Ný forysta, skítur, skógrækt og bænakvak

 

Ein helsta frétt Morgunblaðsins þennan morguninn er að Samfylkingin hefur valið sér nýjan formann og ekki bara það, því eins og segir í fyrirsögninni hér að ofan er um algjöra endurnýjun á forystu flokksins að ræða.

Það er ástæða til að fagna þessum tíðindum með blaðinu, því brýn nauðsyn er að raunverulegur jafnaðarmannaflokkur sé á sviði stjórnmálanna í landinu okkar kæra og nú er staðan sú að svo er og auk þess mun Sjálfstæðisflokknum verða valinn formaður, nýr eða ekki nýr, á landsfundi flokksins sem haldinn verður innan tíðar.

Það er reyndar Sjálfstæðiskona sem ritar grein sem birtist í blaðinu í dag undir fyrirsögninni ,,Skítur skeður", og óhætt mun að fullyrða að greinin tengist á engan hátt því sem gerast mun á væntanlegum landsfundi Sjálfstæðismanna!
Greinin er um mikið alvörumál í lífi þjóðar, það er að segja hvernig hægt sé að tryggja þjóðinni áburðarefni til ræktunar nytjajurta. Vigdís Häsler framkvæmdastjóri Bændasamtakanna minnir á að eitt sinn átti þjóðin áburðarverksmiðju sem framleiddi köfnunarefnisáburð, en auk þess þarf þrífosfat og kalí og möguleikar gætu verið á að vinna þau efni úr því sem til fellur af... já einmitt, skít!

Í beinu framhaldi af áminningu Vigdísar er rétt að geta aðsendrar greinar eftir Albert Þór Jónsson viðskiptafræðing, sem velur grein sinni yfirskriftina ,,Skógrækt er snilld" og svo sannarlega er hægt að taka undir það.
Albert segir m.a. í grein sinni: 
Mik­il tæki­færi fel­ast í því að gera skóg­rækt að sjálf­bær­um at­vinnu­vegi á Íslandi á næstu 15-20 árum, sem skil­ar veru­leg­um gæðum og ávinn­ingi til sam­fé­lags­ins.

Rétt er að taka undir þau orð og rifjast upp hve skógrækt hefur vaxið mikið vítt um landið á seinni árum, eða líklega frekar áratugum, því skógrækt er verkefni til langrar framtíðar og ekki er ólíklegt að henni muni vaxa fiskur um hrygg eftir því sem tímar líða.

Það er ánægjulegt að fletta blaði sem er bæði jákvætt og fræðandi og þannig er Morgunblaðið í dag og þó tvær af þremur úrklippum þessarar bloggsíðu séu aðsendar greinar, þá er ekki þar með sagt að blaðamennskan standi ekki fyrir sínu. Aðsend grein og hvatning til áframhaldandi vandaðrar fréttamennsku er í blaðinu eftir Ingibjörgu Gísladóttur sem er hér að neðan.

,,Bænakvak" Ingibjargar er hvatnig til blaðamanna Morgunblaðsins um að taka sér ekki til fyrirmyndar RÚV. 
Ingibjörg segir, er hún lýsir tilhlökkun sinni þegar kemur að því að lesa blaðið:
,,Til­hlökk­un­in er þó blend­in núorðið því sum­ir frétta­menn þess virðast hafa tekið RÚV sér til fyr­ir­mynd­ar og [hafa] látið af hlut­leysi í frétta­vali og frá­sagn­ar­hætti." 

Ingibjörg er ekki ein um það að hafa fengið sig sadda af ,,frétta"- flutningi RÚVsins, sem er orðinn þannig að oftar en ekki verður að leita sér upplýsinga annarstaðar í þeirri von að takast muni að finna óbrenglaðan uppruna ,,fréttanna". 


Evrópskt gasbras


Á skjáskotinu hér að ofan er haft eftir Putin: ,,að vesturveldin vilji þurrka Rússland af hinu pólitíska landakorti". Hann telur að það geti orðið fyrirhafnarmikið og lítil ástæða er til að efast um að það sé rétt. 

Það er ekkert nýtt að verið sé að agnúast út í rússnesk stjórnvöld af vestrænum stjórnmálamönnum og skemmst er þess að minnast að fyrir nokkrum árum var reynt að ,,svelta" þá til hlýðni með því að reyna að svipta þá aðgangi að ýmsum eftirsóttum matvælum úr landbúnaði og sjávarútvegi. 

Og auðvitað tóku íslenskir stjórnmálamenn þátt í því!

