Við tillum okkur upp á Kögunarhól og hugleiðum með Þorsteini Pálssyni

Af Kögunarhóli Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu (29.7.2021) er farið yfir orð og gerðir (sem reyndar fer minna fyrir) ríkisstjórnarinnar. 

Orðin hafa verið mörg og misvísandi og það sama má segja um það sem gert hefur verið, en það sem ekki hefur skort, eru uppistönd og sýningar með tilheyrandi yfirlýsingum, svo ekki sé nú gleymt frægri flugferð austur á Egilstaði.

Þorsteinn bendir á nokkur atriði í atburðarásinni sem vert er að hugleiða og minnir á að á föstudag í síðustu viku sendi ríkisstjórnin frá sér eftirarandi skilaboð:

,,1. Að ráði sóttvarnalæknis tilkynnti hún nýjar sóttvarnaaðgerðir mánuði eftir að lýst var yfir sigri á kórónuveirunni og að Ísland stæði fremst í heiminum. 

2. Fyrir miðjan ágúst yrði hún tilbúin með plan til að eyða allri óvissu og með framtíðarsýn um það hvernig við vildum hafa bólusett Ísland. 

3. Heilbrigðisráðherra sagði að ekki mætti eyðileggja samstöðu þjóðarinnar með pólitískri umræðu.

Nýmælið í þessu er fyrirheit um stóra planið með framtíðarsýn til að eyða allri óvissu eftir tvær vikur."

Í kafla greinarinnar sem ber yfirskriftina ,,Óvissuvandinn" fer Þorsteinn yfir samstöðuleysið sem blasað hefur við, þ.e. að Sjálfstæðisflokkurinn segir eitt en Vinstri grænir annað og svo vitum við að Framsóknarflokkurinn dinglar með óviss, reikull og haltur. Þorsteinn notar ekki slík orð en gefum honum orðið:

,,Helsti pólitíski óvissuvandinn hefur frá byrjun faraldursins falist í því að stærsti stjórnarflokkurinn hefur sagt eitt við kjósendur en samþykkt annað við ríkisstjórnarborðið. Fyrst voru það óbreyttir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem töluðu gegn tillögum sóttvarnalæknis. Þeir töluðu einnig gegn því að Ísland tryggði sér bóluefni á grundvelli aðildar að innri markaði Evrópusambandsins. 

Þegar að því kom að taka þurfti afstöðu til nýrra aðgerða, mánuði eftir að ríkisstjórnin hafði lýst yfir fullum sigri, sagði dómsmálaráðherra að þær væru óþarfar, en flokkurinn myndi samt samþykkja þær. Það er já, já og nei, nei pólitík af þessu tagi sem veldur óvissu og grefur undan trausti á þeim ákvörðunum, sem teknar eru. Og hún gerir að engu þá takmörkuðu möguleika á fyrirsjáanleika, sem atvinnulífið þarfnast. Hætt er við að ný skýrsla um framtíðarsýn komi að litlu haldi meðan þessi pólitík er jafn áhrifarík og raun ber vitni."

Í kafla greinarinnar sem höfundur kallar ,,Andrými" tínir hann til nokkur atriði máli sínu til stuðnings:

,,Á fimmtudagsmorgni fyrir réttri viku sagði forsætisráðherra í þessu blaði [Fréttablaðinu] að „ekki væri hægt að draga sömu aðgerðir upp úr poka.“ Hún bætti við að ríkisstjórnin og vísindamenn yrðu að fá andrými til að meta stöðuna. 

Forsætisráðherra skýrði nauðsyn á andrými með þeirri hæversku athugasemd að það fylgdi því að vera fremstur í röðinni að enginn annar hefði forskrift fyrir okkur til að fara eftir. 

Sóttvarnalæknir sá hlutina í öðru ljósi. Síðar þennan sama dag sagði hann: „Við vitum alveg hvað það er sem þarf að gera.“ 

Og til að strá salti í sárið bætti hann við: „Það er eins og menn á Íslandi telji að það sé nóg að hefta útbreiðslu hér og þá sé Covid lokið. Það er bara ekki þannig.“ 

Daginn eftir dró forsætisráðherra sömu gömlu aðgerðirnar upp úr poka austur á Egilsstöðum."

Þorsteinn dregur ekki úr því að gott sé að koma með ,,plan" og í lok greinar sinnar stillir hann upp slíku plani í fimm liðum og dregur þar með ríkisstjórnina að landi í trausti þess að hún tolli á flekanum og planið er svona:

,,1. Eyða þarf þeirri óvissu, sem já, já og nei, nei pólitíkin veldur atvinnulífi og skólum. 

2. Gera þarf Landspítalanum kleift að takast á við faraldur af þessu tagi til lengri tíma í stað viðvarandi neyðarástands. 

3. Gefa þarf öllu atvinnulífinu skýra framtíðarsýn á möguleika til aukinnar verðmætasköpunar með stöðugum gjaldmiðli og án gjaldeyrishafta. 

4. Loka þarf fimmtíu milljarða króna gati í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. 

5. Svara þarf betur hvernig á að ná markmiðum í loftslagsmálum." 

Væri allt sem það ætti að vera, færi ríkisstjórnin að þessum ráðum, en oft er það svo að ráðlausu og ráðalausu fólki lætur ekki vel að fara að ráðum annarra. 

Því gerum við ráð fyrir að áfram verði vaðinn elgur, að Sjálfstæðisflokkurinn horfi í vestur, suður, austur og norður, þ.e. rangsælis, meðan Vinstri græn horfa upp og niður og Framsóknarflokkurinn ýmist til hægri eða vinstri.

Þjóðin fylgist síðan furðu lostin með ráðaleysinu.

Kolefnisbindingin og ,,lauman" í lögunum.

 

Í Bændablaðinu er grein eftir Önnu Guðrúnu Þórhallsdóttur prófessors við Háskólann á Hólum.

Anna fer yfir og lýsir hvernig kolefni bindst í grasi og rótum þess og segir: ,,Það sem er sérstakt við grös og skyldar plöntur er að þær þróuðust samhliða sérhæfðum grasbítum, eins og jórturdýrunum, aðlöguð beitinni og þrífast betur með beitardýrum en án."

