Hugsum vel um nautgripina!

 

Myndin er af umfjöllun Bændablaðsins.

Athyglisverð grein er í Bændablaðinu sem kom út þann 12 ágúst síðastliðinn. Þar er sagt er frá því, að unnið sé ,,að breytingum á reglugerð um velferð nautgripa“ og að niðurstöður séu í vinnslu ,,úr samráðsgátt“.

Síðan segir að breytingarnar eigi að gera til að bæta ,,aðstöðu“ fyrir nautgripi og skýra orðalag. Þegar lesið er lengra læðist að grunur um að orðalagið eins og það er núna geti verið óskýrt og verði jafnvel enn óskýrara að breytingunum loknum.

Tekið er fram  að það var ,,Matvælastofnun sem óskaði eftir breytingunum á reglugerðinni“ og að hinar nýju tillögur séu ,,byggðar á reynslu af framkvæmd eftirlits Matvælastofnunar og [þeirra] bænda sem starfa á grundvelli reglugerðarinnar“.

Og að m.a. að sjö ára gamalli reglugerð verður breytt til að ná þessu fram: ,,Hins vegar leggur stofnunin til að að ekki sé þörf á að í […] fjósum sem ekki [eru] lausagöngufjós sé burðarstía þar sem kýrnar beri á básunum, sé þess gætt að nægilegt rými sé fyrir þær.“

Hvernig það fer saman að rými sé lítið fyrir kýrnar til að bera kálfum í básum og að básarnir séu samt nægjanlega rúmir fyrir kýrnar til að vera á, kemur ekki fram. En til útskýringar man gamall kúabóndi ekki til þess að kýrnar hafi gildnað svo um munaði rétt á meðan á burðinum stóð, vel getur samt verið að það hafi gerst án þess að eftir því hafi verið tekið!

Í greininni er svo að sjá sem eftirfarandi sé haft orðrétt eftir Matvælastofnun, þ.e.a.s. það sem er skáletrað hér að neðan:

,,Matvælastofnun metur það sem svo að ekki sé þörf á að í slíkum fjósum sem ekki séu lausagöngufjós sé burðarstía þar sem kýrnar beri á básunum, sé þess gætt að nægilegt rými sé fyrir þær. Hins vegar leggur stofnunin til að að ekki sé þörf á að í slíkum fjósum sem ekki séu lausagöngufjós sé burðarstía þar sem kýrnar beri á básunum, sé þess gætt að nægilegt rými sé fyrir þær.“

(Til skýringar: Við höldum að ,,slík fjós“ séu gömlu básafjósin, en vel getur verið að sá sem þetta ritar hafi ruglast í þessum mögnuðu skýringum.)

Síðan segir:

 „Það er lagt til í því skyni að skýra nánar hvaða fjós eru undanskilin frá þeirri skyldu að hafa burðarstíu. Í fyrri reglugerð frá árinu 2002 var krafa um burðarstíu í lausagöngufjósum. Matvælastofnun mat það svo að ekki væri ásættanlegt að lausagöngufjós byggð fyrir gildistöku þeirrar reglugerðar hafi ekki burðarstíu. Því er lagt til að öll lausagöngufjós sem byggð eru fyrir gildistöku reglugerðarinnar hafi frest til ársloka 2034 til að uppfylla skilyrði um legubása. Þetta er hugsað sem aðlögunartími fyrir eldri lausagöngufjós,“

Að lestri loknum er gott að leggjast fyrst í innhverfa íhugun og reyna síðan aftur.

Þá kemur fram, að frá ,,15. maí til 15. október ár hvert“ skuli nautgripir njóta þess að slíta gras af rót, væntanlega vegna þess, að á Matvælastofnun hafi menn komist að því að það veiti nautgripunum andlega fró sem muni endast þeim fram að næstu útigöngu.

Ýmsar fleiri nauðsynlegar ábendingar koma fram og t.d. er bent á að vistun nautgripa í gerði sé ekki sama og beit á tún og haga og tekið er fram að tryggja skuli gripunum skjól fyrir veðri og vindum. Öryggið er sem sagt haft í fyrirrúmi!

Útibeitin er samt ekki með öllu gallalaus í íslenskri náttúru og á stofnuninni hafa menn veitt því athygli.

Bændasamtök Íslands hafa að vonum ýmislegt að segja um þennan regluásetning og leggja m.a. til að miðað sé við reglur sem gilda um útigang hrossa og benda á að  líta þurfi til ,,rannsókna þegar lágmarkskröfur eru skilgreindar í reglugerðum og að horfa þurfi til ,,fóðrunar, kyns og aðstæðna frekar en tegundar skjóls eingöngu“.

Niðurstaðan er að nautgripum þyki gras sem fast er í annan endann betra en það sem búið er að verka fyrir þá.