Niðurstaðan varð að íslenskur sjávarútvegur og landbúnaður skaðaðist, en hvort rússneskur almenningur tók eftir því að ekki fengust lengur íslenskar vörur er óvíst. Hitt er víst, að Rússar brugðust hárrétt við og efldu framleiðslu sína á landbúnaðarvörum og skömmu síðar voru þeir orðnir útflytjendur í stað þess að vera innflytjendur.

Íslenskir bændur og sjómenn sátu uppi með skaðann en Rússland elfdi og styrkti innviði sína. 

 Miðillinn ,,The Zerohedge" tók saman og sagði frá orkuhungrinu í Evrópu og segir þar frá því hvernig mönnum hefur gengið að venja sig af rússneskum orku eftir að viðskiptaþvinganir voru teknar upp gagnvart Rússlandi. 

Evrópusambandið bannaði rússnesk kol og stefnir að því að hætta að mestu olíuinnflutningi þaðan fyrir árslok 2022. Tilgangurinn mun vera að svipta Rússa góðri tekjulind.

Að hætta notkun á rússnesku gasi reyndist vera meira mál en gert var ráð fyrir og vonast var eftir. Birgðir af gasi sem komið hefur eftir leiðslum, eru að verða búnar og því hefur eftirspurn eftir gasi eftir þeirri leið, breyst í eftirspurn eftir fljótandi gasi (LNG), m.a. frá Rússlandi!

Miðillinn hefur það eftir Wall Street Journal að innflutningur ESB á fljótandi jarðgasi hafi aukist um 41% milli ára fram í ágúst.

Rússneskt fljótandi gas hefur ekki verið ofarlega í umræðunni, að því er haft er eftir Maria Shagina hjá International Institute for Strategic Studies í London í WSJ.

Verð á jarðgasi hefur hríðlækkað í Evrópu síðustu vikur, eftir að greint var frá því að fjöldi LNG-flutningaskipa sé þar í gasflutningum. En samkvæmt ,,MarineTraffic" eru um 60 LNG-skip, eða u.þ.b. 10% af LNG-skipum í heiminum, um þessar mundir á siglingu eða liggjandi við akkeri í Norðvestur-Evrópu, Miðjarðarhafinu og við Íberíuskagann. 

Skipin sem munu að miklum hluta vera bandarísk eru talin vera fljótandi geymsla fyrir gas, vegna þess að þau geta ekki losnað við farminn vegna vandamála varðandi uppgjör á honum og flutningsgjöldum.

Skipin munu að stórum hluta vera bandarísk.

Eftirspurn eftir jarðgasi hefur rokið upp í Evrópu vegna skorts sem myndaðist þegar ESB reyndi að draga úr kaupum á rússnesku jarðgasi í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu og Vesturevrópa er orðin stærri á markaðnum en Asíulöndin,  sem helsti innflytjandi á LNG frá Bandaríkjunum (65%).

ESB hefur heitið því að draga úr kaupum á rússnesku jarðgasi um næstum tvo þriðju hluta og Litháen, Lettland og Eistland hafa heitið því að hætta alfarið innflutningi á rússnesku gasi. 

Evrópa er ekki ein í þessu gasbrasi, því í ljós hefur komið að Kína hefur flutt inn næstum 30% meira gas frá Rússlandi það sem af er þessu ári en áður var.

Í greininni sem hér er vitnað til er bent á, að þessi viðskipti efli fjárhag Rússlands í stað þess að grafa undan honum eins og ætlunin hafi verið að gera. 

,,Í upphafi skyldi endirinn skoða", segir í íslensku orðtaki og óhætt er að segja að það sé í gullnu gildi hvað þessi mál varðar!

Sagt er í greininni að sök(!) Sviss vegna viðskiptanna við Rússland sé mikil vegna milligöngu í viðskiptunum. 

Hvort um sök í því efni er um að ræða verður að teljast umdeilanlegt, því hin kalda staða er sú að þjóðir Evrópu þurfa á gasi að halda, hvað sem líður kreddum stjórnmálamanna.

Og ekki bætti úr sú skammsýna ákvörðunartaka að loka kjarnorkuverum, sem reyndar þurfa á úrani að halda og sem einna best er að fá frá... já einmitt: Rússlandi!

,,Heiðra skaltu skálkinn svo hann skaði þig ekki" segir íslenskt máltæki og mættu menn hafa það í huga, hvort heldur sem búið er í Úkraínu, eða innan ESB. Brölt í Brexiti eða verið Bidensku heimsveldisbrölti.


Til hamingju Seltirningar með nýju borholuna!