Hún útskýrir hvernig grös og skyldar plöntur þróuðust samhliða grasbítunum og segir að grösin þrífist ,,betur með beitardýrum en án". ástæðuna telur hún vera að rótarkerfi grasplantna sé þeirrar gerðar að þau hafi gott af beitinni.

Hvort að beita skuli hóflega eða ekki kemur ekki fram í greininni, en gera má ráð fyrir að það sé það sem Anna gengur út frá. 

Almennt veit bændafólk að beit þarf að vera innan skynsamlegra marka og er fylgst með því að svo sé af Matvælastofnun. 

Það nær samt ekki til hálendisbeitar svo séð verði og eins og flestir vita er víða pottur brotinn varðandi beitarálags sauðfjár á hálendi landsins.

Grein Önnu er fróðleg og gott innlegg inn í þá umræðu sem er um meðferð lands sem notað er til beitar. 

Annar flötur á þessu máli er beitarstjórnun og ábyrgð búfjáreigenda hvað hana varðar. 

Grein Kristínar Magnúsdóttur.

Í því Bændablaði sem birtist okkur 22. júlí er nær heilsíðugrein eftir Kristínu Magnúsdóttur lögfræðing, þar sem segir frá því hvernig klásúlu var laumað inn í lög til að fría bændur ábyrgð á búfjárhaldi, einkum sauðkinda.

Frásögnin er ótrúleg en virðist vera sönn og greinir frá því að allir eigendur jarða eru skyldugir til að smala lönd sín og koma fénaði sem þeir finna til eigenda fénaðarins!


Dísil, bensín og rafmagn


Algeng viðvörun á eldsneytisinntaki dísilbíla.

Stefnan í baráttunni við loftslagsvána er tekin fyrir í grein sem birtist í vefritinu ,,Kjarninn" undir yfirskriftinni ,,Getur Ísland keyrt sig út úr loftslagsvandanum?"

Stefnan hefur verið mótuð þannig af íslenskum stjórnvöldum, að því er líkast sem ætlunin sé að finna þjóðinni leið til að aka út úr vandanum á fölskyldubílnum og svo er að sjá sem litið hafi verið framhjá þeirri mengun sem stafar af flutningabílum sem aka um þjóðvegi landsins. 

Í því efni er mönnum nokkur vorkunn, því ekki hefur enn komið fram lausn á því hvernig leysa megi af hólmi hefðbundnar díslilvélar í þeim ökutækjum. Til þess standa þó vonir að lausnin finnist og ef eitthvað er að marka fréttir sem eru að berast styttist í þá lausn. 

Að ætla almenningi, að vinna á loftslagsvandanum með því að skipta yfir í rafmagnsbíla er alls ekki sú töfralausn sem af er látið. Rafgeymarnir eru þungir og léttast ekki þó af þeim eyðist raforkan og bílarnir valda auknu álagi á vegina vegna þess að þeir eru þyngri og að þeir léttast ekki við að eyða orkunni. 

Rafbílarnir eru því ekki töfralausn í baráttunni við vandann og aðrar leiðir eru betri eins og bent er á í greininni sem hér var vísað til í upphafi.

Stefnan hefur verið að niðurgreiða rafknúna bíla og það hvort sem þeir eru rafknúnir að litlum hluta eða að öllu leyti. Tengiltvinn bílar komast ekki nema nokkra tugi kílómetra á rafgeymunum og eftir að þeir eru tæmdir tekur við hefðbundinn bensínhreyfill; duga einungis sem rafknúnir bílar í stutt snatt, þar sem farnar eru stuttar vegalengdir. 

Bifreiðar sem eru búnar þessum búnaði eru samt niðurgreiddar svo sem um sé að ræða raunverulega rafbíla!

Þá er ónefndur annar flötur á þessu máli, en það er sú hliðin sem snýr að almenningi, þ.e. að skattar skuli vera lækkaðir á rafmagnsbílunum, sem veldur því að eftir sitja hinir tekjulágu með brunahreyflabílana. Slíkir bílar eru í endursölu orðnir minna eftirsóttir og seljast því á lægra verði en áður var.

Og ekki nóg með það, því til stendur - komist hugmyndir og draumar núverandi samgönguráðherra í framkvæmd - að innheimta vegtolla vítt og breitt um landið, en þó sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. 

Þar birtist reyndar afstaða Framsóknarflokksins til höfuðborgarsvæðisins líkt og svo oft áður hefur gerst. Þeir virðast aldrei hafa náð sátt við, að vinnufólkið, sem áður var í sveitunum, skuli hafa flutt sig ,,á mölina", úr bændaánauðinni fornu og eiga til dæmis erfitt með að skilja að til sé fólk sem kann því illa að flugvélar lendi og taki sig á loft í miðbænum í Reykjavík!

Það er augljóst að vegtollar koma þyngra niður á þeim sem minna hafa handa á milli, auk þess að þeir geta síður fjárfest í rafbílum sem þó eru seldir með skattafsláttum hinum efnameiri til hagræðis.

Raforkan til hleðslu rafbílanna er auk þess sumstaðar í boði án endurgjalds, það er að segja greidd af almenningi með opinberum gjöldum, meðan allt er gert sem unnt er til að halda uppi sem hæstu verði á díselolíu og bensíni. 

Auk þess sem dísilolíunni er spillt með íblöndun jurtaolíu unninni úr plöntum, sem ræktaðar eru í Úkraínu og flutt landleiðina til landanna við botn Eystrasalts. Þaðan er jurtaolían síðan flutt sjóleiðina til Íslands til að sulla henni saman við dieselolíu á Íslandi, sem með því á að verða vistvænni!

Við höfum það svo gott að ekki er pláss fyrir fleiri




Það er uppgangur í samfélaginu og samkvæmt því sem komið hefur fram í fréttum vantar víða fólk til starfa.

Norðurál hyggst ráðast í 15 milljarða fjárfestingu og framleiða meira.

Við höfum það frekar gott á flesta mælikvarða.

Og vegna þess hve við höfum það gott ber brýna nauðsyn til að vísa hjónum frá Sýrlandi úr landi, því við þurfum ekki svoleiðis fólk.

Ekki fólk sem komið er til að vinna, en vel gæti verið að pláss væri finnanlegt í landinu fyrir fleiri pappírspésa og pésur.

