Styrjöldin og það sem ekki má

 

Það bar við í gær, að mér var bent á með #, að á ferðinni væru greinar eftir bloggara á Morgunblaðsblogginu sem ekki þættu boðlegar og sem að ég þyrfti endilega að kynna mér! Ég gerði það og hef lesið þær yfir aftur og niðurstaðan er að þær séu vel þess virði að fólk kynni sér skrifin.

Þær féllu sem sagt ekki inn í línuna sem viðkomandi voru búin að marka sér varðandi átökin sem nú geisa í Úkraínu og er ég deildi slóð þeirra, kom í ljós að fleiri voru sama sinnis og ekki nóg með það, sendu mér ákúrur fyrir að vera að deila svona óhæfuboðskap.

Ástæðan var hver höfundurinn var, en ekki hvað hann skrifaði. 

Þangað erum við komin, að í umræðunni skiptir meira máli hver segir hvað og hvenær, en hvað viðkomandi segir.

Ég framsendi sem sagt greinarnar á Facebook og það fór eins og ég hafði gert ráð fyrir að fram stigu þeir sem allt vissu betur og allt vissu best!

Samt er það ekki mín tillaga að að því fólki verði falið að finna lausn á deilunum sem uppi eru um héraðið Donbass í Úkraínu.

Ástæðan er sú, að fram kom í skrifum þess, að það var fyrirfram visst um hver hefði gert hvað og að viðkomandi hefði gert það að óþörfu og því þyrfti að koma í veg fyrir að hann gerði fleira.

Ég hef staðið í þeirri meiningu að í samskiptum þjóða gilti, að sýna virðingu fyrir sjónarmiðum annarra, hverjir sem þeir eru og hversu illa okkur kann að líka við sjónarmið viðkomandi.

Tilgangurinn væri að komast að ásættanlegri niðurstöðu um deilumál sem upp koma og að leita skyldi allra mögulegra leiða til að forðast ófrið milli þjóða og þjóðabandalaga.

_ _ _

Fyrrverandi forseti Íslands var í sjónvarpsviðtali fyrir nokkrum vikum og honum varð það á aðspurðum, að telja rússneska ráðamenn einhverja, sem ég man ekki lengur nákvæmlega hverjir voru, vera venjulega menn og muni ég rétt, bar hann þeim þokkalega sögu.

Fyrir þetta fékk hann harða dóma á samfélagsmiðlum!

Fyrir nokkrum dögum steig fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna fram og hvatti til þess að fundin yrði lausn á deilum ríkjanna með milligöngu og samningaviðræðum og færði fyrir máli sínu sterk rök.

Ekki fékk gamli maðurinn þakkir fyrir og svo er að sjá sem ekki komist annað að, en að lúskra svo á Rússum að þeir gefist upp á að ,,frelsa“ Donbass og sunnanverða Úkraínu. Hvenær því á að verða lokið og hvað þurfa muni til fylgir ekki sögunni.

Gallinn er sá, að það á að koma í hlut Úkraína að sjá um framkvæmdina og að það verður að öllum líkindum verkefni sem þeir ráða fremur illa við, þrátt fyrir stuðning af ýmsu tagi og þó aðallega úr vopnabúrum NATO- ríkja.

Er það sem sagt þannig, sem menn vilja sjá framtíðina fyrir sér, að Úkraína og Rússland verði í langvinnu stríði hvort við annað og að það verði að lokum Úkraína sem vinni það stríð?

Finnst mönnum líklegt og vænlegt, að horfa fram á framtíð Evrópu þannig að í austanverðum hluta hennar geisi styrjöld þar sem öllum tiltækum vopnum er beitt?

Gæti verið að þessum ,,tiltæku“ vopnum yrði beitt víðar? Vilja menn að svo verði og vilja menn að ríkin tvö og heimsbyggðin öll verði rjúkandi rúst? 

Er það framtíðarsýnin?

Hverjir munu hagnast á slíku langtímaástandi, eða þar til yfir lýkur? Er það almenningur í löndunum tveimur? Eru það almennir íbúar NATO- landanna? Er það heimsbyggðin öll?

Svarið við þessum spurningum öllum er nei.

Þeir einu sem munu hagnast eru vopnaframleiðendur, væntanlega beggja stríðsaðila, en þó ekki alveg, því vopn til Úkraínu munu koma frá vestrænum framleiðendum og trúlega að mestu frá hergagnaframleiðendum í Bandaríkjunum. Þeir munu hagnast, um tíma, en ekki til lengdar

Það mun hinsvegar verða almenningur í nánast heiminum öllum sem mun líða fyrir vopnaskakið. Líða vöruskort af ýmsu tagi og njóta verri kjara vegna afleiðinganna á hagkerfi heimsins og ef allt fer á versta veg, líða fyrir tortímingu þeirra samfélaga sem við þekkjum í dag.

Og ekki skulum við halda að við séum friðlýst, verandi í NATO og með aðstöðu bandaríska hersins í Keflavík.

Því má öllu sæmilega vel gerðu fólki vera það ljóst, að betra er og vænlegra í öllu tilliti, að stillt verði til friðar og að það er betra en að stuðla að ófriði.