 

 Skjáskot úr Morgunblaðinu 26.10.2022

Það er liðin tíð að menn séu að rogast með kolapoka til kyndingar á Seltjarnarnesi, eins og var þegar undirritaður ólst þar upp á árunum 1949 til 1958.

Á þeim árum var kynt upp með kolum og mér er minnisstætt þegar afi var að koma þeim inn um gluggaop á útvegg, inn í kyndiklefann.

Á þessum tima var Seltjarnarnesið dreifbýlt og gjörólíkt því sem það er í dag, næsta hús til austurs var glæsibygging á þeirrar tíðar mælikvarða og til vesturs var og er húsið Bollagarðar, en það áttu menn trillu og brugðu sér út á sjó og sóttu fisk í soðið þegar tækifæri gafst.

Seinna var byggt hænsnahús norðan við Skuldina okkar og það gat verið gaman að snúast í kringum karlana sem það áttu.

Í dag er frétt um það í Morgunblaðinu, að tekin hafi verið í notkun borhola með heitu vatni í stað annarrar sem gafst upp á tilveru sinni og sýnir það okkur að kolaburður er ekki lengur stundaður á Seltjarnarnesi nema ef vera kynni til kyndingar á grillum þeirra sem ekki nota gasgrill. 

Ég ók mér til skemmtunar hring um nesið um daginn og breytingin er mikil. Varla sést lófastór blettur sem ekki er búið að byggja á, breyta í malbikaða götu, eða rækta þar skrúðgarð.

Nema yst út á nesendanum, þar sem Nesstofa er og nánast hægt að teygja sig í Gróttu, þar er vin í steinsteypu- eyðimörkinni, sem vitanlega er engin eyðimörk, þó fortíðarþráin fái mann til að finnast að svo sé!

Hvað sem öllu þessu líður, er ástæða til að fagna því að hiti í jörðu sé notaður til kyndingar húsnæðis og vonandi er að holan reynist Seltirningum vel og hvað sem líður fyrrnefndri þrá, þá er vel byggt að sjá og gamli Mýrarhúsaskólinn virðist vera í góðu viðhaldi og er glæsilegur, og það sama má segja um hinn ,,nýja".

Þar voru tekin fyrstu sporin í skólagöngunni og er ég sá húsið vöknuðu minningar og á hugann leitaði sú hugsun að sveitarfélagið sem ég bý í núna, hefði mátt taka sér til fyrirmyndar, þá virðingu fyrir sögulegum mannvirkjum sem sýnd er á Seltjarnarnesi, þegar ráðist var í að brjóta niður skólabyggingu frá 1946. 

Sagan sagði að komin væri í það mygla í kjallara vegna vanhirðu væntanlega, en við erum nokkur sem teljum það sérkennilegt ef ekki er hægt að þurrka upp kjallara á húsi sem stendur á hól!

En þessi pistill átti að vera um bernskustöðvarnar en ekki nútímann, svo best er að enda hann á Passíusálmi númer 51 eftir Stein Steinarr!:

Á Valhúsahæðinni

er verið að krossfesta mann.

Og fólkið kaupir sér far

með strætisvagninum

til þess að horfa á hann.

Það er sólskin og hiti,

og sjórinn er sléttur og blár.

Þetta er laglegur maður

með mikið enni

og mógult hár.

Og stúlka með sægræn augu

segir við mig:

Skyldi manninum ekki leiðast

að láta krossfesta sig?




Það þarf nýtt hugarfar

Vefritið Kjarninn fjallaði um væntanleg formannsskipti í Samfylkingunni og myndir í þessari færslu eru skjáskot úr þeirri grein Kjarnans.

Kristrún Frostadóttir hefur komið eins og ferskur vindur inn í hús sem staðið hefur lengi með gluggana  lokaða, en dyrnar hálfopnar, eða ef til vill tæplega það.

Dyrnar hafa verið opnaðar og gluggarnir líka, loftað hefur verið út, ljósin kveikt og kaffikönnunni stungið í samband. Nýja meðlætið sem komið er á borðið í stað þess gamla (sem vonandi er komið í ruslafötuna) er ilmandi og senn mun fersk kaffiangan berast um húsið. 


Kristrún kemur úr fjármálaheiminum, þekkir muninn á plús og mínus, kann prósentureikninginn  líka og ekki bara það, því hún kann ýmislegt fleira fyrir sér og hefur náð að sanna sig sem þingmaður.

Það blása sem sagt ferskir vindar um Samfylkinguna þessa dagana og svo gæti farið að hugmyndin um ,,turn" geti aftur orðið að veruleika.