Fólk sem hefur hugsað sér að vinna með huga og höndum er ekki það sem við þurfum.

Svo tekur nú út yfir allt að konan er ófrísk og því væntanlega ekki sprautuð gegn COVIT-19 og stærsti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar, eða a.m.k. dómsmálaráðherrann sem er úr þeim flokki, hefur ekki sérstakar áhyggjur af konum í þeirri stöðu.

Hún man ekki í svipinn, að við þurfum á fólki á barnseignaraldri að halda til að halda við þjóðinni og fjölga og að gamli stofninn er orðinn tegur til að standa í svoleiðis veseni.

Því sendum við þau burt!

,,Hani, krummi, hundur, svín og endur fyrir löngu" og önnur húsdýr og menn!

Mynd úr einkasafni.

Fjörleg umræða fór af stað á umræðuvef á Facebook og þar sýndist sitt hverjum um eldi húsdýra.

Einnig var hænsnahald í búrum rætt á þeim þræði og kom það ritara á óvart, þar sem hann vissi ekki betur en hænsnahald á þann hátt væri aflagt.

Undirritaður þekkti vel til á hænsnabúi fyrir nokkrum árum þar sem hænurnar voru hafðar í búrum, voru hvítar og fallegar og þess gætt að rúmt væri um þær.

Hvers vegna halda má páfafugla, finkur o.s.frv. í búrum en ekki hænur, hefur ekki verið skýrt, en trúlega má finna fyrir því rök!

Veldur hver á heldur, eins og þar stendur og hænurnar sem rætt var um á umræðuvefnum ,,Umræður um Landbúnaðarmál"(!), áttu svo sannarlega ekki verri ævi en hverjir aðrir búrfuglar; þær voru hvítar, fallegar og vel fiðraðar. Það sá undirritaður með eigin augum.

Hitt er víst, að hægt er að hafa hænur of margar í búrum og þá gegnir ekki sama máli, en allt er þetta í þátíð og því óþarft að ræða.

En einnig kom fram orðið ,,þauleldi" af einhverjum óljósum ástæðum. Lagst var í örlitla öflun upplýsinga um orðið og niðurstaðan varð heldur snauð og ekki með öllu ljóst hver meiningin gæti verið.

Er þar átt við eldi gripa þannig að þeim sé ofgert? Ef svo er, er þá ekki nær að tala um ofeldi?
Niðurstaðan varð:

Að búa skuli landbúnaðardýrum svo gott atlæti sem unnt er og það að ala þau til góðra afurða geta varla talist slæmir búskaparhættir.
_ _ _

Að búið sé til orð um fóðrun húsdýra, orð sem í raun þýðir ekki neitt þegar að er gáð, er mál sem þarfnast nánari skoðunar; hvaðan það kemur, frá hverjum og hver er tilgangurinn með smíðinni.

Orðið ,,eldi" er flestum kunnugt, sem að landbúnaði koma. Eldi fylgir því að halda húsdýr og ætti það ekki að koma á óvart.
Þaula merkir t.d. rækilega og því liggur beint við að reikna með að átt sé við rækilegt eldi, eldi til þaula, að ystu mörkum, en getur einnig þýtt mjög vel: og þar af leiðandi gott eldi!

Það er nokkuð ljóst, að þeir sem tóku upp þetta orð vildu búa til neikvætt orð yfir gott eldi á húsdýrum, en mögulegt er einnig að þeir hafi ætlað sér að búa til orð yfir eldi húsdýra sem fer yfir eðlileg mörk, en hafi sést yfir að slíkt orð er til og hefur verið notað lengi, þ.e. orðið ,,ofeldi".

Vont eldi húsdýra er að ala dýrin illa og hefur verið notast vandræðalítið við orðið vanfóðrun ef um það er að ræða. Vanfóðrun að öllu eða einhverju leiti. Vont eldi er líka að gefa þeim verulega umfram eðlilegar þarfir og þekkt dæmi þar um er t.d. ítroðsla á fóðri í gæsir til að búa til stóra gæsalifur.

Við erum ekki á þeim slóðum í íslenskum landbúnaði!

Þar er frekar um að ræða að upp komi mál þar sem vanfóðrun og vanhirða er til staðar og mjög oft er þar um mannlegan harmleik að ræða. Einnig eru til dæmi um að menn hafa ekki sinnt smölun sauðfjár að hausti, sem leitt hefur til útigangs og vanhirðu.

Þeir sem engjast af áhyggjum um að einhverstaðar og einhverntíma geti ef til vill og kannski verið um að ræða ofeldi húsdýra, ættu að kalla hlutina réttu nafni.

Ofeldi er til að mynda of algengt á gæludýrum, s.s. hundum og köttum og í einstaka tilfellum hestum, svo ekki sé nú minnst á menn! En það er fyrir utan þessa umræðu.
Vilji menn kalla þetta ,,þauleldi" þá er það um að segja:
Að hver verður að hafa sinn smekk og haga málfari sínu eftir því sem viðkomandi telur vera við hæfi!

Hræðsluáróður skaðar og tækifærin bíða




Þorsteinn Pálsson skrifar grein í Fréttablaðið í dag (15.7.2021) og tekur fyrir áróðurinn um að náið samstarf við ESB skaði Ísland. Vitanlega er engin hætta á því eins og bæði dæmi og reynsla sýna og Þorsteinn fer yfir það í nokkrum liðum.

Eftir að hafa farið yfir hvernig málflutningur getur verið í pólitík, þar sem hræðsluáróður og öfgar eru stundum notaðir til að hræða fólk frá að styðja annars góðan málstað fer hann yfir nokkur fleiri atriði og bendir á  að inngangan í NATO mætti andstöðu og að sama mátti segja um Fríverlunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið. 

Eftir er að ganga í Evrópusambandið og Þorsteinn bendir á að nú er beitt sömu röksemdaaðferðum gegn inngöngu í ESB og beitt var gegn NATO aðildinni. Undirrituðum finnst þar dálítið ólíku saman að jafna, því aðild að ESB snýst um þjóðarhagsmuni sem liggja ljósir fyrir á sviði viðskipta og efnahagsmála m.m., en aðildin að NATO snýst um aðild að hernaðarbandalagi sem er vissulega að mestu ætlað til að tryggja frið í heiminum, en sagan sýnir að helsta aflið í því bandalagi hefur staðið í ófriði, með mismunandi löngum hléum, vítt um veröldina og er svo blóðugt orðið að torvelt verður þar við að bæta. 