Stríð, blaður og bóla

 

Á RÚV.IS má að lesa að Putin sé eini Rússinn sem Zelensky forseti Úkraínu vilji ræða við, og við sjáum mynd af þeim síðarnefnda fylgja með:


Myndir af herramönnum tveimur, sem stríða um landsvæðið Donbass, birtast daglega í flestum miðlum og þó Zelensky hafi vinninginn í fjölda birtinga, þá er það trúlega aðeins vegna þess að hann veit það vel frá fyrri starfa sínum: að það er nauðsynlegt að vera í sviðsljósinu til að athyglin haldist.

Putin er augljóslega öðruvísi persóna og áttar sig ekki á því að það skiptir máli hvernig maður er klæddur til verkanna. Er í sparifötum þegar við sjáum hann, nema þegar honum bregður fyrir í íþróttagalla af einhverju tagi:


 Zelensky fetar í fótspor fyrri leiðtoga í svipaðri stöðu, svo sem Castro og Mao og fleiri, sem ávallt gættu þess að vera í ,,vinnugallanum“ til að halda virðingunni og útsjóninni í lagi.

Putin er í sparigallanum en Zelensky er í vinnufötunum og virðist þess albúinn að fara að sópa göturnar fyrir utan, eða bara gera hvað sem er, og til í allt.

Þessir tveir ráða för, eða svo er það að minnsta kosti látið líta út. Líklegt er samt að hópurinn sé ekki bara einn maður hvoru megin, en það er í tísku núna að einblína á eina tiltekna persónu og sagt er að Putin sé í stríði við Úkraínu og að Zelensky sé í stríði við Rússa.

Við vitum að það er ekki alveg þannig.

Til að leysa málið og forða mannslífum væri líklega samt einna best að þessir menn myndu heyja sitt einvígi á góðum stað og að því loknu hæfust síðan samningar um framhald málsins.

Nei annars, það er ekki hægt.

Putin er gamall íþróttajaxl og væri vís með að vinna, og þó Zelensky sé bæði lipur og klár og gæti staðist andstæðingi sínum snúning, þá er það nú svo að bakvið þessa menn báða er heljarmikið bakland sem í raun ræður för.

Þeir eru því ekki á leiðinni til Colosseum:

Sameinuðu þjóðirnar, hvar eru þær?


Venjulega hefur það verið þannig að þegar ófriður hefur brotist út, að þá kemur Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna saman til að ræða málin og gera sem hægt er til að stilla til friðar. Svo er ekki núna, ekki í þessu tilfelli. Ekkert heyrist frá þeirri ágætu stofnun, annað en það, að hún kom saman skömmu eftir að stríðið braust út og lýsti óánægju sinni.


Síðan hefur verið hljótt og frekar lítið gerst á þeim vettvangi. Ekki er samt svo að ekkert hafi gerst, síður en svo. Viðskiptaþvingunum hefur verið beitt af miklum krafti og það svo að flest ríki heimsins, en þó ekki öll síður en svo, er farið að skorta eitt og annað sem til þarf til að reka nútímaþjóðfélög.

Það vantar spýtu og það vantar sög, var eitt sinn sungið, en nú er farið að vanta fleira.

Það vantar hráefni af ýmsu tagi til iðnaðarframleiðslu og það vantar vissulega spýtur úr rússneskum skógum og olíu og gas frá því ágæta og gjöfula landi og margt fleira mætti telja s.s. málma og landbúnaðarvörur af ýmsu tagi, því bæði Úkraína og Rússland eru gjöful á þau gæði.

Menn skutu sig, sem sé í fótinn!

Það nýjasta sem við höfum síðan séð til Biden hins bandaríska, er að hann hefur verið að ýfa fjaðrirnar gagnvart Kínverjum og lofar stríði við þá ef þeir myndu nú gera alvöru úr því að innlima Taivan í Kínaríki og fer þá að styttast verulega í heimsstyrjöld.


Þessu til viðbótar er Apabóla tekin við af COVIT-19 og ekki gott að segja hvernig mönnum tekst til með hana ef hún nær sér á flug í stríðsupplausn.

Það vantar sem sagt ekki viðfangsefnin í heiminum og ef þau eru ekki utanaðkomandi líkt og pestirnar, þá eru þau búin til að misvitrum mönnum og það er enginn skortur á þeim.

,,Átök í Evrópu"

Haukur Haukson ritar grein um stríðið í Úkraínu sem birtist í Morgunblaðinu í dag (23.5.2022).       

Í greininni rifjar Haukur upp söguna, minnir á fundinn í Höfða sem skilaði því, að samningur náðist milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna (sem þá voru) um eftirlit með skammdrægum kjarnaflaugum.

 

Haukur rifjar upp að:

,,Mik­haíl Gor­bat­sjov sagðist hafa fengið lof­orð frá Banda­ríkja­mönn­um um að NATO myndi ekki stækka um þuml­ung í aust­ur – „not an inch tow­ards East“ – í viðræðum sín­um við Bush, Schultz, Baker o.fl. Það sem hann og Ed­vard Sj­ev­ar­dnadse klikkuðu á, var að fá lof­orðið skjalfest og und­ir­skrifað. Þau skipu­lags­mis­tök auðtrúa sov­ét­leiðtoga í lok kalda stríðsins eru nú að koma í ljós og það svo um mun­ar."

