini fyrir opið til að hindra hugsanlega strauma frá því vondslega bandalagi sem þeir telja Evrópusambandið vera!

Ole Anton fer vel yfir hvernig lýðræðisfyrirkomulagið er í Evrópusambandinu og það verður að segjast að ótrúlegt er, ef frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins hefur ekki upp á annað að bjóða, en að halda því fram að virtir og vandaðir pistlahöfundar á borð við Þorstein Pálsson séu haldnir stjórnlyndi, þrælslund og valdboðsstefnu.

Sé mark takandi á þessum málflutningi mótast afstaða Sjálfstæðisflokksins af einhverju öðru en málefnalegum rökum og jafnvel ekki af hagsmunum íslensku þjóðarinnar.   



Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...