Þorsteinn fer síðan yfir eftirfarandi staðreyndir:

,,Fullveldið glatast. Þetta var og er algengasta staðhæfingin.
Reynslan af aðildinni að Atlantshafsbandalaginu sýnir hins vegar að hún hefur styrkt pólitískt fullveldi landsins.
Reynslan af þátttöku í Fríverslunarsamtökum Evrópu og síðar aðildinni að innri markaði Evrópusambandsins, sem nú er kjarni Evrópusamstarfsins, hefur með ótvíræðum hætti eflt efnahagslegt sjálfstæði landsins og um leið fullveldi þess."

Og heldur áfram:

,,Þá er fullyrt að með fullri aðild fyllist Íslandsmið af erlendum fiskiskipum. Það er röng fullyrðing.
Raunveruleikinn er sá að sameiginleg fiskveiðistefna Evrópusambandsins byggir á  reglu um svonefndan hlutfallslegan stöðugleika. Það þýðir að engin þjóð fær rétt til veiða nema unnt sé að sýna fram á veiðireynslu á næst liðnum áratugum.  
Engin þjóð hefur slíka veiðireynslu. Íslandsmið verða því áfram aðeins fyrir íslensk fiskiskip. Og sérhver aðildarþjóð setur sínar eigin stjórnunarreglur. Ekki þarf því að breyta fiskveiðilöggjöfinni vegna aðildar."

Þorsteinn víkur síðan að því sem er ein háværasta bábyljan:

,,Því er haldið fram að landbúnaður og atvinna í sveitum hverfi með fullri aðild. Rétt er að full aðild yrði trúlega mest krefjandi fyrir landbúnaðinn.
En getur íslenskur landbúnaður komist hjá krefjandi aðlögun að nýjum aðstæðum? 
Umræðuskjalið um nýja landbúnaðarstefnu, sem landbúnaðarráðherra kynnti á dögunum, sýnir að róttækar breytingar eru óumflýjanlegar hvort heldur Ísland fengi fulla aðild eða ekki. Aukin alþjóðleg samvinna er reyndar eitt af nýmælunum í því skjali.
Færa má gild rök fyrir því að aðlögun sveitanna að nýjum aðstæðum og kröfum yrði léttari innan sambandsins en utan. Ástæðan er fyrst og fremst mjög öflugt stuðningskerfi við breytingar af því tagi, bæði byggðaþróun og nýsköpun atvinnuhátta." 

Þá tekur hann fyrir óttann og vannýttu tækifærin og bendir á að:

,,Til þess að Ísland geti vaxið út úr kreppunni þarf fyrst og fremst stöðugan gjaldmiðil. Opna þarf fleiri tækifæri á erlendum mörkuðum fyrir unnar sjávarafurðir og nýsköpun í þekkingariðnaði. Viðspyrna ferðaþjónustunnar er líka fólgin í þessu."
Við höfum alltaf stigið ný skref í fjölþjóðasamvinnu þegar verkefnið hefur verið að vaxa út úr efnahagslegum kreppum eða lægðum.
Ein mesta hættan, sem við stöndum andspænis, er sú að hræðsluáróður byggður á fölskum forsendum komi í veg fyrir að við getum nýtt vaxtarmöguleikana eins og best verður á kosið."

Þá segir hann frá því að utanríkisráðherra hafi látið vinna skýrslu um ávinninginn af aðildinna að ESB og bendir að ný ríkisstjórn gæti látið vinna ,,heildstætt mat" á möguleikum Íslands á innri markaði Evrópusambandsins og gæti síðan leitt þjóðina til nýrra tíma.

Þorsteinn segir síðan orðrétt:
,,Þannig má leysa hræðslupólitíkina af hólmi og opna málefnalega umræðu um ný tækifæri til verðmætasköpunar og aukins athafnafrelsis."

Við sem viljum sjá Ísland sem þjóð meðal annarra Evrópuþjóða erum ekki mjög bjartsýn á að af því verði, til þess er framsóknarmennskan enn of ríktt gróinn í þjóðarsálina.

Hugleiðingar um hugleiðingu, eða þegar hugurinn virkar ekki í lesanda?

 


Vilhjálmur Bjarnason færir hugleiðingar sínar í letur í Morgunblaðinu 16/7/2021 og kemst m.a. svo að orði:

,,Birtingarmynd efnahagsvanda á Íslandi hefur ávallt verið sú sama. Aflabrestur og óábyrgar nafnlaunahækkanir með verðbólgu í kjölfarið leiddi til þess að greiðslujöfnuður við útlönd hrundi. Afleiðingin varð verulegur halli á utanríkisviðskiptum, innflutningur vöru og þjónustu fór langt fram úr útflutningi vöru og þjónustu. Gengisfall krónunnar fylgdi. Efnahagsvandi fyrri alda var fjárfellir, sem leiddi til mannfækkunar af hallærum. Nú skiptir sauðkindin ekki máli enda er sauðfjárbúskapur sem næst 0% af landsframleiðslu."

Ekki munum við eftir fyrri öldum en höfum kannski um þær lesið og ef að er gáð munu það frekar hafa verið manndrápspestir sem leiddu til fækkunar íbúa landsins, eða svo segir í ritinu ,,Af hverju strái". En ætli síðasta setningin í þessari tilvitnun láti ekki nærri, nema að hugsanlega er um mínustölu að ræða og þeir sem við greinina starfa nánast bótaþegar í iðju sinni, en ekki iðjuleysi. Og rifjast þá upp sagan af sauðfjárbóndanum sem reif sig uppúr og niðurúr í fermingarveislu yfir fjárútlátum ríkisins til öryrkja, en var svarað fullum hálsi af einum slíkum, sem var með tölurnar sem í búgreinina renna úr ríkissjóði handbærar og þuldi þær yfir búandkarli sem minnkaði í réttu hlutfalli við það sem upp var þulið og fram talið.