Síðar í grein sinni minnir hann á, að stríðið í Úkraínu hófst ekki með innrás Rússa eins og oft er haldið fram og að það stríð sé búið að vera viðvarandi árum saman án þess að um hafi verið mikið fjallað í vestrænum fjölmiðlum og í greininni segir á einum stað:

,,Úkraínsk­ar þjóðern­is­sveit­ir hafa í átta ár skemmt sér við að skjóta á byggðir Don­bass og 14.000 manns hafa verið drepn­ir. Volodomír Selenskí fór á víg­stöðvarn­ar. Greini­legt var að hinn ungi for­seti hafði enga stjórn á nýnas­ist­um sem gerðu grín að hon­um."

Þetta vill gleymast og mannfall fjórtán þúsunda manna er ekki, að því eð virðist, talið mikið hér fyrir vestan og segja má að lítið sem ekkert hafi verið fjallað um málið í fjölmiðlum hérna megin járntjaldsins sem einu sinni var. Járntjaldinu sem segja má að nú sé búið að endurreisa.

Haukur nefnir líka hvernig NATO hefur þanist út og auðvitað til austurs og við munum líka mörg að samningurinn, sem náðist milli Rússa og Bandaríkjamanna um skammdrægar kjarnaflaugar er orðinn einskis virði og að það eru ekki Rússar sem bera ábyrgð á því að svo fór fyrir þeim samningi.

Grein sinni lýkur Haukur með þessum orðum:

,, Allt frá því að Vig­dís var for­seti, Stein­grím­ur for­sæt­is­ráðherra og Davíð lánaði Höfða, hefðu Íslend­ing­ar átt að að stuðla að sam­ræðum og friði. Ekta diplómatía felst í því að skýra rétt frá stöðu mála, bera klæði á vopn­in, ekki olíu á elda.

Á Íslandi þró­ast mál með ólík­ind­um."

Og síðan:

,,Ekk­ert má raska heims­mynd Reu­ters, flokkslínu Brus­sel og alþjóðasinna, ekki skal einu sinni liðið að 1% upp­lýs­inga sé sjálf­stætt og byggt á söguþekk­ingu, ekki síst á tím­um „fjöl­breytni og umb­urðarlynd­is“ í „upp­lýstu“ nú­tíma­sam­fé­lagi. Þetta er hættu­leg þróun og sorg­leg."

Það er svo sannarlega sorglegt, að sú þýða sem virtist vera komin til að vera, eftir fund þeirra Gorbasjovs og Regans í Höfða, skuli vera orðin að hösli, sem vandséð er hvernig brætt verður upp að nýju.

Við megum samt ekki missa vonina og óskandi er, að til þess bærir menn stígi fram og nái að bera klæði á vopnin. En það verður að leiða til þess, að varanlegur friður náist og að ástandið sem verið hefur á Donbass svæðinu síðastliðin ár, endurtaki sig ekki.

Við höfum fengið skilvíslega fréttir að erjum milli Ísrael og ,,Vesturbakkans", en af einhverjum ástæðum hefur ekki þótt taka því, að upplýsa okkur um ástandið í Donbass.








Hluti af sögu Haiti



Á vefútgáfu New York Times þann 20. maí síðastliðinn, var umtalsverð umfjöllun um sögu Haiti

Þar er sagt frá því hvernig íbúar  eyjunnar voru meðhöndlaðir af fyrrverandi nýlenduherrum sínum og er frásögnin undir fyrirsögninni:

 ,,Haiti‘s Lost Billions“.



Þar segir frá því m.a. að tveimur áratugum eftir að eyjan fékk sjálfstæði frá Frakklandi hafi komið floti herskipa til að hefja það sem kalla mætti peningastyrjöld við eyjarskeggja. Skipin voru komin til að krefja þá um peninga, nánar tiltekið 150 milljónir franka og með herskipin lónandi fyrir ströndinni samþykktu eyjaskeggjar kröfuna, enda annars ekki kostur.



Íbúarnir, sem búnir voru að greiða fyrir frelsið með blóði sínu, þurftu nú til viðbótar að greiða fyrir það með peningum.

Haiti varð þannig fyrsta og eina landið, til að greiða fyrrverandi húsbændum sínum fyrir frelsi sitt svo kynslóðum skipti að sögn blaðsins.

The New York Times hefur safnað saman skjölum um þessa sögu, sem það birtir ásamt frásögn sinni sem er á vefslóðinni:

 https://www.nytimes.com/interactive/2022/05/20/world/americas/enslaved-haiti-debt-timeline.html

Frásögnin er fróðleg lesning um framkomu nýlenduþjóðar við fyrrverandi nýlendu sína. 

Og reyndar má segja að frelsið hafi varla verið nema nafnið eitt, þar sem kúgararnir slepptu ekki klónni af nýlendunni fyrr, en áratugum eftir að ,,frelsið“ svokallaða frá þeim var fengið.



Frásögn N.Y.T. er myndskreitt og þar má m.a. sjá skjöl, sem miðillinn hefur aflað sér um málið.

Þessi saga verður ekki sögð frekar á þessari síðu, en óhætt er að benda þeim sem vilja fræðast um þetta mál á að heimsækja vefsíðuna sem hér er vísað í.

Látið verður nægja að birta nokkur skjáskot að myndskreytingum N.Y.T.



GFSI nefndin mikla.

