Sauðfjárbændur vilja slátra fé sínu heima á búum sínum, á sama tíma og afurðastöðvarnar vilja fá heimildir til hagræðingar í rekstrinum með sameiningu.
Gunnar Þorgeirson formaður Bændasamtaka Íslands hvetur til sameiningar afurðastöðva í hagræðingarskyni, en umbjóðendur hans í sauðfjárræktinni hvetja til hins gagnstæða og vilja auk þess fá afslátt af eftirlitsgjöldum.
Þeir telja sig ekki þurfa að hagræða heldur hið gagnstæða, nema það falli undir hagræðingu að fylgst sé með vinnslu kjötafurða í gegnum vefmyndavélar; vélar sem þá eru svo næmar að þær skila góðri mynd af áferð og jafnvel lykt og eru það fullkomnar, að þær eru sem dýralæknar séu á vakt sinni.
Hvort hugmyndirnar eru annað og meira en draumórar líkir þeim sem sjást í vísindaskáldsögum á hvítu tjaldi og/eða sjónvarpsskjá, mun koma í ljós. Sé svo, þá hljóta þær að koma að sama gagni í stærri sláturhúsum og er þá gott til þess að vita, að ekki þurfi að stóla á mannshönd, né auga í þeim framtíðartrylli sem sauðfjárbændur sjá fyrir sér og hyggjast innleiða.
Það hefur verið tínt til að í Bandaríkjunum sé leyfð ,,heimaslátrun" til kjötsölu og að aðfarir við aflífanir séu svo sem sést á mynd hér til hliðar, sem birtist í Bændablaðinu þegar fyrri umræðuholskefla af þessu tagi reið yfir.
Slátrun gripa heima á búum hefur verið stunduð um aldaraðir, en við búum í breyttu samfélagi frá því sem var og því er vert að skoða það sem formaður Bændasamtaka Íslands. segir í viðtali við Morgunblaðið 30. ágúst s.l., þar sem rætt er um sameiningu sláturhúsa og afurðastöðva:
,,„Ég er nýkominn af fundi í Danmörku með formönnum bændasamtakanna í Skandinavíu og þar hitti ég sláturhússtjóra Danish Crown sem slátrar um 90% af öllum gripum í Danmörku. Ég held ekki að samkeppniseftirlitið í Danmörku sé að tala um að skipta því ágæta fyrirtæki upp. Samkeppniseftirlitið hér mælir aftur á móti ekki með því að þessi heimild verði veitt, hvorki til samruna, samvinnu né annars. Þessar einingar okkar eru alls ekki hagkvæmar í rekstri, fyrirkomulagið er allt of dýrt. Með því hvernig Samkeppniseftirlitið túlkar þetta þá er verið að koma í veg fyrir hagræðingu. En ég vona að frumvarpið, sem matvælaráðherra ætlar að leggja fram, leiði til hagræðingar í rekstri í afurðageiranum. Það er það sem okkur dreymir um,“ segir Gunnar Þorgeirsson."
Á sama tíma og verið er að berjast fyrir aukinni hagræðingu bændum og neytendum til hagsbóta, eru sumir sauðfjárbændur að berjast fyrir því að slátrun og að m.k. frumvinnsla geti farið fram á búunum sjálfum.
Hvernig fer þetta saman?