Grein Björns Bjarnasonar í Morgunblaðinu.
Björn Bjarnason ritaði grein um starf samstarfshópsins sem samdi ,,Ræktum Ísland" og birtist hún í Morgunblaðinu. Í
greininni fer Björn yfir störf starfshóps þess sem landbúnaðarráðherra skipaði.
Hlutverk hópsins var að horfa til framtíðar og semja plagg um landbúnaðarmál. Það er nú komið út og má nálgast það
hér.
Við sem höfum verið þeirrar skoðunar að landbúnaðarstefnan undanfarna áratugi hafi lítil verið og jafnvel frekar verið að afrækta Ísland, finnum nú fyrir bjartsýni.
Eftir lestur skjalsins vaknar tilfinning um að framundan geti verið nýjir tímar í landbúnaðarmálum.
Í stuttu máli sagt, er vert að hvetja alla bændur og aðra áhugasama um landbúnaðarmál til að kynna sér samantekt þá sem fram er komin og sem er nú í almennri kynningu, hún er sett fram á auðskilinn, upplýsandi og skýran hátt.
Það er mikil vinna að gera grein fyrir öllu sem fram kemur í skýrslunni og verður það ekki reynt hér. Björn ritar grein sína í Morgunblaðið og því er hún ekki með góðu móti aðgengileg öðrum en þeim sem eru áskrifendur að því blaði.
Ræktum Ísland er á Samráðsgátt Stjórnarráðsins og þar er hægt að nálgast það og er það um 80 síður á læsilegu og aðgengilegu máli. Samstarfsfólk Björns voru Hlédís H. Sveinsdóttir, Sigurgeir Þorgeirsson og Bryndís Eiríksdóttir.
Senn mun hefjast ,,víðtækt samráð um skjalið" sem liggur frammi á samráðsgátt Stjórnarráðsins eins og áður sagði.
Í Ræktum Ísland kennir margra grasa og á einum stað má sjá þessa setningu, sem telja verður byltingarkennt að sjá í umræðum um íslensk landbúnaðarmál. Þó verður, til að gæta sannmælis, að geta þess að við gerð síðustu búvörusamninga var opnuð lítil glufa á viðhorf sem eftirfarandi:
,,Stuðningur sem að mestu eða öllu leyti er
tengdur ákveðnum búgreinum og afurðum
kann að vinna gegn því að landbúnaður
aðlagist breyttum aðstæðum"
Framundan er fundaherferð til að kynna niðurstöðuna og er ekki að efa að bændafólk og annað áhugafólk um landbúnaðarmál mun mæta á fundina og kynna sér málið með opnum huga svo fremi að COVIT-19 ástandið spilli því ekki. Fundirnir verða 10 talsins og verða haldnir í byrjun júní.
Það verður að segjast, að löngu var orðið tímabært að endurskoða landbúnaðarstefnu fyrir land okkar. Stefna sú sem fylgt hefur verið um langan tíma hefur mótast af viðhorfum sem eru mörgu nútímafólki framandi. Stefnu sem snúist hefur um kindur, kýr og að lokum hross (og nokkurnveginn í þessari röð) á góðum degi og fátt meira, þar til nýlega að garðyrkjan var viðurkennd og tekin í hópinn.
Landbúnaður er miklu meira en þetta og það hafa margir vitað, en íhaldsemi hefur ráðið og margir hafa móast við að horfast í augu við landbúnaðurinn sé meira en þetta fyrrnefnda og bera að fagna því, að útlit er fyrir að atvinnuvegurinn og viðhorfin til hans verði nú senn færð til nútímans.
Talsvert er vitnað til ESB og EES í skýrslunni og er það að vonum. Núverandi landbúnaðarstefna hefur mótast af því í seinni tíð, að Ísland er aðili að þessum fjölþjóðlegu samböndum. Það hefur farið talsvert í taugarnar á einangrunarsinnum, þ.e.a.s. þeim sem virðast vilja fá að velja af hlaðborðinu bestu molana og sleppa hinu; vilja axla ábyrgð af samstarfinu þegar þeim einum hentar og án tillits til heildarhagsmuna og án tillits til þess hvort óskhyggjan sem þeir eru haldnir er raunhæf eða ekki.