 


Mynd af grein Kjarnans sem varð til þess eftirfarandi hugrenningar fóru á stjá:  

Það þurfti sem sé allt að því heimsstyrjöld til að íslensk stjórnvöld lifnuðu við, lyftu brúnum, stofnuðu nefnd, pöntuðu skýrslu  og álit og vafalaust sitthvað fleira, sem bæði er þarft og nauðsynlegt, til að eitthvað sé við að fást í hinni margfrægu stjórnsýslu.

Það er fæðuöryggi þjóðarinnar sem verið er að hugsa um, þ.e.a.s. ef menn ná því að rífa sig upp út skýrslusamningum, nýjum tillögum og greinargerðum, og eflaust þarf að rýna alla þessa vinnu og setja að lokum í til þess skipaða nefnd.

Menn eru komnir svo langt í vinnunni, að einhver hefur nefnt það að ekki sé með öllu vitlaust að huga að því hvort hægt sé að rækta meira af korni í landinu.

Búinn hefur verið til mælikvarði og honum hefur verið gefið nafn GFSI og ef að er gáð stendur þessi nafnleysa fyrir ,,Global Food Security Index“ og þar með gæti verið að málið sé leyst, því fín nöfn með heimssýnarlegu yfirbragði að hætti nútímastjórnsýslu er það sem leysir vandann, vandann sem birtist upp úr þurru og vegna utanaðkomandi atburða vitringanna miklu og góðu, sem settu viðskiptasamskipti heimsins á annan endann.

Það þótti ekki til eftirbreytni að farga bestu kúnni í fjósinu hér áður fyrr, þ.e. áður en menn fundu það út að tyrfnar og timbraðar skýrslur væru lausn alls vanda og rúmlega það. Vafalaust geta pappírspésar nútímans fundið það út með stífum fundarsetum, kaffiþambi og kökuáti, að það sé nú bara best að slá blessaða beljuna af, þó ekki væri nú nema vegna þess, að kýr eru þeirrar náttúru að þurfa talvert af heyi til að éta og grasi líka, en skýrsluritarar fundu það út á einum fundi sínum eftir allmiklar umræður, vangaveltur og fyrirtöku hámenntaðra sérfræðinga, að gras fengist ekki til að vaxa á Íslandi nema á sumrin, og tæplega það.

Af öllu þessu leiðir að rita þarf mikla skýrslu um fæðuöryggi þjóðarinnar, og vegna þess að maður nokkur sem leið átti um, og villtist í rangt herbergi í byggingunni að menn komust að niðurstöðu:

Kanna þarf og rita skýrslu um hvort hægt sé að rækta korn til eldis manna og dýra á Íslandi.

Vitanlega þarf svo að rita skýrslu um niðurstöðuna.

Kanna þarf, hvort hægt sé að búa svo um hnúta, að hægt sé að sigla með matvöru yfir hafið - sem skýrsluritarar uppgötvuðu á einum fundi sínum að væri umhverfis Ísland, þ.e. landið sem þeir byggju á –  þegar skollin væri á allsherjarstyrjöld  með öllum tiltækum og þekktum vopnum og þar með töldum kjarnorkuvopnum.

Fá fram ,,greiningu“ á, hversu miklar líkur væri á að slíkt ástand skapaðist.

Og svo framvegis og svo framvegis og svo framvegis….

Út mun síðan koma um það bil 200 síðna skýrsla um málið, þ.e.a.s. ef veröldin eins og við þekkjum hana verður enn til, þegar skýrslusemjendur verða búnir að drekka síðasta kaffibollann og búnir að halda útgáfuhóf í tilefni af vel unnu starfi.

Það sem helst gæti truflað þessa vinnu er, ef að pappír verður ekki lengur til í landinu og að menn kynnu ekki lengur, að verka skinn til að pára niðurstöðuna á.

Yrði það nú niðurstaðan, gæti það hugsanlega og kannski og ef til vill gerst, að einhver sem ætti leið framhjá myndi koma blaðskellandi með lítið og snoturt plagg, ritstýrt af Birni Bjarnasyni, með nafninu Ræktum Ísland!

Og að því gefnu að nefndarmenn og konur og köku og kaffiburðarfólk, væri ekki endanlega sprungið á limminu í þenkingum sínum, væri málið leyst.

En þá þarf vitanlega að skrifa skýrslu um það!

Fréttir dagsins

 Á mbl.is í dag (17.5.2022) getum við fræðst um björgun Azov liðanna úrkaínsku sem lokaðir hafa verið inni í stálverksmiðjunni í Mariopol. 

Mynd úr mbl.is af mönnunum í birginu. Engin ábyrgð tekin á að um ,,hermenn" úr birginu sé að ræða.


Á Russia Today var hægt að fræðast um það sama í gær en svo er að sjá sem fregnum beri ekki alveg saman. Á rússnesku stöðinni er sagt ,,[...]go to hospital in Novoazovsk, the Russian defense ministry said on Monday."

Á myndinni, sem tekin er úr Goggle maps sést á rauða blettinum hvert ,,hermennirnir" verða fluttir.

Á mbl.is segir m.a.: ,,Í gær voru yfir 260 her­mönn­um komið ör­ugg­lega frá verk­smiðjunni í gegn­um flótta­leiðir á svæði sem eru und­ir stjórn aðskilnaðarsinna." 

,,Aðskilnaðarsinnar" sem hér eru kallaðir svo, eru væntanlega íbúar Donbass, sem varist hafa í um átta ár árásum (m.a.) úkraínskra leyniskyttna. 

