Frétt úr Fréttablaðinu:
Guðmundur Garðar Arthursson
ritaði eftirfarandi texta í umræðum um landbúnaðarmál á Facebook. Ég tók mér það bessaleyfi að afrita hann til að nota ,,síðar", eins og ég orðaði það, er ég lét hann vita af hnuplinu. Leturbreytingar og undirstrikanir eru mínar.
Að undanförnu hefur verið fjallað um tollamál landbúnaðarins, hér á þessum vettvangi [,,Umræðum um landbúnaðarmál" á Facebook], og í því samhengi er fróðlegt að skoða örlítið þann samning sem gerður var við ESB um landbúnaðarafurðir og tók gildi árið 2016 ásamt sauðfjársamningnum sem tók gildi árið 2017 en sami landbúnaðar ráðherrann (SIJ) [núverandi ,,innviðaráðherra"] undirritar þá báða. Samkvæmt þessum samningum starfar sauðfjárgreinin í dag.
Heimild Íslenskra framleiðenda til að flytja út kindakjöt til ESB landa skv. hinum nýja samningi jókst um 1.500 tonn frá 1.850 tonnum í 3.350 tonn.
Það var greinilega stefnt að því að hefja stóraukið átak í útflutningi kindakjöts til ESB landa á kostnað innlendrar kjötframleiðslu, hrossa, nauta, kjúklinga og svína- kjötsframleiðenda sbr. tilvitnun í samninginn, „Í staðinn fyrir“.
Það voru ekki allir sáttir við þessa samninga og [sumir] óttuðust afleiðingar þeirra. Í athugasemd sem Matfugl ehf., og Síld og fiskur ehf., Völuteigi 2, Mosfellssveit, ritaði Alþingi vegna þessa máls segir:
„Í samningi við ESB, sem gerður var árið 2015, var samið um mikla aukningu á tollkvótum. Fyrst og fremst var um að ræða mikla aukningu nauta-, svína- og alifuglakjöts ásamt unnum kjötvörum og pylsum sem að mestu eru framleiddar úr svína- og alifuglakjöti en heildarmagn tollkvóta á þessum vörum fór úr 650 tonnum í 3.206 tonn.
Langstærsti hluti innflutnings kemur beinlaus til landsins en miðað við að 1/3 hluti skrokks fari í afskurð í formi beina, sina og fitu má áætla að innflutt magn í heilum skrokkum sé um 4.800 tonn eða um fjórðungur af innlendri framleiðslu þessara þriggja kjöttegunda.
Það magn sem tollkvótar ná yfir mun ætíð verða flutt inn í öllum helstu vöruflokkunum“.
Það er ljóst að hugmyndir samningarmanna sauðfjárbænda um að stórauka útflutning á lambakjöti til „betur borgandi markaða“ hefur snúist upp í andhverfu sína.
Sauðfjárbændur, ásamt örðum kjötframleiðendum, hafa orðið fyrir gríðarlegum skaða af þessum samningum.
Það skal ósagt látið hvort sauðfjárbændur séu „þolendur“ eða „gerendur“."
Hér lýkur texta Guðmundar.
Að mati þess sem heldur úti þessu bloggi, er nauðsynlegt að halda þessum staðreyndum til haga og því er þetta birt.
Samningurinn sem gerður var við Evrópusambandið 2015 er ein af grófari aðförum sem gerðar hafa verið að íslenskum landbúnaði, þ.e.a.s. öðrum kjötframleiðendum en kindakjöts.
Hvort tilgangurinn var að valda skaða, eða að ekki var hugsað út í hvað verið var að gera, verður ekki kveðið upp úr um hér, en tjóni var valdið og ekki er svo að sjá sem sauðfjárbændur séu sérlega sælir með sitt.
Ekki má heldur gleyma því að varað var við því sem verið var gera. Það var samt haldið áfram, vaðið út í fenið, væntanlega í þeirri sannfæringu að verið væri að gera rétt.
Niðurstaðan varð sem vænta mátti.
Markaðirnir fyrir kindakjötið voru ekki til staðar. Þrátt fyrir ,,Icelandic Lamb" og annan fjáraustur.
Það hlýtur því að mega spyrja sig þeirrar spurningar:
Til hvers var farið í þennan leiðangur, þrátt fyrir fjölmargar viðvaranir?
Til hvers var farið í þennan leiðangur, þrátt fyrir fjölmargar viðvaranir?