,,Af hverju er ekki allt komið fjandans til og út fyrir siðmenningu?" heitir grein Vilhjálms og ekki vitum við svör við því en munum eftir að hafa heyrt af svokölluðu tregðulögmáli sem mun geta ráðið miklu. Eftir að hafa farið yfir greiðsluvanda, gengisfellingar og fleira í þeim dúr snýr höfundur sér að stöðu ríkissjóðs hjá Seðlabanka og vandast nú málið fyrir okkur sem ekki erum viðskiptafróð. Hið helga vé í Svörtuloftum hefur okkur verið sem ónáttúrulegt ónáttúruvætti sem ýmist getur prentað peninga úr engu og á ekkert, eða látið þá gufa snarleg upp og hverfa ef stjórnendum sýnist svo. Á þessar sviftingar eru síðan reiknaðir vextir og vextir ofan á þá, einföldum almúganum til að greiða ef afgangur skyldi verða af launum eftir kaup á nauðþurftum og jafnvel þó ekkert sér til eftir þau kaup.
Spurningunni getum við sem sagt ekki svarað!
Vilhjálmur endar þennan þátt hugleiðinganna á eftirfarandi:
,,Eftir fall íslensku bankanna 2008 kom upp undarleg staða. Þrotabú hinna erlendu banka áttu gífurlegar eignir í samanburði við íslenska landsframleiðslu. Þessar eignir samanstóðu af: - erlendum eignum utan íslenskrar lögsögu, sem höfðu engin áhrif á íslenskan greiðslujöfnuð - innlendum eignum, meðal annars kröfum á íslenska ríkið - eignarhlutum í þeim bönkum, sem tóku yfir innlenda starfsemi hinna föllnu banka. Hinar erlendu eignir voru í lítilli ávöxtun á erlendum bankareikningum eða erlendum verðbréfasjóðum. Slíkt var kröfuhöfum lítt að skapi.
Og nú snýst allt í hringi í höfði hins fáfróða lesanda!

Næsti millikafli ber yfirskriftina: ,,Óleysanlegur vandi" og miðað við það sem áður er fram komið skiljum við það og áttum ekki von á öðru!

Í lokin fer Vilhjálmur yfir ,,lausina" og klikkir síðan út með að ,,Íslendingar eru lögflóknir" og þá erum við með á nótunum, því lögflóknir erum við og höfum ætíð verið.
Því verður ekki mótmælt! 

Farið út að borða



Ég fékk eitt sinn boðsmiða frá fyrirtæki sem hljóðaði upp á kjöt- kvöldmáltíð á veitingastað ekki mjög fjarri. Þar sem við hjónin, höfðum af vissu tilefni, farið út að borða nokkrum vikum áður og fengið okkur lambakjöt sem olli vonbrigðum, þá hugsuðum við okkur að reyna við nautakjöt þegar við nýttum okkur tilboðið frá fyrirtækinu.

Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir við borð á veitingastaðnum kom í ljós að tilboðið reyndist vera í einhverskonar samtvinnun við markaðsstofuna Icelandic Lamb (sem var með áberandi auglýsingaskilti á staðnum) og gilti tilboðið eingöngu fyrir lambakjöt.

Við spurðum hvort ekki væri hægt að velja nautakjöt og svo reyndist vera, þó með því skilyrði að við borguðum 2000,- krónur til viðbótar fyrir máltíðina, sem við gerðum til að ekki yrði um bíltúrinn einan að ræða.

Niðurstaðan var ágætismáltíð með ljúfu kjöti, en ekki vonbrigðamáltíð eins og sú með lambakjötinu sem bæði var seigt og leitt; sem veitingamaðurinn hefur samt ekki getað neitt að gert, því það var hvorki ofsteikt né vansteikt.

Eftir situr reynslan og óbragðið af því hvernig hið opinbera beitir ótrúlegustu brögðum til að koma framleiðslu sinni í verð og skaða aðra bændur, því óhætt er að segja að þessi kjötframleiðsla sé að stórum hluta rekin af ríkinu og að sitjandi landbúnaðarráðherra hverju sínni, sé í raun umboðsmaður þjóðarinnar sem stærsti kjötframleiðandi landsins, sem auk þess situr í þeirri einstöku stöðu, að þurfa ekki að taka neina ábyrgð á því hvort markaður er til innanlands eða utanlands fyrir kjötið.

Ef markaður finnst ekki er einfaldlega borgað meira með framleiðslunni úr ríkissjóði og ekki nóg með það: rekin er sérstök stofnun til að koma framleiðslunni í verð innanlands sem utan og heitir sú stofnun ,,Icelandic Lamb". 


Tækni og raungreinamenntun?

 

Sú var tíð að íslenska þjóðin var stolt af því afreki sínu að hafa ná að byggja húsnæði yfir menntun skipstjórnarmanna og vélstjóra.

Á mbl.is er grein um tækni og raungreinamenntun og þar kemur m.a. fram:

,,Íslensk stjórnvöld hafa vissulega tekið vísindi, tækni og nýsköpun til umfjöllunar. Nefna má að vís­inda- og tækni­stefna 2020-2022 ger­ir ráð fyr­ir stór­efldri ný­sköp­un og hag­nýt­ingu tækni en ekki hef­ur verið metið hver þörf­in er fyr­ir verk­fræði- eða tækni­menntað fólk til að stefn­an nái fram að ganga. Á meðan það er ekki gert ber stefn­an keim af ósk­hyggju frem­ur en raun­veru­legu mark­miði sem unnið er mark­visst að."

Það er áhugavert að sjá umfjöllun sem þessa á þessum miðli, þegar haft er í huga hvernig afstaða Sjálfstæðisflokksins til náms á tæknisviði hefur verið.

Muna má þegar til stóð að ryðja Vélskóla Íslands úr Sjómannaskólahúsinu og koma fyrir í kytru upp á Ártúnshöfða. 

Það hafðist ekki í gegn, en betur gekk að gefa skólana  (Stýrimannaskólann og Vélskólann) til samtaka í útgerð og fraktsiglingum - sem nú orðið eru runnar saman að hluta í sama pott - og verið er að úthýsa Vélskólanum til Hafnarfjarðar.

Ætli Stýrimannaskólanum verði ekki komið fyrir á Hvanneyri eða Klaustri og Sjómannaskólanum breytt í enn eitt hótelið?