Þá segir einnig fyrr í þeirri frétt, ,,Áður hef­ur hundruðum her­manna verið bjargað úr verk­smiðjunni í fyrri aðgerðum."

Sá sem þetta ritar hefur staðið í þeirri trú að myndirnar sem birst hafa af konum og börnum, sem náðasamlegast fengu að fara úr birginu, hafi verið af konum og börnum en ekki ,,hundruðum hermanna".

Fyrir nú utan það að setja má spurningarmerki við hvort um hermenn í venjulegum skilningi sé að ræða.

Hvað sem þessu misræmi líður, er óskandi að prísund þessa fólks sé hér með lokið. 

Í Stundinni rákumst við svo á frétt af bandarískum hermanni sem kominn er til Íslands til að liggja við, fyrir utan Rússneska sendiráðið í Reykjavík. Maðurinn segir sögu sína í vefritinu og augljóst er að hann hefur þvælst víða og m.a. tekið þátt í hernaðinum í Úkraínu, þ.e. þeim sem nú er.

Erindi mannsins er að liggja á gangstéttinni fyrir utan rússneska sendiráðið í Reykjavík til að segja rússneska sendiherranum á Íslandi, kurteislega eins og hann kemst að orði, ,,að andskotast héðan burtu".
Ekki er gott að segja til um hvernig maður þessi tjáir sig þegar hann gerist ókurteis! 

Eitt er sagt og annað hugsað

  Í grein í The Guardian sem birtist þann 14 maí sl. undir yfirskriftinni ,,Russia’s Black Sea blockade pushing millions towards famine, G7 says" er drepið á ýmislegt sem er ofarlega í huga vestrænna ráðamanna þessa dagana, auk þess sem vitnað er í úkraínskan svæðisstjóra (Oleg Sinegubov og eiginkonu (Natalia Zarytska) eins þeirra ,,hermanna" sem hýrast við lakan kost í alkunnu stáliðjuveri í Mariopol.

Í greininni er því haldið fram að milljónir manna muni svelta til dauða ef Rússar heimili ekki útflutning á korni frá hinum lokuðu höfnum Úkraínu og fyrir þessu er borinn ónefndur utanríkisráðherra úr G7 hópnum. 

Við munum að eitt sinn hét sá hópur G8 hópurinn, en það var áður en menn fundu það út að best væri að vísa Rússum út úr klúbbnum. Nú heitir hópurinn sem sagt G7 en ekki G8 og innan hans er enginn Rússi til að tala við um málið og þá er brugðið á það ráð að að spjalla við blaðamann í þeirri von að forseti Rússlands muni lesa hið breska blað.

Hundar fara þessa leið stundum ef þeim liggur eitthvað á sínu hundslega hjarta og venjulega ber það þann árangur að þeim er sveiað til að þegja!

Þýskalandskanslari Olaf Scholz varar menn við því að Putin hafi verið óbilgjarn í samtali nokkurra ráðherra við hann síðastliðinn föstudag.

Hópurinn sem spjallaði við Putin var frá Kanada, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu, Bretlandi og Bandaríkjunum og hann fordæmdi hinn rússneska forseta fyrir að loka flutningaleiðum frá Úkraínu um hafnirnar um Svartahaf.

Hinn virðulegi klúbbur hafði í hita leiksins gleymt því að Rússar eru í stríði við Úkraínu, stríði sem gengur út á að endurheimta tvö héruð landsins sem það síðarnefnda var búið að sölsa undir sig, en hinum vestrænu leiðtogum, sem búnir eru að fá óvæntan áhuga á sveltandi fátæku fólki finnst ekki gott ef kornverð hækkar á markaðnum; höfðu gleymt því í hita leiksins og ákafa sínum að þeir eru búnir að beita sér fyrir allskonar viðskiptaþvingunum gagnvart rússnesku þjóðinni, þvingunum sem snúa að olíu, gasi og fjölmörgu fleiru, auk þess sem eigur rússneskra auðmanna hafa verið kyrrsettar. Það síðasttalda hafa þeir eflaust mátt gera án þess að komið hafi beint við pyngju almennings í löndunum sem fígúrur hins fína G7 klúbbs bera svo mjög fyrir brjósti.

Í grein The Guardian er sagt frá því að hvorki meira né minna en 43 milljónir manna muni líða hungur verði ekki hafnir (Úkraínu) opnaðar og við gleðjumst innilega yfir þeirri samúð með smælingjum heimsins sem skyndilega hefur brotist fram í hugum þessa göfuga hóps.

Það mun samkvæmt greiningu þessara heiðursmanna skella hungursneyð á heiminn verði Rússar ekki góðu strákarnir við fínu strákana. Þau hefðu ef til vill mátt hugsa fyrst og gera svo; tefla skákina betur í stað þess að standa skyndilega og óvænt(!) frammi fyrir því að þurfa að knékrjúpa fyrir Putin og höfða til góðmennsku hans. Hún er trúlega einhvers staðar en hann er að tefla skák og er ekki spenntur fyrir því að verða heimaskítsmát.

Þetta ákall til Rússlandsforseta kemur fram þegar úkraínskir eru bornir fyrir því að vel gangi í stríðinu að þeirra mati og rússneski herin sé að draga sig til baka og sé núna ekki nema 50 km frá landamærum Rússlands. Fyrst svo er, er þá ekki eðlilegast að biðja Úkraína, sem standa sig svona vel í staðgengils stríðinu, um að opna umræddar hafnir. Biðja ,,hermennina" í stálverinu um að fara að afgreiða skip og fara að skipa út!