Hugmyndin um turnana tvo var reyndar aldrei neitt sérstaklega spennandi, gufaði fljótlega upp og litlu mátti muna Samfylkingin sjálf gerði það líka, eða öllu heldur kólnaði niður og hyrfi á vit sögunnar, þeirrar sem kann að greina frá mörgum íslenskum stjórnmálaflokkum sem hafa sprottið upp og síðan horfið.

Þegar svona var komið var kveiktur Logi sem er Einarsson og kemur frá Akureyri og hefur honum með hjálp góðra manna tekist að halda Samfylkingunni lifandi; hún hvarf því ekki alveg af þinginu, lifir enn og haldið er í vonina. 

Það fór sem sagt fyrir Samfylkingunni líkt og þegar kveikt er á rakettu, sem misst hefur prikið, að puðrast í allar áttir, missa marks og skemmast, en til voru þau sem héldu sínu striki: Héldu í prikið! 

En turninn hrundi hratt og örugglega.

Hinn turninn sem kallaður var, hefur sigið hægt og jafnt í jörðu, eins og gerist oft þegar ekki er gætt nægjanlega að því, að byggingin standi á traustum grunni, en þar er unnið að ,,þéttingu byggðar" við Valhöll svo ekki er mönnunum alls varnað! 

Flug litlu rakettunnar  sem Samfylkingin var orðin að sumra mati, var orðið stjórnlaust en hefur nú verið stöðvað og stefnir til nýs markmiðs með nýjum formanni og því bera að fagna. Því ekki veitir af að íslensk þjóð búi svo vel, að á stjórnmálasviðinu séu alvöru stjórnmálaflokkur og flokkar, sem gæti hagsmuna lands og þjóðar.


Samfylkingin stendur fyrir jöfnuð, þó hún hafi aldrei borðið nafn sem vísar í þá átt og gera má ráð fyrir, að sé mönnum alvara með hugmyndum um endurris, þá verði því breytt; að flokkurinn fái nafn sem vísar í raunverulega stefnu í málefnum þjóðarinnar.

Ekki er það samt svo að tilfelli Samfylkingarinnar sé einstakt í íslenskri pólitík og nægir að horfa á það flokkakraðak  sem í boði er núna: 

Nafn Sjálfstæðisflokksins vísar í að þjóðin skuli vera sjálfstæð, Framsóknarflokkurinn að sækja skuli fram, - og líklegt er að átt sé við þegar fé er rekið af fjalli. Viðreisn að reisa skuli eitthvað við. Miðflokkurinn að flokkurinn sé núll og nix! Og það sama er um Flokk fólksins sem ber nafn sem óljósara getur ekki orðið. Að lokum eru það Piratar sem sumum hefur dottið til hugar að vísi til gríska bókstafsins pi, sem engum hefur tekist að reikna til enda og að seinni hluti nafnsins sé þaðan kominn: Það er flokkur sem enginn sér fyrir hvað stendur og það hvorki í nútíð né framtíð.  

Nú gætu verið að renna upp tímar með tilveru afls á sviði stjórnmálanna sem gætir hags lands og þjóðar og hefur jöfnuð að markmiði. Markmið sem nær útilokað er að ná, en eftir sem áður er bæði jákvætt og sjálfsagt að stefna að. 


Við búum við  stjórnmálaflokka sem gæta að nokkru leyti hagsmuna sérstakra hópa í samfélaginu. Allir vita fyrir hvað þeir standa; hvaða flokkar eru hagsmunagæsluflokkar fyrir fjármagnseigendur, gamalt landbúnaðarkerfi og frekar nýlegt sjávarútvegskerfi svo dæmi séu tekin.

Það er því fagnaðarefni ef kominn er fram flokkur sem stendur fyrir það jákvæða í því sem hér var talið, en hugsar að auki um efnalegan jöfnuð í samfélaginu, að allir eigi sinn sanngjarna rétt til afkomu og aðgengi að gæðum lífsins og jöfn tækifæri til að hasla sér völl.

Vonandi er, að ekki nái sér á flug sértrúarsöfnuðir af ýmsu tagi innan flokksins, eins og gerst hefur á síðustu árum og sem m.a. lýsti sér í því að það ætti að stjórna því hvað börn í skólamötuneytum fengju að borða, að banna skyldi blóðmerabúskap svokallaðan og að taka skyldi danskan forsætisráðherra sér til fyrirmyndar og drepa alla minka á minkabúum - sem skriðu sjálfir dauðir upp úr gröfum sínum, en það er önnur saga!

Auk þess sem taka skyldi upp fyrrnefnt sértrúareldi á skólabörnum í skólamötuneytum.  

Þegar þar var komið, spurðu sumir sig þeirrar spurningar: hvar yrði numið staðar í fáránskunni?