Þjóðin sem ekki vill horfast í augu við hver hún er, hvaðan hún er komin og hvers vegna hún er svo vel sett sem hún er núna, verður að þessu loknu búin að koma hlutunum svo fyrir; að allir verði kerfiskátir og jarma hver upp í annan á tyllidögum, svo sem þegar það þykir við hæfi að ráðherra Framsóknarflokksins haldi ræðu á sjómannadegi.

Dagur er risinn

 

Íhaldssemi íhaldsins í Reykjavík tekur á sig sérkennilega mynd.

Vanafestan er slík, að þegar þeim berst til eyrna að til standi að flytja þekkta hjálpartækjaverslun úr stað og nota húsnæðið fyrir annað er rekið upp ramakvein og allt fundið hugmyndinni til foráttu.

Myndin er tekin af Fésbókarsíðu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og mun sýna staðinn sem fulltrúar þess flokks og Miðflokksins koma til með að sakna í núverandi mynd.

Rétt er að minna á að verslanir af þessu tagi munu vera víðar um höfuðborgarsvæðið, þannig að hin íhaldssömu ættu að geta leitað sér hjálpar í þeim hjálpartækjaverslunum, ef og þegar þau þurfa á því að halda.

Þá má einnig benda á að engin sérstök borgarprýði hefur verið að umræddri húsaþyrpingu, þannig að gera má ráð fyrir að jafnvel hinir hjálparlausu íhaldsmenn, muni að lokum sjá ljósið, líkt og fór í braggamálinu og muni hitna af gleði í hvert sinn er þeir eiga leið framhjá leikskólanum sem þar verður þá kominn fullur af glaðværum börnum, að læra á lífið.

Leikskólar dagsins í dag eru nefnilega alls ólíkir þeim geymslustöðvum sem reknar voru á þeirri íhaldstíð sem við sem komin erum yfir sjötugt munum og kynntumst.

Það hefur undirritaður séð þegar hann hefur heimsótt stofnanir af því tagi til að sækja barnabörn, eða verið boðinn í heimsókn:

Gleði hlýja og notalegheit í stað formfestu, stífni og kulda.

Upp er risinn nýr dagur með birtu og yl! Fögnum því!

Bolli Sigurhansson og Björk Dagnýsdóttir - minning

Bolli og Björk ásamt vinafólki á Kili sumarið 1998. 

Tímann hafa sumir hugsað sér sem línu sem ætti sér upphaf í óendanlegri fortíð og stefndi til óendanlegrar framtíðar. Steinn Steinarr orti um tímann:

Tíminn er eins og vatnið,
og vatnið er kalt og djúpt
eins og vitund mín sjálfs.

Og tíminn er eins og mynd,
sem er máluð af vatninu
og mér til hálfs.

Og tíminn og vatnið
renna veglaust til þurrðar
inn í vitund mín sjálfs.

  Þau Bolli og Björk voru ekki bundin við tímann á þann hátt sem flestir eru. Hjá þeim var hann ekki hin knappa mælieining sem hrjáir svo marga í samfélagi nútímans. Þau áttu ævinlega nægan tíma, að minnsta kosti fyrir aðra, en hvernig fólk voru þau?

  Því er ekki hægt að svara í einni stuttri setningu og víst er að sitt sýnist hverjum þar um eins og gengur, en fyrir um það bil 20 árum var ég kynntur fyrir þeim. Bolli var þá eins og svo oft að skipuleggja, og í þetta sinn var hann að vinna að hestaferð norður um Kjöl á fyrirhugað Landsmót hestamanna. Ferð sem varð undanfari að stofnun Hestaferðafélagsins sem Bolli varð síðar heiðursfélagi í.

  Þegar ég kom sem gestur á heimili þeirra hjóna kynntist ég einstakri gestrisni eins og svo margir höfðu áður gert. Það var ekki eins og ókunnur maður væri kominn í heimsókn heldur einhver sem margoft hefði til þeirra komið.

  Þannig voru þau. Heimili þeirra var opið og þeir sem þar komu voru boðnir velkomnir frá fyrstu stundu. Eðlileg, notaleg og frjáls og ekki var spurt um stétt eða stöðu. Allir voru jafnir í þeirra augum. Enda var lífsskoðunin sú að enginn væri öðrum æðri.

  Bolli var maður sem ekkert aumt mátti sjá og það átti einnig við um Björk. Þau stóðu saman í því sem öðru, þó verkaskiptingin á heimilinu væri skýr.

  Bolli var maðurinn sem taldi bæði sjálfsagt og eðlilegt að liðka fyrir því að undirritaður kæmist í fyrirhugaða hestaferð ásamt dóttur, þó seint væru kynnt til sögunnar. Hann var maðurinn sem skipulagði ferðina í þaula, skipti henni upp í áfanga, pantaði gististaði og sá til þess að allur nauðsynlegur búnaður yrði til staðar.

  Hann taldi ekki eftir sér þegar hann vaknaði upp um miðja nótt í öðrum áfanga umræddrar ferðar, að læðast út þegar aðrir sváfu og aka 70 kílómetra til að sækja hlut sem hann mundi eftir að gleymst hafði daginn áður og var síðan mættur manna fyrstur í morgunkaffið.

  Hann var maðurinn sem fann upp á því að senda hesta sína í aðra ferð átta árum seinna og fela þá í umsjá ungrar konu sem hann vissi að langaði til að fara, en hafði ekki hesta né fé til að geta farið. Það var nefnilega svo nauðsynlegt að hreifa hestana, að það var sjálfsagt að hann greiddi kostnað hennar af ferðinni ef hún vildi vera svo góð að liðka fyrir hann hrossin og nota þau til ferðarinnar.

  Seinna þegar bróðir fyrrnefndrar konu tók upp á því að brasa við að koma sér upp smiðju, þá linnti Bolli ekki látum  fyrr en hann var búinn að finna í fórum sínum loftljós til að lýsa upp fyrirhugað smiðjuhús. Ljósin voru náttúrulega eitthvað sem Bolli þurfti alveg nauðsynlega að losna við og það væri bara greiði við hann, ef hinn ungi maður vildi vera svo góður að nýta sér þau!

 Hér eru aðeins nefnd  örfá dæmi um hvernig Bolli Sigurhansson brást við ef hann sá einhverja leið til að gera öðrum gott og hjálpa. Hann var einnig margfróður, vel lesinn og upplýstur maður sem gaman og fróðlegt var að ræða við. Þau Björk höfðu ferðast mikið um landið sitt og einnig þau höfðu farið til fjarlægra landa svo sem Japan og Indlands og margra fleiri.