Seinna í frásögn hins breska blaðs er rætt við eiginkonuna sem bíður eftir manni sínum úr gildrunni í stálverinu. Sú er búin að ræða málið Xi Jinping hinn kínverska um björgun mannsins síns og félaga hans. Önnur kona segir frá því að allir séu mennirnir sem fastir eru í gildrunni bardagafúsir, þ.e.a.s. nema þeir sem misst hafa hendur og fætur og maður getur varla ímyndað sér hvernig það muni vera að vera lokaður þarna inni í því ástandi, en þeir kjósa að gefast ekki upp. Hvort mennirnir lúta stjórn yfirvalda í Úkraínu er óljóst, en ef svo er þá er virðing þeirra yfirvalda fyrir lífi og limum sinna manna eitthvað af skornum skammti. Því nánast er útilokað að mennirnir komist heilir á líkama og sál út úr þessari klípu. 

Ólíklegt er að  hinn kínverski spjallfélagi konunnar skipti sér af málinu, enda vandséð hvað hann ætti að segja rússneska hernum, úkraínska hernum og yfirvöldum þjóðanna tveggja að gera.

Zelensky forseti Úkraínu telur málið afar flókið og erfitt viðureignar og af því má ráða að úkraínsk yfirvöld hafi ekki beint boðvald yfir mannskapnum; geti ekki gefið þeim skipun um að leggja niður vopn og gefa sig á vald rússneska hersins. Sé svo, þá er komin fram sönnun þess að um sé að ræða harðskeitt berdagalið, trúlega af sama meiði sprottið og þau sem herjað hafa á Donesk og Lughansk héruð undanfarin ár. Þá sem bera óskoraða ábyrgð á þeim ófriði sem verið hefur á svæðinu og sem leitt hefur til ,,hinnar sérstöku hernaðaraðgerðar" Rússlands.

Þessu til viðbótar má benda á það að í sama blaði og sem hér hefur verið vitnað í, er er sagt frá því í dag, að ekki standi til að aflétta viðskiptaþvingunum af Venesúela eins og einhverjum mun hafa komið til hugar, til að fá þaðan olíu til að dempa niður verðhækkanir á henni.

Það verður sem sé ekki gert og ástæðan er eflaust mikill áhugi manna á að græða á verðhækkunum sem orðnar eru á olíu og matvælum og hráefnum til framleiðslu þeirra, svo sem hér hefur verið drepið á.

Ekkert af þessu mun lagast í bráð. Ekki meðan stríðið geisar milli grannanna í austri og ekki meðan enginn vilji er til að bera klæði á vopnin af hálfu mannanna í fína klúbbnum sem hér var nefndur í upphafi og ekki meðan blásið er glæðum í þann eld sem svo líflega logar.

Það er svo að sjá sem skiptingin milli austurs og vesturs sé að aukast og styrkjast og að öfgarnir ráði för.


Kindur, minkar, hestar, kýr, (svín og alifuglar)

 


Skjáskot úr Bændablaðinu

Fjöldi búfjár í landinu okkar er Bændablaðinu hugleikinn og um hann er fjallað á forsíðu blaðsins sem kom út þann 12.maí síðastliðinn í grein undir yfirskriftinni ,,Talning á hrossum er enn í ólestri og möguleg skekkja 15.431 hross“ og í beinu framhaldi:

,, Heildarfjöldi búfjár í landinu um áramót 2021 var 1.236.267 dýr. Inni í þeirri tölu er nautgripa­stofninn, sem taldi 80.563 gripi, sauðfjárstofninn með 385.194 vetrarfóðrað fé og svínastofninn með 10.166 gyltur og gelti. Þá eru tvær tölur gefnar upp um hrossastofninn, annars vegar 54.069 og hins vegar áætluð tala upp á 69.500 hross.“

 Að því gefnu að þessar tölur séu réttar, þá er fjöldinn um 700.000 húsdýr, en eins og sjá má þá er fjöldi hrossa eitthvað á reiki og hér er tekið meðaltal af tölum blaðsins um fjölda hrossa.

Í yfirskrift umfjöllunarinnar segir að ,,heildarfjöldi búfjár í landinu árið 2021 taldist vera 1.236.267 fjórfætlingar og fiðurfé“, en eins og okkur flestum er kunnugt, þá ganga fuglar á tveimur fótum!

Í greinarkafla sem ber millifyrirsögnina ,,Skekkja upp á 15.431 hross!“ er farið yfir mismun sem virðist vera varðandi fjölda hrossa, en síðan snarast yfir í umfjöllun um alifuglarækt, þ.e.a.s. fénaðinn sem gengur á tveimur fótum eins og við munum! 

Hross gera það að öllum jafnaði ekki nema þegar þau prjóna, en það telst varla með, hefði maður haldið. Hvað sem því líður, þá hefst mikil talnaleikfimi í framhaldi af þessu sem ekki verður rakin hér, nema að því leiti til, að tölur sveiflast upp og niður, eða út og suður og ekki fyrir hvern sem er að rekja sig áfram í talnaflóðinu.