Öðrum datt í hug hið fornkveðna sem mun vera frá Dönum komið sem fleira gott:

Það þarf að vera regla á vitleysunni!

Frétt?

 


Ýmislegt má um þessa ,,frétt" um drónasölu Írana til Rússlands sem sagt er frá í New York Times segja, en víkjum okkur beint að efninu.

Svo er að skilja, sem það sé siðlaus glæpur að selja Rússum drápstól og aðra hernaðarskaðvalda.

Hvort slík viðskiptin fóru fram, vitum við ekkert um og eins gæti verið að um sé að ræða bandarísk ósannindi, en það vitum við heldur ekki neitt um!

Við vitum að bandarískir hergagnaframleiðendur græða á því að þarlend stjórnvöld gefi Úkraínum hertól af ýmsum gerðum og að svo hefur verið a.m.k. síðan skömmu eftir að Rússar hófu ,,hina sérstöku hernaðaraðgerð".

New York Times hefur ekki fjallað mikið um hvernig árásarliðar frá Úkraínu voru vopnaðir fyrir ,,hina sérstöku hernaðaraðgerð", - svo eftir hafi verið tekið. Hafi það verið gert hefur það farið fram hjá undirrituðum.

Myndin sem fylgir fréttinni af hinum lymskulegu flygildum segir ófróðum lesanda blaðsins ekkert um hvar þau eru smíðuð, hvar myndin er tekin, né hvenær og ekki heldur hverrar gerðar þau eru og því er engin leið fyrir almennan lesanda að dæma þar um.

Í umfjölluninni opinberar miðillinn sig sem hlutdrægan og skoðanamyndandi fjölmiðil.

Hafi það ekki legið fyrir áður, liggur það ljóst fyrir nú og er það miður því gott er að eiga góðan aðgang að vönduðum og öflugan fjölmiðlum á viðsjálverðum tímum.

Undirritaður vonast til þess að það sem hér hefur verið fjasað yfir, sé undantekning og verði ekki regla. 

Ófriður býr til ,,helvíti á jörð"

Í Fréttablaðinu í dag (22.10.2022)er rætt við David Beasly framkvæmdastjóra Alþjóðamatvælastofnunarinnar og sá er ekki bjartsýnn á stöðu mála svo sem sjá má af fyrirsögninni á skjáskotinu sem er hér að ofan. 

David tók við stöðunni árið 2017 eftir því sem segir í greininni og hefur aldrei séð það svartara en nú hvað varðar matvælaöryggi í heiminum. Hann segir segir meðal annars: 

 ,,Fyrir fimm árum bjuggu 80 milljónir við alvarlegt fæðuóöryggi. Rétt fyrir Covid taldi hópurinn 135 milljónir og eftir faraldur 276 milljónir. Eftir átök í Eþíópíu, Afganistan og Úkraínu er fjöldinn nú 345 milljónir" og síðan er haft eftir David: 

 ,,„Við erum enn langt frá því að ná markmiðum okkar og það er áhyggjuefni. Þegar það gerist þá getum við endað með hungursneyð, óstöðug ríki og mikla fólksflutninga. Okkur tókst að koma í veg fyrir það síðustu ár því leiðtogar heimsins tóku sig saman og brugðust við en við lifum á fordæmalausum tímum núna. Þess vegna er svo mikilvægt að lönd eins og Ísland taki þátt,[...]“" 

 Síðar fer hann yfir hvernig málum sé komið varðandi fæðuöflun vegna náttúruhamfara og stríðsins í Úkraínu og þar er haft eftir honum: 

 ,,„Koma þarf gróðuráburðinum út, sama hver brot Rússa eru. Þetta snýst um öryggi á alþjóðavísu. Ef við fáum fjármagn getum við sinnt okkar starfi, en án gróðuráburðarins verður þetta helvíti á jörðu á næsta ári. Við erum á mjög hviklyndum tíma í mannkynssögunni.“" 

Greinin er áhugaverð og minnir okkur á hve nauðsynlegt það er að stilla til friðar milli Úkraínu og Rússlands. 

 Nauðsynleg áburðarefni til ræktunar koma frá Rússlandi og Úkraína er síðan eitt af frjósömustu löndum heims, þar sem ræktað er óhemjumikið magn af korni. 

 Heimurinn þarfnast þess að komið verði á friði milli hinna stríðandi aðila og eðlilegast væri að Sameinuðu þjóðirnar gengju í það verkefni af heilum hug. 

 Það er vitað að í Bandaríkjunum ala menn með sér þann blauta draum að koma Rússlandi á kné.