Þá finnst þeim þ.e. nautgripunum, gott að vera úti svo fremi að veðrið sé gott og að hægt sé að komast í skjól ef veðrið er ekki gott!

Og nú vitum við hvernig nautgripir hugsa, hvað þeim þykir gott og hvað vont, en verst er að enginn hefur kennt þeim að tala og skrifa. 

Vel getur samt verið að einhver hafi komist inn í hugarheim nautgripa og hafi í framhaldinu sest niður og skrifað það sem hér er um ritað. 

Hvort það sé líklegt er svo annað mál, en við erum mun fróðari að lestri loknum.

Tölt yfir Bændablað


Bændablaðið kom út 12. ágúst og á forsíðunni sjáum við frétt af fólki sem rekur veitingastað í kúluhúsi og minnir að sama hús og sama fólk hafi verið sýnt og fjallað um í Sjónvarpi allra landsmanna fyrir nokkrum dögum.

Á forsíðunni er því líka slegið upp að verð á nautakjöti hafi hækkað til neytenda en lækkað til framleiðenda. Ástæðan mun vera aukinn innflutningur í kjölfar samninga við ESB sem sérlegur vinur íslensks landbúnaðar formaður Framsóknarflokksins hafði forgöngu um að gerður var árið 2015 og sem tók að fullu gildi 2018.

Margrét Gísladóttir tengiliður kúabænda hjá Bændasamtökunum ,,minnir á að forsvarsmenn bænda hafi ítrekað bent á alvarleg áhrif tollasamningsins við ESB á íslenska nautakjöts- og landbúnaðarframleiðslu, enda fól samningurinn í sér tæplega sjöföldun á tollkvótum fyrir innflutt nautakjöt.“

Það er gott að eiga góða að er sagt, en augljóslega er ekki gott að eiga að landbúnaðarráðherra frá Framsóknarflokknum, séu hagsmunir bænda hafðir i huga. Þetta hefur verið lengi vitað en kemur sífellt betur í ljós.

En það er sótt að bændum á fleiri vígstöðvum, því á blaðsíðu tvö er greint frá því að Pósturinn hafi hækkað verðskrá á dreifingu út um land á Bændablaðinu og væntanlega öðrum blöðum líka um 90% og styttist þá trúlega í að póstþjónusta landsins verði rekin með ásættanlegum hagnaði, en um þetta er þrasað og ekki gott að segja hvernig fer.

Á sömu baðsíðu er einnig rakin sagan endalausa um Hótel Sögu, sem orðin er að langri framhaldssögu, en hús það var í upphafi byggt m.a. fyrir peninga sem kreistir voru undan nöglum vinnulúins bændafólks, sem sumt hvert vissi varla hvað hótel var. Það var gert með lögum frá Alþingi sem þáverandi velútsprungnir bændaforingjar þess tíma fengu samþykkt undir því yfirskini að þáverandi Stéttarsamband bænda vantaði húsnæði. Þetta tveggja hektara húsferlíki er nú sem þungur gjaldþrota klafi á núverandi Bændasamtökum.

Í blaðinu er frétt um að nautgripum skuli tryggður aðgangur að sumarbeit á grasi gróið land en ekki kemur fram að nautin hafi verið spurð að því hvort þeim líki betur við gras sem fast er í annan endann, eða gras sem búið er að gera aðgengilegt með því að breyta því í hey. Við mennirnir viljum fá matinn aðgengilegan á borðið og njóta hans í huggulegheitum, lausir við íslenskt rok og rigningu, en á Matvælastofnun hafa til þess gerðir aðilar fundið það út að nautum þyki meiri nautn í því að berjast fyrir mat sínum.

Greint er frá væntanlegri 5,9% hækkun á kindakjöti á því hausti sem senn gengur í garð. Hversvegna hækkunin er ekki 6% vitum við ekki!

Spurt er í leiðara hvort ,,allt þurfi að koma frá Brussel“?, en þaðan komi í sífellu kröfur um tollfrjálsan innflutning á ,,færibandi“ og að kröfurnar ,,eigi það flestar sameiginlegt að auka framleiðslukostnað“. Matvælastofnun er ekki í Brussel heldur á Selfossi og Selfoss er ekki heldur í Brussel, svo við höfum tekið eftir, en kröfur um aukinn framleiðslukostnað á nautakjöti koma þaðan.

Spurt er í leiðaranum ,,hvort frambjóðendur muni standa með landbúnaði?“. Spurningunni er fljótsvarað, því það munu þeir gera fram að kosningum, en eftir þær breytast viðhorfin vegna ófyrirséðra hluta, mála og kringumstæðna sem ekki sáust fyrir og allir virða síðan þau sjónarmið, þó að teknu tilliti til þess að þau komi frá flokknum sem studdur var og síðan mun lífið ganga sinn gang.