Það kúnstugasta í þessu öllu er samanburður á fjölda hænsna og sauðfjár allt frá 1985 og fram til 2020. Um það áhugaverða mál geta menn lesið á forsíðunni og síðan áfram á blaðsíðu tvö í blaðinu, hafi menn áhuga á. Þar er rúmlega helmingur síðunnar helgaður þessu áhugaverða efni með súluriti yfir fjölda sauðkinda allt frá 1703 til 2021. 

Fyrirsögn þeirrar umfjöllunar er: 

,,Stefnir í að sauðfjárstofninn á Íslandi verði sá minnsti í rúm 200 ár, og í upphafi greinarinnar sjáum við að í  landinu er um það bil ein kind á hvern íbúa, en kindafjöldinn var tæp hálf milljón árið 1855. Árið 1703 var íbúafjöldi landsins innan við 50.000".

                                                                       Skjáskot út Bændablaðinu

Í greininni segir síðan að mestur fjöldi sauðfjár hafi verið 1977 en þá hafi sauðkindur verið tæpar 870.000 í landinu. Höfundi greinarinnar finnst augljóslega þessi fækkun ekki góð og hafi fjöldi kinda verið hinn eini rétti 1977 þegar íbúar þjóðarinnar voru talsvert innan við 200.000 þá er augljóst að fjöldinn þyrfti að vera um tvær milljónir tæpar af kindum í dag til að ásættanlegt yrði!

Umfjöllun blaðsins um þetta áhugaverða mál lýkur síðan með því að opinberað er, að stýrð sauðfjárbeit sé feimnismál meðal sauðfjárbænda vegna ótta þeirra um að ímynd fjallalambsins muni við það skaðast!

Ímyndin felst sem sagt í því að hafa beitina stjórnlausa og lausráfandi kindur vítt og breitt um landið, á löndum í óþökk nágranna, í vegarköntum (þar sem margar þeirra glata lífinu vegna óvæntra kynna af bílum sem um vegina fara) og á hálendinu sem engan vegin þolir nema mjög takmarkaða sauðfjárbeit.

Síðasta setning þessarar umfjöllunar Bændablaðsins um þessi mál  er svohljóðandi:

,,Hvort slíkt ímyndarmál vegur þyngra en hugsanlegt hagræði af hólfastýrðri beit á láglendi, þarf trúlega að leiða í ljós með faglegri rannsókn“.

Já, ætli það gæti ekki verið gott, að í stað vaðals í framsóknaríhaldsstíl um ást manna á kindum (ást sem brýst út að hausti með því að éta það sem menn elska mest!) kæmi til sögunnar nýr hugsunarháttur laus við draumsýn Bjarts í Sumarhúsum og auglýsingavaðals ríkisrekstrarins sem birtist okkur sem auglýsingar Icelandic Lamb, á heilsíðum dagblaða og í sjónvarpi og víðar og að lokum í útgjöldum ríkisins.

Hér verður ekki lagt út í það fen Bændablaðsins, að ræða um talnasúpuna sem borin er fram varðandi alifuglaeldi (dýranna sem ganga á tveimur fótum eins og við munum), það verður gert síðar ef þurfa þykir.

Fyrir áhugasama er texti blaðsins um alifuglafjöldann hér fyrir neðan innan tilvitnunarmerkja og ætli það segi okkur ekki eitthvað að á tveimur stöðum er fjöldi hænsna borinn saman við fjölda sauðkinda, en hafa verður í huga að hver holdahæna skilar af sér margfalt meira kjötmagni en hver sauðkind.

_ _ _

,,Frá 1985 til 2001 fór alifuglarækt hrakandi þó með tveim uppsveiflum, þ.e. 1990 og 1999, en var samt langt undir sauðfjárfjöldanum. Neðst fór alifuglaræktin í 207.102 fugla á árinu 2001, en fór síðan hratt stígandi fram til 2007 þegar alifuglaræktin fór í fyrsta sinn fram úr sauðfjárræktinni. Þá töldust alifuglar í landinu vera 469.682, en sauðfé 456.007. Eftir þetta varð hökt á alifuglaræktinni fram til 2015 þegar stofninn taldist vera 249.044 fuglar. Á árinu 2016 varð gríðarlegt stökk og á einu ári stækkaði alifuglastofninn um 793.424 fugla og fór upp í 1.042.468. Þetta er aukning upp á rúm 318,5%. Það sama ár talist sauðfjárstofninn vera 476.647 skepnur. Um síðustu áramót taldist alifuglastofninn í heild vera 689.616. Það er veruleg fækkun frá árinu 2020, þegar alifuglastofninn var talinn vera 842.943 fuglar. Það eru varphænsni eldri en 5 mánaða, holdahænsni eldri en 5 mánaða, lífungar yngri en 5 mánaða, kjúklingar, endur, gæsir, kalkúnar og aðrir alifuglar. Erfitt er þó að henda nákvæmar reiður á fjöldann, sem er mjög breytilegur innan ársins og innan mánaða vegna hraðs vaxtar og örrar slátrunar. Varphænum fækkar um helming Athyglisvert er að varphænsnum hefur fækkað um rúmlega helming á milli ára, eða úr 203.643 í 100.565 fugla. Þær voru hins vegar 231.901 árið 2018. Holdahænsni töldust vera 44.813 um síðustu áramót og fjölgaði um 7.603 fugla milli ára. Vantar samt talsvert upp á að þær nái fjöldanum 2019 þegar þær voru 61.974.“

Bændablaðið fjallar einnig um dýr sem almennt eru ekki étin og hér fyrir neðan er skjáskot af þeirri umfjöllun. Loðdýraræktin er aðeins að ná sér á strik og það þrátt fyrir ömurlega umfjöllun á Alþingi og víðar. Vonandi heldur sú þróun áfram. 