 Draumurinn sá, er bæði óraunsær og órakenndur, því það sem þarf til, er svo ógnvekjandi og óhugnanlegt, að við viljum fæst leiða að því hugann.

Tveir gamlir og annar í fríi með vodka og fólkið með burstann

 

Tveir gamlir og annar í fríi - með vodka

2022-10-20 (2)RÚV veltir ýmsu fyrir sér.

Hér snúast þenkingarnar um karl sem var forseti Bandaríkjanna þar til hann tapaði fyrir öðrum karli sem lukkaðist að stilla upp efnilegri konu sér við hlið.

Konan gaf vonir um sæmilega skýra hugsun, en sú von hvarf snögglega og frekar óvænt, eins og bent var á í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins.

Karlinn sem hér er kallaður ógnvaldur, var og er(?) sekur um alskyns furðulegheit, en hafði samt lag á að tala við mann og annan og þar á meðal Putin og Kim Jong Un... eða hvað sem hann nú heitir sá blessaði maður.

2022-10-20 (3)Það sama verður ekki sagt um núverandi forseta Bandaríkjanna og svo það sé nú tekið fram, þá er garmurinn Biden ekki einn.

Hér snýst málið um það hvort gamall karl hafi mátt gefa öðrum gömlum karli vodkaflöskur í afmælisgjöf.

Þegar stjórnmálin í Evrópu snúast orðið um hver megi gefa hverjum afmælisgjafir, er orðið stutt í sandkassann

Í þessu tilfelli eru kastalasmiðirnir í kassanum ekki börn og ekki gamalmenni, heldur fólk á nokkuð góðum aldri, en hugsanlega reynslulítið í lífsins ólgusjó.

Afmælisgjafarþrasið snýst ekki um alvöru lífsins, en lýsir inn í heim þann sem flestir ráðamenn Evrópu búa í.

Heim reynslulausa fólksins með háskólagráðurnar og uppvöskunarburstann.

Það er fólkið sem við höfum valið til að fara með fjöregg þjóðanna. 

Tvær fréttir um bændur

 Þessa frétt var rekist á  þegar blöðum dagsins var flett, en þar er sagt frá því, að bændur hafi fengið styrk úr sjóði Geðhjálpar og þar segir til skýringar:

,,Þá fá Bænda­sam­tök Íslands styrk upp á 1,5 millj­ón­ir til að vinna fræðslu­mynd­band til sál­gæslu fyr­ir bænd­ur. Í mynd­band­inu segja bænd­ur, sem lent hafa í áföll­um, sín­ar reynslu­sög­ur."

Í mymdbandinu sem fyrirhugað er að gera fyrir styrkinn, segja bændur sem fyrir áföllum hafa orðið sínar reynslusögur. 

Á árum áður urðu bændur stundum fyrir áföllum  fyrir tilverknað manna sem voru innan þáverandi Stéttarsambands bænda og fleiri sem tengdust félagsskapnum. 

Það er væntanlega ekki til umfjöllunar, enda flestir horfnir af sviðinu sem því tengdust. Bæði þolendur og gerendur. 

Núverandi Bændasamtök lofa góðu og eiga ekki að gjalda fyrir syndir forfeðranna. 

Þær eru til að læra af og forðast.

Þar næst var rekist á frétt um eigendur jarðar í Borgarbyggð sem neyddir eru til að vera í svokölluðu ,,upprekstrarfélagi".


Það skal tekið fram að þrátt fyrir þá nauðung sem reynt er að koma mönnum í, í nafni sauðfjárræktarinnar, þá er ekki ástæða til að ætla að samband sé á milli þessara frétta.

Sú fyrri er um menn sem fá styrk úr sjóði Geðhjálpar og er úr Morgunblaðinu, en sú seinni er úr Fréttablaðinu og fjallar um eina af birtingarmyndum forneskjunnar sem er til varðandi sauðfjárbúskapinn. 

Ritari telur að ekkert samband sé milli þessara frétta og að tilviljun ein hafi ráðið því að báðar birtast sama daginn og í sitthvorum fjölmiðlinum!