Smalahundafélagið mun halda sína árlegu keppni. Smalað verður kindum í gerði að við teljum, en að hausti verður kjósendum smalað á kjörstað. Verðlaun verða veitt fyrir góða smalahunda en ekki er vitað til að verðlaun séu veitt kosningasmölum fyrir smölun, en þó er það ekki ólíklegt.

Í blaðinu er sagt frá því að von sé á borgfirskum bjór og fjölgar í sífellu tegundum þessa áður forboðna drykkjar. Við höfum leitað með logandi ljósi að óáfengum drykkjarhæfum bjór að undanförnu en ekki fundið. Leitinni er ekki hætt og tírir enn á voninni!

Grátgrein mikil er í blaðinu um hag sauðfjárbænda frá framkvæmdastjóra landssamtaka þeirra. Hann færir fram ,,rök“ fyrir því að hækka þurfi verð á kindakjöti verulega til að tryggja afkomu þeirra. Búgreinin er rekin í verktöku hjá ríkissjóði og við hann er að eiga og gera má ráð fyrir að auðsótt verði að fá úrlausn mála hvað þetta varðar sem endranær. Þar hefur verið losað um opið á pyngjunni nánast samkvæmt pöntun þegar hinir einu sönnu bændur landsins telja við þurfa og er skemmst að minnast milljarðsins sem veittur var vegna COVIT-19. Sannaðist þar hver sér um sína þegar á þarf að halda og víst er að ekki verður lát á, enda búgreinin þörf og nauðsynleg til að halda niðri óþörfum gróðri í landinu, bæði grasi og trjáplöntum samkvæmt vísindalegum rannsóknum sem greint hefur verið frá. Þá má ekki gleyma öllum þeim útlendingum sem illa þrífast ef þeir fá ekki sitt íslenska lambakjöt við vægu verði.

Á blaðsíðu 41 í blaðinu er í aðsendri grein stungið upp á að ríkið greiði sauðfjárbændum peninga fyrir að rækta skóg í stað kinda. (Greinin kemur á eftir nokkrum öðrum sem ritaðar eru, aðsendar og birtar, til að sannfæra saklaust fólk um að Miðflokkurinn muni bjarga, ekki bara Sigmundi og félögum, heldur landinu öllu, en þær nenntum við illa að lesa.) Ýmis ljón eru í vegi þessarar hugmyndar, svo sem að tré láta ekki elta sig út um fjöll og firnindi og vonlaust er að smala þeim að hausti, auk þess sem ekki er hægt að hafa af þeim tryggingatekjur hlaupi þau í veg fyrir bíla. En hugmyndin er samt góð!

Við förum nú hratt yfir sögu í lestri blaðsins en hnjótum þó um auglýsingu þar sem óskað er eftir konu til að sjá um lítið heimili í sveit. Tekið er fram að konan eigi að vera a.m.k. 60 ára gömul og mun nú vaxa hagur eldri kvenna og er það vel!

Líkur hér þessari yfirferð um merkilegt rit í íslenskri blaðaflóru með þökk fyrir fróðleikinn og skemmtunina.  


Sviðið skoðað, af Vilhjálmi



Vilhjálmur Bjarnason fyrrverandi alþingismaður ,,sem hefur lokið afskiptum af stjórnmálum", skiptir sér af stjórnmálum með öðrum hætti en áður var, þ.e.a.s. þegar hann var á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hristi þá stundum upp í kollum sem lagst höfðu í dvala.

Nú skrifar hann áhugaverðar greinar um stjórnmál og ein slík birtist í Morgunblaðinu fyrir stuttu og við grípum á lofti nokkur gullkorn. Hér er gosdrykkjakenningin:

,,Um margt líkjast stjórnmálaflokkar gosdrykkjum. Með því er átt við að í stríði Coke og Pepsi koma fram nýir coladrykkir. Nýju drykkirnir ná engri fótfestu en sala á Coke og Pepsi vex í kjölfarið."

Þá eru það flokkarnir sem fáir ef nokkrir skilja, þar sem safnast er saman um einn einstakling með óljósar hugmyndir um veröldina sem hann telur að hafi verið sköpuð fyrir hann og hans en ekki hina:

,,Eins manns flokkur [Miðflokkurinn] án málefnis, en leitar þó að „kosningamálefninu“. Í eins manns flokknum verður til „trúarhreyfing“, trú á hinn óskeikula foringja, þar sem orðaflaumurinn gusast út eins og tómatsósa, en að öðru leyti algerlega innihaldslaust blaður. Þar væla innmúraðir um að þeir hafi þekkt foringjann lengi og „hann hefur alltaf rétt fyrir sér“ , eins og vælt var á Klausturbar. Þessi foringi varð til fyrir slysni í kosningu til formanns í öðrum stjórnmálaflokki, þar sem formannshallæri hafði verið í 3 ár."