Óvönduð umræða um búgreinar og ýmsa atvinnustarfsemi s.s. raforkuöflun,  er orðin allt að því landlæg plága og óskandi, að minnsta kosti alþingismenn, sjái sóma sinn í að vanda þá umræðu. Það fer illa saman að ræða í öðru orðinu hve nauðsynlegt það sé að allir hafi vinnu við sitt hæfi og síðan í hinu að naga niður nær allt sem gert er. 

Sárast er þó, þegar kjörnir fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi gera það, líkt og gerðist á því þingi sem sat fram að síðustu kosningum. 


Skjáskot úr Bændablaðinu

 

 

 

Er kannski ,,bara best" að flytja inn matvöruna



 Vigdís Häsler framkvæmdastjóri Bændasamtakanna ritar grein sem birt er í Morgunblaðinu 12.5.2022; grein sem vert væri að sem flestir læsu.

Niðurlagið er smellið, en í greininni líkir Vigdís ,,[...] til­veru bænda við líf Línu, vinnu­kon­unn­ar í Katt­holti sem oft og iðulega var send út í fjós að mjólka kýrn­ar ef heim­il­is­fólk­inu þótti nóg um henn­ar skoðanir og at­huga­semd­ir."
En þegar aumingja Lína var búin að sinna fjósastörfunum þótti hún vart í húsum hæf vegna fjósalyktarinnar!
Eða eins og segir í greininni:
,,En á meðan aum­ingja Lína skrúbb­ar af sér fjósaþef­inn kann það að vera álita­mál, á meðan sveit­ar­fé­lög­in eru ekki að sinna skipu­lags­skyld­um sín­um í sam­ræmi við stefnu stjórn­valda, hvort flokk­un land­búnaðar­lands til framtíðar litið m.t.t. rækt­un­ar­mögu­leika sé best fyr­ir komið hjá sveit­ar­fé­lög­un­um sé það mark­mið stjórn­valda að tryggja fæðuör­yggi þjóðar til framtíðar. En Lína er auðvitað ekki í fram­boði."
Á tímum þegar æ erfiðara er fá heimildir til að byggja upp í landbúnaði svo sem nýleg dæmi eru um bæði á Kjalarnesi og á Suðurlandi verður manni hugsað til Línu eftir lestur greinar Vigdísar!
En kannski ,,er bara best" að flytja inn allar þær landbúnaðarvörur sem þjóðin þarfnast og sleppa því að leiða hugann að því:
Að einhverstaðar hefur einhverju verið fórnað, til að hægt væri að framleiða matvælin sem við neytum.

9. maí 2022

 

(Mynd fengin af W.S.J. ) 

Rússar minnast sigursins yfir Þýskalandi nazistans í dag og halda uppi minningu þeirra um 27 milljóna sovétborgara sem létu lífið í þeim hildarleik.

Nú eru þeir í öðru stríði til að bjarga héruðunum Donesk og Lughansk undan ófriði ný-nazista. Mörgum finnst það ganga brösuglega enda streyma hergögn af ýmsu tagi til Úkraínu frá fyrrverandi bandalagsþjóðum Rússlands í heimstyrjöldinni og þar með væntanlega í hendur hinna meintu nazista.

Hvort Hitler og hans hyski hefði skrifað uppá nazistavottorð fyrir þá stjórnlitlu uppivöðsluflokka sem vísað er til, er frekar ólíklegt. Karlinn sá vildi svo sannarlega hafa aga á sínu liði og tók ómjúkum höndum á þeim sem ekki lutu höfði, þegar það átti við og sperrtu fram hönd í blindri tilbeiðslu þegar til þess var ætlast.

Við vonum að sú hugmyndafræði vakni aldrei til lífsins aftur, en munum samt að stundum hefur það gerst eftir að seinni heimstyrjöldinni lauk, að svipaðir hugmyndafræðilegir óskapnaðir hafa skotið rótum:

Í Asíu og í Afríku og í Suður Ameríku og Evrópu (Grikkland) og kannski víðar, þó það sé ekki munað á þessu augnabliki.

Við vonum vafalaust flest að stríðinu í Úkraínu ljúki sem allra fyrst og að einhverjar leiðir finnist til að svo verði.

Rússar segjast hafa ráðist inn í landið vegna sífelldra átaka undanfarin tæp átta ár, sem kostað hafi ótal mannslíf og kenna það fyrrnefndum óaldarflokkum sem starfi með þegjandi samþykki og jafnvel stuðningi stjórnvalda í  Úkraínu.

Sá sem þetta ritar telur sig hafa fyrir því traustar heimildir að eitthvað sé til í þessum fullyrðingum, en hvort ekki hefði mátt leysa málið með öðrum hætti er annað mál.

Það er stundum sem rússneski björninn er nefndur til sögunnar og við vitum að ekki er heillavænlegt að erta björn í vetrarhýði sínu þar til hann vaknar og ryðst út til að bregst við áreitinu.

Líklega erum við að horfa upp á afleiðingar þeirrar ertingar í því stríði sem nú geysar.

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...