Biden, Xi, Ólafur og Dorrit, Lauman og Staksteinninn

Taki Biden til máls hefur það áhrif, en kannski sjaldnast á þann veg sem hann  myndi vilja!
_ _ _

Samkvæmt þessari frásögn, fer ekki saman innihald og umfang. Hefur annars einhver hlustað, lesið og skilið umrædda ræðu?:
_ _ _

Blásið var til fundar í Hörpu, en hvað þar gerðist markvert hefur lítið spurst út. 
Að Dorrit hafi sofið í tjaldi í hausthráslaganum er samt ástæða til að efast um.
Lífsmark greindist helst með holllenskum strípu- og borða- bera sem æsti sig yfir að Kínverjar skyldu hafa þann lífsstíl að hugsa fyrst og gera svo. 
Hinum holllenska líkaði það illa en var tekin á kínverkst kné og fékk kurteislega kennslu í mannasiðum. 
Holllendingurinn (ófljúgandi) var búinn að ,,gleyma" holllenskri sögu og lái honum hver sem vill, því það borgar sig ekki að muna allt!:
_ _ _

Og svo eru það blessaðar kindurnar villuráfandi og fyrir bílum verðandi, sem ekki munu geta notið ,,laumunnar" eftir úrskurð Umboðsmanns: 
_ _ _ 

Hér flýtur síðan með í lokin Staksteinn úr Morgunblaði gærdagsins, en ástandið í verkalýðshreifingunni er ekki að gríni hafandi, en við höldum að þrátt fyrir allt hafi forystan verið kosin til starfans! 
Ættu  ef til vill að taka þá Don Camillo og Peppone sér til fyrirmyndar og leysa málin með fjandvináttiskum hætti og halda sig við það að vinna fyrir fólkið sem treysti þeim til forystu, í stað þess að níða skóinn hvert niður af öðru. 
_ _ _

Gott í bili, en klippurnar eru úr Morgunblaði gærdagsins (17.10.2022), sem í mörgu fór á kostum, svo sem sjá má, sérstaklega ef mönnum tekst að lesa Staksteininn!
 

Þörfin fyrir aðflutt fólk



 Þorsteinn Pálsson​ skrifar grein í Fréttablaðið (13.10.2022) undir yfirskriftinni ,,Tilvísun eða frávísun" og bendir á margt sem við þurfum að hafa í huga þegar rætt er um fólk sem flytur til landsins, hvort heldur sem er, til lengri eða skemmri tima og segir þar m.a.:

,,Vinna þeirra og flóttamanna er forsenda fyrir hagvexti og velferð í landinu. Útlendingaandúð samræmist [...] ekki óskum um betri lífskjör. En það breytir ekki hinu að full þörf er á ríkari málefnalegri umræðu um þessi efni en verið hefur."

Og síðan:

,,Hagstofan áætlar að á næstu tíu árum fjölgi starfsfólki á vinnualdri um 34 þúsund. Náttúruleg fjölgun íbúa mun aðeins fylla 6 þúsund þeirra starfa og standa undir 0,5 prósenta hagvexti. Samtök atvinnulífsins telja að á næstu fjórum árum þurfi 12 þúsund útlendinga inn á vinnumarkaðinn. Samtök iðnaðarins ætla að á næstu fimm árum þurfi 4.500 erlenda sérfræðinga einungis fyrir hugbúnaðargeirann."

Það er augljóst af því sem fram kemur í greininni að þörf er fyrir fólk erlendis frá, ef við viljum halda uppi hagvexti.

Rifjast þá upp þegar þáverandi ríkisstjórn tók það framfaraskref að fara í að virkja Þjórsá við Búrfell og einnig í að byggt var álver í Straumsvík. Framkvæmdir sem rifu þjóðfélagið upp úr stöðnun. Við búum enn að þeirri framsýni sem sýnd var með því að fara í þessi verk.

Þá skapaðist þörf fyrir aðflutt fólk til að vinna við framkvæmdirnar. Þær hefðu ekki náð fram að ganga nema vegna þess að fólk kom til landsins til að vinna verkin sem vinna þurfti til að mannvirkin yrðu að veruleika.

Í hjáverkum bjuggu sumir til nýja þjóðfélagsþegna samfélaginu til hagsbóta og frískunar en það er önnur saga!

Þegar síðar kom að stækkun og frekari framkvæmdum þar uppfrá, komu menn til að setja upp vélar m.a. frá Rússlandi og mér er kunnugt um að sumir minnast þeirra með hlýju. 

Hvort þeir tóku að sér aukaverk af fyrrnefndu tagi til að auðga íslenskt þjóðfélag veit ég ekki.  

Hin einfaldaða hagfræði

 Fyrst koma viðskiptaþvinganir, sem hækka útgjöld alls almennings.

Síðan banna þeir útflutning á orku frá Rússlandi, sem veldur hækkandi orkuverði til almennings og fyrirtækja.

2022-10-12 (4)Til að tryggja að það verði viðvarandi tregðast þeir við að afhenda viðgerðan búnað úr gaskerfinu sem sendur var til viðgerðar í Kanada.