Næst grípum við á loft þá sem eru á ,, einhverju rófi", hugsanlega pí rófi og er þá illa komið fyrir hinu gríska stærðfræðitákni: 

,,Meðlimir þess flokks [Pírata] virðast flestir hverjir vera á einhverju rófi sem engir skilur, ekki einu sinni þeir sjálfir, því þar þarf að kalla til vinnustaðasálfræðing til að fundir fúnkeri, og fúnkera þó ekki."

Að lokum er það hinn eini sanni Flokkur með stórum staf og sá er afgreiddur með nokkrum texta:

,,Einn af forystumönnum Sjálfstæðisflokksins sagði eitt sinn: „Í húsi föður míns eru margar vistarverur“ og átti þá við að flokkurinn yrði að þola innri fjölbreytni. Nú er fjölbreytninni úthýst og spyrja mætti hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé að verða eins máls flokkur þar sem „hagkvæmni“ fiskveiðistjórnarkerfisins ræður för? Forysta flokksins tók þá afstöðu árið 2014, eftir að hafa lofað „þjóðaratkvæðagreiðslu“ um aðild að Evrópusambandinu, að afturkalla aðildarumsókn, sem að öðru leyti lá í svefni og skaðaði engan. Þetta leiddi til þess að stór hópur í atvinnurekendaliði Flokksins sagði skilið við Flokkinn og gekk til liðs við nýjan smáflokk! Góð leið til að minnka stjórnmálaflokk! Það er einnig góð leið til að minnka flokk að viðhalda óskiljanlegri umræðu um fullveldi á plani frá 1918! Hvernig má það vera að flokkur, sem var með 40% kjörfylgi, telur það ásættanlegt að fá 25% kjörfylgi? Vissulega varð fjármálahrun á vakt Sjálfstæðisflokksins en það var unnið úr fjármálahruninu á vakt Sjálfstæðisflokksins."

En svo er maður hættur afskiptum af stjórnmálum og getur látið ýmislegt flakka og verður hver meta fyrir sig hvort Sjálfstæðisflokkurinn fær góða einkunn eða slaka. Er hann eða var hann? Ef hann er hvert er hann þá að fara? 

Gefum Vilhjálmi orðið með þökk fyrir skemmtilega og fróðlega grein:

,,Sá er þetta ritar hefur lokið afskiptum af stjórnmálum. Því getur hann látið ýmislegt frá sér fara eftir að hafa spurt sig áleitinna spurninga. Fyrsta spurningin er sú hvort hin „lýðræðislega“ aðferð prófkjöra hafi skilað sigurstranglegum framboðslistum? Horfandi á mál utan frá og spurt þá sem ekki eru innmúraðir, segja kjósendur: Þetta fólk höfðar ekki til mín! Þetta fólk hefur enga skírskotun til mín! Þetta fólk hefur orðið til í kosningamaskínunni inni í Sjálfstæðisflokknum! Engin skírskotun til almennra kjósenda! Það kann að vera að flokkurinn verði aftur að einhverju þegar búið er að taka allt frá honum! En maður sannprófar ekki það hvers virði maður er fyrr en þegar maður hefur látið hestinn sinn!"

Um flækjustig nútíðar og spillingu fortíðar

                                                               


Á blaðsíðu 28 í Morgunblaðinu 14.8.2021 skrifar Björgvin Víglundsson verkfræðingur um kerfið sem komið hefur verið upp hér á landi til þess að tefja og gera fólki erfiðara fyrir við að koma sér upp þaki yfir höfuðið.

Snemma í grein sinni segir Björgvin: 

,,Stjórn­völd eru stöðugt að þyngja lög og reglu­gerðir í sam­ráði við hags­munaaðila sem veld­ur stöðugt aukn­um bygg­ing­ar­kostnaði ásamt því að vera allt of ströng, langt um­fram meðal­hóf þótt sé miðað við ís­lensk­ar aðstæður."

Stefnan virðist hafa verið mótuð þannig, að auka skuli svo sem unnt er veg ,,möppudýranna" á kostnað almennings, líklega til að búa sem flestum þokkalega innivinnu á góðum kjörum. 