  „Hún Björk mín grét nú dálítið í Delhi”, sagði Bolli við mig þegar ég sagði honum að við hjónin værum á leið þangað og ástæðan fyrir þeim tárum var vitanlega eymd hinna snauðu sem Björk fann svo mikið til með.

  Þannig voru þau, manneskjur sem fundu til með öðrum og vildu láta gott af sér leiða. Manneskjur sem gott var að þekkja og gott að eiga að.

  Ég er þakklátur fyrir að hafa átt þess kost að kynnast þeim, það var bæði gott og ekki síður skemmtilegt. Með þeim eru horfnir af sviðinu fulltrúar kynslóðar sem óðum er að hverfa. Kynslóðar sem mörgu kom til leiðar og lagði mikið af mörkum til að gera íslenskt samfélag að því sem það er í dag, en vel að merkja, átti engan þátt í að koma því í þau vandræði sem það er í núna.

Bolli Sigurhansson var fæddur 21. desember 1928 og lést 3. janúar 2010.Björk Dagnýsdóttir var fædd 8. júlí 1930 og  lést 5. maí 2008.

  Ég votta aðstandendum og vinum alla mína samúð, en eftir lifir minningin um gott fólk.

Myndin sýnir lömb í fóðurkálsfitun í aðdraganda sláturtíðar.

Facebook rifjaði upp ágæta færslu Egils Gautasonar sem ég las á sínum tíma og varð til þess að ég náði mér í eintak af bókinni ,,Af hverju strái" og eftir að hafa náð mér í eintakið af bókinni sá ég að umsögn Egils Gautasonar var í öllum aðalatriðum rétt.

Niðurstaðan er, að það hafi ekki verið ofbeit fyrri alda sem olli gróðureyðingu heldur seinni tíma búskaparhættir, sem keyrðu um þverbak á seinni tíma síðustu aldar og minnistætt er mér þegar stjórnmálamaður sem ég hélt upp á, hélt því fram á framboðsfundi á Flúðum, að sjálfsagt væri að auka meðgjöf til sauðfjárbúskapar um jafnvirði þess, sem mér reiknaðist til eftir að heim var komið, að nema myndi öllu brúttóverðmæti Suðurlandssíldarinnar.

Um haustið er ég var vélstjóri á Jökulfelli, frystiskipi Skipadeildar SÍS, varð ég vitni að því að fullfermi af lambakjöti sem ekki var búið að frysta til fulls var hrúgað í lestir skipsins eftir slátrun þar til ekki komst meira fyrir.

Til að reyna að bjarga málunum voru frystikerfi skipsins keyrð á fullum afköstum milli lestunarhafna innanlands og síðan alla siglinguna til erlendra hafna í þeirri von að tækist að koma upp frosti í skrokkana, því allt var þetta í heilum skrokkum.

Skrokkarnir voru síðan tíndir úr lestinni og hífðir upp á bryggju m.a. í Osló og þóttu augljóslega einhvers virði, því menn voru m.a. staðnir að því að rífa heilu lærin af þeim og troða inn á sig og hlaupa síðan með í land!

Atkvæði íslenskra bænda þóttu svo mikils virði að sjálfsagt þótti að stunda þessa iðju og svo er enn, þó í breyttu formi sé, því nú dandalast lambakjötið heimsenda milli í frystigámum á kostnað íslenskra skattgreiðenda, svo sem alþjóð veit.

Færsla Egils er hér fyrir neðan:

,,Nýverið lauk ég lestri á fróðlegri bók Árna Daníels Júlíussonar, „Af hverju strái“, sem birtir aðra sýn á íslenska landbúnaðarsögu en hefur verið viðtekin hingað til. Helsta kenning bókarinnar er að það hafi ekki verið jarðvegseyðing og skortur á möguleikum til landbúnaðar sem héldu aftur af framþróun, fólksfjölgun og þéttbýlismyndum gegnum aldirnar, heldur hafi það einkum verið fámenni.
Árni fer yfir heimildir frá miðöldum um landbúnað og fólkfsjölda og kemst að þeirri niðustöðu að mikil fjölgun hafi verið á Íslandi fram að plágunni miklu 1402-1404. Fólksfjöldi hafi jafnvel verið 100.000 manns um 1400, kornrækt hafi þá verið mikið stunduð sunnan- og vestanlands, og stétt fiskimanna hafi verið farin að myndast. Nautgriparækt hafi verið mikilvægasta grein búfjárræktar, en sauðfjárrækt síður mikilvæg, túnrækt og beitarstjórn hafi verið vönduð til að viðhalda hárri framleiðni á hverja flatareiningu ræktunar- og beitilands. Meðal annars voru hlaðnir garðar þvers og kruss til að stýra beit.
Þó að uppblástur og hnignun jarðvegs hafi verið hafin, þá hafi hún ekki sett skorður við möguleikum til landbúnaðar, þar sem landbúnaður byggði að miklu leyti á tún- og kornrækt, en minna á hagabeit til fjalla, líkt og síðar varð. Í kjölfar Plágunnar miklu 1402-1404, og Plágunnar síðari 1494, hafi landsmenn síðan verið svo fáir sem 20.000. Fyrir þessu hefur Árni heimildir úr skjölum frá miðöldum.
Í kjölfar þessara hörmunga dró úr landhnignun, skógar jukust að flatarmáli og töluverð sjálfgræðsla varð. En þegar fólk var orðið færra í stóru landi dró úr kornrækt, túnrækt og nautgriparækt, en sauðfjárrækt jókst. Ástæðan er að fyrrnefndu greinarnar krefjast meiri vinnuafls en dreifbær beitarbúskapur. Umhirða um tún varð minni, og beitarstjórn minnkaði.
Á endanum hvarf kornrækt alveg, og leiddar eru líkur að því að það hafi verið vegna þess að þægilegra var fyrir bændur að fjölga fé heldur en að stunda hina vandasömu (en þó vel mögulegu) kornrækt. Kornrækt síðustu áratuga hefur sýnt að möguleikar til kornræktar eru miklir hérlendis, þó mismunandi milli héraða. Þannig hefur aukin sauðfjárrækt verið svar við auknum landgæðum (meira land á hvern íbúa), frekar en vegna versnandi landgæða. Sauðfjárræktin var þægilegri fyrir bændur, sem lifðu við góðan kost miðað við almúgann í Evrópu, sem þreifst að stærstum hluta á korni. Íslendingar lifðu praktuglega í vellystingum og slöfruðu daglega í sig fiski, kjöti og smjöri og skoluðu niður með mjólk á meðan aðrir Evrópubúar átu varla annað en brauð.
Stórabóla 1707-1709 hafði svo svipuð áhrif og plágurnar, sauðfjárrækt jókst á kostnað nautgriparæktar. Landnýtingin varð enn dreifbærari, og ekki fyrr en á 20. öld sem túnrækt nær sér aftur á strik. Bókin fjallar ekki um sögu landbúnaðar eftir Stórubólu, en tæpt á heimildum sem geta þess að beit á hálendisafréttum hafi verið lítil á miðöldum, en jókst á 18. og 19. öld, og náði hámarki á 20. öld. Sú tegund beitarbúskapar sem við könnumst við, með göngum allt upp til jökla og réttum og réttarballi, er fjarri því að vera jafngömul landnáminu, heldur mun yngra fyrirbrigði í landbúnaðarsögu Íslands.
Það eru ákveðin atriði í bókinni sem orka tvímælis. Til dæmis segir höfundur að landið hafi ekki verið ofnýtt á grundvelli samanburðar á mögulegri uppskeru landsins miðað við gróðurhulu, og fóðurþörf búfjár. Það er þröng, og dálítið úrelt skilgreining á ofnýtingu, þar sem að búfé getur haft nóg beitiland, jafnvel þó að land sé í hraðri afturför. Land getur haldið mikilli framleiðslugetu allt fram að algjöru vistkerfishruni. En það er aukaatriði. Aðalkenning bókarinnar er að fámenni í kjölfar plága hafi verið þjóðinni mestur dragbítur gegnum aldirnar.
En það er kannski ekki rétt að segja að Ísland hafi verið ofnýtt, landbúnaðarlega séð, heldur rangnýtt. Sá beitarbúskapur, sem varð ráðandi hérlendis á seinni tímum, var þægilegur fyrir fámenna þjóð í stóru landi, en hörmulegur fyrir náttúruna þegar fram í sótti.
Þetta er afar athyglisverð bók, og ég hvet alla sem áhuga hafa á landnýtingarmálum á Íslandi að lesa hana. Það er greinilegt að rannsóknum á miðöldum fer mikið fram, og náttúruvísindamenn ættu að líta meira til nýrra rannsókna sagnfræðinga á þessu sviði."

Mynt sem er eitt í dag og minna á morgun

 Í grein í Fréttablaðinu tekur Þorsteinn Pálsson til umfjöllunar ,,partinn af programminu" og minnir á að í fyrra hafi flestir erlendir fjárfestar séð sér þann kost vænstan að yfirgefa íslenska fjármálamarkaðinn vegna vantrúar þeirra á íslensku krónunni og bendir á að mörgum hafi því þótt ánægjulegt að sjá hve vel erlendir fjárfestingasjóðir tóku í hlutafjárútboð í Íslandsbanka.

Forsætis og fjármálaráðherra virtust telja sér trú um að þetta benti til þess, að trúin á stjórn íslenskra efnahagsmála væri mikil og náttúrulega þá væntanlega á íslensku krónuna líka. Sú trú reyndist ekki meiri en svo, að þeir losuðu sig hið snarasta við bréf sem þeir höfðu keypt á útsölu og seldu með góðum hagnaði.

Þorsteinn stillir þessum farsa upp til hliðar við annan kunnan slíkan sem við munum eftir úr kvikmyndinni Stellu í orlofi. Sú saga gekk sem kunnugt er út á það að maður nokkur, sem kominn var til landsins til að leita sér aðstoðar við áfengisvandamáli lenti á röngum stað, á röngum tíma og í vitlausu húsi, svo vitnað sé í annan orðaleik.

Þorsteinn minnir á að:

,,Er­lend­ir fjár­fest­ar hafa keypt hér verð­bréf fyr­ir­tækj­a og rík­is­sjóðs í gegn­um tíð­in­a. Þeir hafa svo kom­ið og far­ið eins og vind­ur­inn.

Meir­i­hlut­i Al­þing­is held­ur því fram að það sé ó­rjúf­an­leg­ur hlut­i af full­veld­i lands­ins að Ís­lend­ing­ar, neyt­end­ur og skatt­borg­ar­ar, greið­i er­lend­um á­hætt­u­sjóð­um marg­falt hærr­i vext­i en þeir fá í heim­a­lönd­um sín­um.

Út­lend­ing­ar hafa því leng­i get­að stund­að hér mjög á­bat­a­söm vaxt­a­mun­ar­við­skipt­i og líka átt á­hætt­u­við­skipt­i með krón­un­a."

Í þessum orðum er mikill sannleikur falinn!

Það hefur verið skoðun meirihluta Alþingis að íslensk króna sé einhverskonar forsenda fyrir því að Ísland geti talist vera þjóð meðal þjóða, en niðurstaðn er allt önnur.

Krónan okkar hefur verið í frjálsu falli frá því hún var tekin upp, jafngilti danskri krónu í upphafi en í dag þarf 1970 íslenskar krónur til að kaupa eina danska að teknu tilliti til þess að skorin voru tvö núll af þeirri íslensku í örvæntingarfullri tilraun til gera hana trúverðuga.

En þetta er bara partur af prógramminu og ráðandi stjórnmálaöfl trúa því og treysta að um góðan kost fyrir þjóðina sé að ræða.

Í ríki í suðaustanverðir Afríku var hagstjórnin enn galnari, en svo virðist sem ætlun þeirra sem með málin fara og stjórna litla eyríkinu okkar, sé að við séum á þeim slóðum í hagstjórnarlegu tilliti.

Grein Þorsteins er vönduð og góð og miklu vandaðri og fróðlegri en þessi pistill og og ættu þeir sem þetta lesa að nota sér tengillinn (sem er hér í upphafi) inn á grein hans, hafi þeir ekki þegar lesið hana í Fréttablaðinu! 



Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...