Það er tímabært að þeim viðhorfum verði vikið til hliðar og málin séu skoðuð í heild sinni, þjóðinni allri til hagsbóta. Þúfnagöngulag í fjölþjóðasamstarfi dugar frekar illa til að fóta sig í þeirri tilveru svo sem sannast hefur af samningakáki því sem stundað var árið 2015 og tók gildi 2018, en að því er vikið í Ræktum Ísland.
Björn Bjarnason segir á einum stað í grein sinni: ,,Í umræðuskjalinu er farið í saumana á áhrifum EES-aðildarinnar á íslenskan landbúnað, snýr það að framkvæmd á samningum um lækkun tolla og reglum um varnir gegn því að dýrasjúkdómar berist til landsins. Endanleg niðurstaða hefur ekki fengist í tollamálin. Ekki hefur enn tekist að tryggja hæfilegt jafnvægi milli innflutnings á landbúnaðarafurðum og tollkvóta. Íslenskir dýrastofnar njóta hins vegar sérstöðu og verndar."
,,Íslenskir dýrastofnar njóta [...] sérstöðu og verndar" og er það vel. Okkur ber skylda til að vernda stofnana okkar. Um tíma stóð tæpt með geitfjárstofninn en betur horfir nú eftir að menn áttuðu sig á því að skyldur og ábyrgð fylgir því að ,,eiga" sérstaka stofna sem þróast hafa og mótast af aðstæðum um aldir á eyjunni okkar fögru.
Alræmdar pestir hafa herjað á sauðfjárstofninn vegna vanhugsaðs innflutnings á fyrri tíð. Við afleiðingar þess er glímt enn og sér ekki fyrir endann á þeirri baráttu, svo sem alþjóð varð vitni að síðastliðið haust. Aðrir stofnar hafa sloppið betur sem betur fer, en tæpt hefur það stundum staðið. Af því þurfum við að læra og baráttuna við riðupest í sauðfé þarf að endurskoða með það að markmiði, að tryggja betur að féð gangi ekki eins mikið saman í sumarhögum og verið hefur.
Í Ræktum Ísland er rætt um nákvæmnisbúskap byggðan á vísindum og fjórðu tæknibyltingunni og nýtingu þeirrar tækni við búrekstur hverskonar. Ánægjulegt er að í skýrslunni er tekin jákvæð afstaða til þessara hluta og að í stað orðsins ,,verksmiðjubúskapur" er komið orðið nákvæmnisbúskapur.
Nákvæmnisbúskapur er ekki nýtt fyrirbrigði í búrekstri. Þeim hefur nefnilega yfirleitt búnast vel sem sinnt hafa búum sínum af nákvæmni og natni. Að til þess hafi verið innleidd verkaskipting og nútímatækni hvers tíma hefur af einhverjum óskýrðum og satt að segja illskýranlegum ástæðum, farið fyrir brjóstið á ýmsum þeim sem hafa tjáð sig á opinberum vettvangi.
Bjartar í Sumarhúsum leynast víða, en vonandi er að hinar hjáróma raddir þeirra fari senn að hljóðna, eða minnsta kostið að breytast. Þá er einnig óskandi að vanhugsuð upphlaup stjórnmálamanna, svo sem dæmi eru um í nútíma s.s. varðandi minkabúskap og blóðtökuhryssur, heyri senn sögunni til.
Vonandi gefa menn sér tíma til að lesa Ræktum Ísland og nota í framhaldi af því, síðan tækifærið sem gefið er til að gera athugasemdir inn á Samráðsgátt stjórnvalda sýnist þeim svo.
Þá er einnig er óskandi að bændur og búalið og annað áhugafólk um þessi mál mæti á fyrirhugaða kynningarfundi.
Í plagginu kveður við að mörgu leyti nýjan og ferskan tón sem vert er að legga eyrun við.