Björgvin ber saman hvernig staðið er að þessum málum hér á landi annars vegar og í Noregi hins vegar, og greinir frá því að reglugerðir séu enn einfaldari í Svíþjóð og Danmörku:

,,Að byggja eigið hús í Nor­egi er tölu­vert ein­fald­ara en hér­lend­is, menn und­ir­rita ábyrgðar­yf­ir­lýs­ingu fá sér raf­virkja og pípu­lagn­inga­mann sem eru viður­kennd­ir. Teikn­ing­ar eru ein­fald­ar og skilað að öllu jöfnu á einu á litlu A4-blaði. Ekki er um flók­in skipu­lags­ferli að ræða eða sein­virk af­skipti op­in­berra aðila. Menn geta breytt, byggt við, sett lítið auka­hús á lóð og skipt eign­um sín­um með ein­föld­um til­kynn­ing­um."

Lestur greinarinnar vekur upp minningar!

Þegar undirritaður var að byggja, fyrst íbúðarhús og síðan gripahús og bílskúr, á áttunda áratugi síðustu aldar, var rætt við byggingafulltrúa á svæðinu, fenginn verkfræðingur til að hanna mannvirkið og málið síðan afgreitt. 

Byggingarfulltrúinn, verkfræðingurinn og undirritaður ræddu málin, komust að niðurstöðu og framkvæmdir hófust eftir að búið var að fjármagna verkið með því steinrunna, hagsmunagæslutengda, spillta og í raun gjaldþrota banka- og sjóðakerfi sem þá var.

Fyrir nú utan það að oft voru menn á bakvið tjöldin, sem kipptu í spotta til að hindra að þeir sem ekki mökkuðu rétt við hagsmunagæslusamtök, s.s. þáverandi bændasamtök, fengju úrlausn sinna mála. Jörmuðu og bauluðu í skúmaskotum kerfisins sem þá var, til að gera sem unnt var til að hindra breytingar á búskaparháttum í átt til frjálsræðis og nýrra tíma. 

Grófu undan og spilltu og ætluðust síðan til að upp um þá yrði flaðrað þegar þeir voru búnir að koma sínu fram, það er að segja þegar þeim tókst að fá sitt fram sem of oft gerðist.

Nú er aðrir tímar sem betur fer og ef til vill þurfti samfélagið á að halda spillingunni og sukkinu sem leiddi til hins svokallaða Hruns!

Hvað sem því líður er peningakerfið eitthvað skárra, ef ekki hreinlega mun betra en það sem þá var, en í staðin fyrir steingerðann og spilltann ömurleikann er kominn frumskógur af pappírsmusterum og flækjufótarreglugerðum á vegum hins opinbera, sem þar til menntaðir ,,sérfræðingar" stýra.

Var það til þess sem við fetuðum slóðina fram á veg og endurbættum kerfisflækjur fortíðarinnar, að í staðinn kæmi annað og lítt betra umsagnar-, mats-, auglýsinga og andmæla flækjustig sem stundum tekur mun lengri tíma að komast í gegnum, en að koma viðkomandi framkvæmd í endanlega mynd?

Núna er staðan sú, að of á tíðum tekur það jafnlangan tíma ef ekki meiri, að komast í gegnum kerfið sem komið hefur verið upp, að því er virðist til þess eins að tefja fyrir framgangi viðkomandi framkvæmdar, en þann tíma sem það síðan tekur að koma mannvirkinu upp.

Auglýsingar, umsagnir og kæruferli, þar sem oft er við að eiga einstaklinga sem haldnir eru sérstöðu í tilverunni er við að eiga.

Yfir þessu er síðan japlað og mumrað út og suður vikum og mánuðum ef ekki árum saman, þangað til framkvæmdaleyfi að lokum fæst. Ef það þá fæst!

Kindur bíta tré


 Í Dagskránni - Fréttablað Suðurlands frá 11.8.2021 er hægt að lesa um frumniðurstöður tilraunar sem gerð var til að sjá hvernig gengi að rækta upp skóg með sauðfjárbeit.

Eins og vænta mátti var niðurstaðan dapurleg. 

Kindurnar bíta ofan af trjánum og ekkert svæðanna slapp við skaða. 

Gott að fá þetta fram á vísindalegan hátt, en við sem reynt höfum, vissum útkomuna fyrir. Skógur verður ekki ræktaður með sauðfjárbeit og það ekki,  þó allt sé vaðandi í grasi á svæðinu. 

Annað hvort verður að girða kindurnar af svo sem gert með annan búfénað, eða fara leið framsóknar- og íhaldsmennskunnar að girða skóginn af svo kindurnar geti farið sínu fram.

Að lögum um ráf sauðfjár verði breytt er borin von og því verður að girða skóginn inni í þeirri von að hann fáist til að tolla innan girðingar og fari sé ekki að voða í umferðinni!

Tré sem hlaupa fyrir bíla fást örugglega ekki bætt úr tryggingum.

Orð dagsins á Rás 1 morguninn 11/8/2021



Ég var svo heppinn að ná því að heyra ,,Orð dagsins" á Rás 1 í morgun.

Mér finnst pistillinn svo einstaklega góður að ég ákvað að halda upp á hann svo lengi sem það er hægt.

Innihaldið snart mig og við ættum öll að hafa þessar hugleiðingar í huga. 

 

Róið í sömu átt?

 

Myndin af Sigríði Á. Andersen er fengin af visir.is


Við erum eflaust mörg sem stöndum í þeirri trú að hópar (flokkar) fólks séu stærri þegar margir koma saman og leggjast saman á árarnar og eru samtaka.

Einn þingmanna Sjálfstæðisflokksins ,,stingur á" eins og það er kallað, snýr baki í skutinn, meðan hinir snúa baki í stefnið og róa með hefðbundnum hætti.

Aftur í skutnum situr síðan formaðurinn og stýrir skútunni.

Sigríður Á. Andersen fyrrverandi dómsmálaráðherra, vandar ríkisstjórninni ekki kveðjurnar eftir því sem fram kemur í visir.is og eftirfarandi er þar eftir henni haft af Twitter:

,,„Ráð­herrarnir hafa greini­lega ekkert til málanna að leggja annað en að kynda undir ótta og kvíða lands­manna sem fréttir voru fluttar af í dag. Þjóð þarf ekki ó­vini með svona leið­toga,“" og einnig þetta:

,,„Grímu­skylda og 200 manna (200!) sam­komutal­markanir í skólum! Af hverju lætur þetta fólk svona?“" og síðan:

,,„Stöðugar fréttir síðustu vikna af hundruðum manna veikum hvern einasta dag gefa til kynna að sér­fræðingar í heil­brigðis­kerfinu ættu að vera komnir með svör um gang far­aldursins“".

Að lokum er hér síðasta tilvitnunin sem visir.is hefur eftir þingmanninum:

,,„Ég styð auð­vitað ríkis­stjórnir sem Sjálf­stæðis­flokkurinn á aðild að en mér hugnast ekki sú veg­ferð sem þessi ríkis­stjórn er á og af­staða ráð­herra Sjálf­stæðis­flokksins en Sjálf­stæðis­flokkurinn er stærri en ein­stakir ráð­herrar.“"

Hún styður ríkisstjórnina vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn á aðild að henni, líkar ekki hvert hann er að fara, en flokkurinn er svo stór að hann ,,er stærri en einstakir ráðherrar"

Hverju var gleymt?

 

Oddný Harðardóttir þingmaður og oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, skrifar pistil í Morgunblaðið (10.8.2021).

Hún bendir á að þrátt fyrir að margir veigri sér við því að tala um pólitík, þá séu margir að tala um heilbrigðiskerfið og COVIT-19 faraldurin og það ,,er pólitík", segir Oddný.

Lífið er pólitík, hvort sem fólki líkar það vel eða illa og það er pólitík að fara eftir ábendingum sóttvarnarlæknis og það er líka pólitík að gera það ekki.

Það er líka pólitík að svelta heilbrigðiskerfið og láta svo sem fjármagnið sem fer í byggingu nýs Landsspítala fari í rekstur spítalans.

Það var líka pólitísk ákvörðun einhvers og einhverntíma tekin, að láta spítalann sitja uppi með lasburða fólk sem ekki er pláss fyrir á hjúkrunarstofnunum.

Oddný bendir á að það þurfi: ,,sann­ar­lega að byggja við Land­spít­al­ann en fjár­magnið í bygg­ingu [spítalans] fer ekki í rekst­ur hans meðan á bygg­ingu stend­ur. Því hljóta ráðherr­arn­ir að hafa áttað sig á þegar þeir sömdu fjár­lög­in."

En gerðu þeir sér grein fyrir því?

Hafi þeir ekki gert það, ættu þeir ekki að falast eftir endurkjöri og sama gildir, ef þeir hafa gert sér grein fyrir stöðunni en ákveðið að leiða hana hjá sér og stungið höfðinu í sandinn, í von um að þetta myndi einhvernveginn reddast!

Ríkisstjórnin hefur verið dugleg við að halda uppistönd í fínum húsum til að tilkynna þjóðinni hvað hún ætli að gera. En það er alveg sama hve vel er staðið í lappirnar á uppistöndum.
Ef orðum fylgja ekki athafnir gerist ekki neitt.

Hugleiðingar í aðdraganda kosninga

Þorsteinn Pálsson skrifar um ,,mögulegar málamiðlanir" í Fréttablaðið í dag (5.8.2021) og horfir yfir svið stjórnmálanna af Kögunarhóli og útsýnið er eins og best getur orðið á Suðurlandi. 

,,Stundum er sagt að pólitík sé list hins mögulega", segir Þorsteinn og fer að hugleiða málin.

Hann bendir á að 88% Sjálfstæðismanna hafi löngun til að starfa áfram með Vinstri grænum eftir kosningar, en einungis 29% stuðningsmanna Vinstri grænna hafi áhuga á að sama ríkisstjórnarmynstri áfram.

Þorsteinn telur mat Sjálfstæðismanna raunsætt því þeir hafi ,,talað mjög skýrt í þá veru að þeir muni ekki undir neinum kringumstæðum fallast á málamiðlanir gagnvart Viðreisn að því er varðar gjaldmiðilsmál, tímabundinn nýtingarrétt auðlinda í þjóðareign og ný skref í Evrópusamvinnu" og bendir einnig á að Samfylkingin og Píratar hafi alfarið hafnað samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og Miðflokkinn vegna ,,málefnalegrar fjarlægðar".

Grein Þorsteins er glögg greining á stöðunni og rétt er fyrir áhugasama að lesa hana vel. Henni verður ekki fylgt lengra í þessum hugleiðingum og það sem hér fylgir eftir eru alfarið hugleiðingar ritara þessa pistils.

Trúlega er það raunsætt mat að Miðflokkurinn sé ekki álitlegur samstarfskostur eftir kosningar fyrir neinn flokk nema ef vera kynni Sjálfstæðisflokkinn, eða Framsóknarflokkinn og benda má á að Miðflokkurinn er afleggjari þess síðarnefnda og þar með þaðan sprottinn.

Vegna þessarar stöðu er eins líklegt að eftir kosningar verði það Framsóknarflokkurinn, Miðflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn sem muni mynda stjórn. Þessir flokkar eiga margt sameiginlegt, eins og að grunnt er á einangrunarstefnu, nema að hjá Framsóknar- og Sjálfstæðisflokknum felst víðsýnin í afturhaldssamri afstöðu hvað varðar atvinnumál og að utanríkisstefnan byggist á þeirri skoðun að notalegt og gjöfult sé að hjúfra sig upp að Bandaríkjunum og vera einlægir NATO meðlimir.

Miðflokkurinn er hallur undir sjónarmið sem samtökin ,,Heimssýn" tala fyrir, en þar á bæ telja menn að víðsýnin felist í þröngsýni.

Þorsteinn telur að möguleikar Sjálfstæðisflokksins til stjórnarsetu eftir kosningar felist í samstarfi við Vinstri græn, en mitt mat er að möguleikarnir séu fleiri og að eins líklegt sé að núverandi stjórnarsamstarf verði endurnýjað með því að tosa Miðflokkin inn í ríkisstjórn.

Væri það gert ynnist m.a. það, að hugsanlegt málþófsbull þingmanna þess flokks lægi niðri meðan stjórnarsamstarfið entist og ef það endist vel, gæti verið þögn á miðflokksheimilinu fram að þarnæstu kosningum.

Vilji menn ekki Miðflokkinn í ríkisstjórn, þá verða þeir að verja atkvæði sýnu eitthvað annað en til núverandi stjórnarflokka, því sjónarmið Miðflokksins og þeirra falla í mörgu saman.

Svo má náttúrulega ekki gleyma því að flokkaflóran er fjölskrúðug og finnist mönnum gaspur og loforðaglamur út í loftið spennandi, má verja atkvæðinu á Flokk fólksins eða Sósíalistaflokkinn með Gunnar Smára sem vænlegan kandidat í forsætisráðherrastólinn!

Vilji menn vera þokkalega jarðbundnir og kjósa flokka sem líklegir eru til að leiða þjóðina fram á veginn, eru kostirnir eftir starófsröð: Píratar, Samfylking og Viðreisn.

Kostirnir eru sem sagt margir og eiga eflaust eftir að verða fleiri! 

Jöfnun atkvæðisréttar í kosningum til Alþingis


 Þórunn Sveinbjarnardóttir skrifar um kosningakerfið sem í gildi er til alþingiskosninga. Kerfi sem gengur út á að sumir eru jafnari en aðrir og bendir t.d. á, að árið 1999 voru fjórum sinnum fleiri atkvæði á bakvið hvern þingmann í Reykjaneskjördæmi en í Vestfjarðakjördæmi.

Núna er munurinn milli Suðvesturskjördæmis og Norðvesturskjördæmis tveir á móti einum!

Auk þess ræður kerfið ekki við að jafna fylgi milli flokka, þannig að niðurstaðan er að ýmist hafa Framsóknarflokkurrinn og Sjálfstæðisflokkurinn verið með fleiri þingmenn en þeim ber.

Grein Þórunnar í Fréttablaðinu 4.8.2021

Þórunn bendir á að Samfylkingin berjist fyrir því að vægi atkvæða verði jafnt og að landið verði helst allt eitt kjördæmi og þar með væri þetta ójafnvægi leiðrétt.

Það er augljóst að kjósendur í lýðræðisríki eiga ekki að eyða atkvæðum sínum á flokka sem eru andvígir lýðræðinu.

Því ættu menn, ekki síst þeir sem búa í kjördæmum með skertan kosningarétt, að gæta þess að greiða ekki þeim flokkum sem styðja ójafnan atkvæðisrétt atkvæði sitt í alþingiskosningum.

Að hætta og hætta ekki samt

 Rætt er við þingmanninn Guðjón Brjánsson í Kjarnanum í viðtali sem birtist 2.8.2021.

Þar fer hann yfir það, sem að hans mati mætti betur hafa farið í starfi Samfylkingarinnar.

Það er fremur sjaldgæft að þingmenn sýni þá hreinskilni að fjalla um það sem betur hefði mátt fara í starfi flokka þeirra og trúlega enn sjaldgæfara að það sé gert í aðdraganda kosninga.

Guðjón telur að Samfylkingin þurfi að hugsa sinn gang og tínir til nokkur atriði til að styðja við þau orð. 

Atriðin sem Guðjón nefnir til sögunnar eru:

Aldraðir, öryrkjar, barnafólk og stórir þættir í heilbrigðisþjónustunni sem taka hefði þurft fastari tökum.

Orðrétt segist Guðjón þegar hann er spurður hvort Samfylkingin muni taka þessi mál föstum tökum:

„Ég vona það, ég er ekki sannfærður, en ég vona það.“

Fráfarandi þingmaður flokksins virðist ekki geta gert meira en að ,,vona" að jafnaðarmannaflokkurinn Samfylkingin taki þessi mál föstum tökum.

Sé mat Guðjóns rétt er Samfylkingin ekki í góðum málum, því hér er um grundvallarsjónarmið að ræða í flokki sem kennir sig við jafnaðarstefnu.

Guðjón nefnir atriði í viðtalinu sem varða störf Alþingis sem ekki séu í góðum farvegi að hans mati og þar ber einna hæst alræmda framkomu Miðflokksins, þegar hann hélt þinginu frá hefðbundnum störfum með málæði sem seint mun gleymast.

Eða er það ef til vill gleymt sem og aðrar ótrúlegar uppákomur þess makalausa flokks? 

Ýmislegt bendir til þess, svo sem þegar fólk sem gert hefur sig gildandi í almennri umræðu um mál sem snúa að málefnum atvinnuvega og lýðheilsu gengur til liðs við flokkinn og gerir sig þar með óvirk í umræðunni. 

Upphlaupsmál Samfylkingarinnar á Alþingi í seinni tíð hafa ekki eflt traust á flokknum. 

Þegar rokið er fram með órökstuddar kröfur um að lögð verði niður atvinnustarfsemi s.s. eldi hryssna til blóðtöku, útrýming minkabúa og þingsályktunartillaga sem undirrituð var af öllum þingmönnum flokksins um að menn einbeita sér að jurtaáti, sýnir það ekki flokk sem er í yfirvegaðri stjórnmálabaráttu. 

Að þessu sögðu er rétt að taka það fram að íslensk stjórnmál án virks, víðsýns og öflugs jafnaðarflokk eru ekki á góðum stað. 

Það eru miklar kröfur gerðar til þeirra sem veljast í forystusveitir stjórnmálaflokka, þó vissulega sé það líka misjafnt svo sem hér hefur komið fram. Undir þeim kröfum þurfa flokkarnir og fólkið sem flokkana leiðir að standa.

Að svo sé ekki alltaf er ekkert einsdæmi og engir,  hvorki núverandi né fyrrverandi stjórnmálaflokkar, hafa alltaf og ævinlega staðið undir öllum væntingum. Að fráfarandi þingmenn hefji sig upp og lýsi því sem betur hefði mátt fara í störfum flokkanna segir okkur að ekki var allt svo sem þeir vildu meðan þeir sátu sem fulltrúar flokka sinna.

Eða, sem vel getur líka verið möguleiki, að þeir stóðu ekki í stykki sínu meðan þeir voru í hópi þingmanna. 

Hvort svo var varðandi Guðjón Brjánsson verður ekki fullyrt hér, en gera má ráð fyrir að tíminn muni leiða það í ljós. 

Guðjón sagði m.a. í viðtali við Kjarnann þann 17.3.2021 um ástæðu þess að hann hætti á þingi:

,,„Mig langar að eyða meiri tíma með minni fjölskyldu og fylgjast með barnabörnunum dafna og þroskast sem ég hef ekki haft nægilegan tíma til að gera,“"

Nú er svo að sjá sem ástæðurnar fyrir brotthvarfi þingmannsins séu mögulega fleiri.

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...