Þá er tregðast við að greiða fyrir orkuna (gasið) með eðlilegum hætti og enn hækka útgjöld almennings vegna kyndingar og fleira.

Matvælaverð hækkar vegna þess að efni til áburðarframleiðslu fást ekki frá Rússlandi.

Rússar senda kornskip til Afríku til bjargar sveltandi, en skip sem fóru frá Úkraínu skiluðu sér ekki til fólks sem þar var við sult og seyru.

2022-10-12 (5)Þá er bætt við banni á kaup á áli frá Rússlandi, sem snarhækkar álverð á heimsmarkaði.

Blessaðir hergagnaframleiðendurnir hagnast sem aldrei fyrr, flá feitan gölt og blómstra.

Afleiðingarnar láta ekki á sér standa, stríðið heldur áfram, Úkraína fer í sífellt meiri rúst og fólkið líður, lemstrast á sál og líkama og deyr.

Allt er þetta þess virði vegna þess að verðin hækka og þeir ríku verða ríkari, blómstra og dafna sem púkinn á fjósbitanum.

Þriðja heimskreppan

Þriðja heimskreppan lúrir og gægist fyrir hornið.

The Guardian segir frá því í grein undir fyrirsögninni ,,IMF tells central banks to focus on inflation as recession looms" að hann líti svo á að seðlabankar þurfi að standa vel í ístaðinu ef ekki eigi illa að fara. 

Þriðja heimskreppan sé rétt handan við hornið og bíði færis!

Innrásin í Úkraínu ásamt samdrætti í Kína eru helstu áhrifaþættirnir hinnar sívaxandi niðursveiflu.

Efnahagsráðgjafar sjóðsins telja að stjórnendur  seðlabankanna verði að vera vel á verði og vera opnir fyrir öllum tiltækum lausnum.

Alþjóðabankinn, líkt og seðlabankar þjóðríkjanna vanmat verðbólguþrýstinginn í fyrstu viðbrögðum sínum á síðastliðnu ári.

Seðlabanki Bandaríkjanna, hækkaði vexti um 0,75 stig á síðustu þremur fundum sínum og Englandsbanki hækkaði lántökukostnað úr 0,1% í 2,25% frá því í desember síðastliðnum.

Hættan á að ,,gera of lítið" vegur þyngra en kostnaðurinn við að taka á vandanum en samt er seðlabönkum ráðlagt að fara varlega til að forðast of harkalegan samdrátt.

Sé horft til næstu sex mánaða má reikna með að hagvöxtur á heimsvísu muni dragast saman frá 6% í fyrra í það að verða rúm 3% í ár og tæp 3% næsta ár.

Seðlabanki Bandaríkjanna hefur hækkað vexti og sá breski hefur hækkað lántökukostnað úr 0,1% og í 2,25% frá því í desember.

Hættan á að gera of lítið gæti vegið þyngra en kostnaðurinn við að gera of mikið og betra er að fara varlega, því hagkerfi heimsins gætu skroppið of mikið saman að öðrum kosti.

Áætlað er að hagvöxtur á heimsvísu muni hægja á sér úr 6% árið 2021, í 3,2% á þessu ári.

Alþjóðabankinn vanmat verðbólguþrýstinginn í fyrstu spá sinni í fyrra.

(Byggt á grein The Guardian)




Kjarnorkuver



Það kemur ekki á óvart að kjarnorkuver eru til þess gerð að framleiða orku, það er  hitaorku, sem síðan er breytt í raforku. 

Í grein New York Times er fjallað um árásir sem gerðar hafa verið á kjarnorkuver síðustu áratugina og óhætt er að segja að á óvart kemur hve algengt það hefur verið.

Sem betur fer hefur oftast verið um að ræða árásir á ver sem verið hafa í byggingu, en í því tilfelli þar sem um var að ræða þau sem voru í rekstri þá geigaði sprengjukastið, missti marks eða fór í bókstaflegri merkingu út í sandinn samkvæmt því sem segir í fyrrnefndri grein!

Þar er þó ein fullyrðing sem stenst ekki skoðun, þar sem segir, að taka Rússa á verinu í Zaporizhzhia hafi verið gerð til að að stela rafmagni!

Rússar líða ekki orkuskort og þurftu ekki á verinu að halda fyrir Rússland.
Verið féll þeim í hendur í ,,hinni sérstöku hernaðaraðgerð" og svo lengi sem hægt var vegna árása Úkraína streymdi rafmagn frá því yfir til Úkraínu, sem í ýmsar aðrar áttir.

Það var ekki fyrr en að gefist var upp á rekstri versins, vegna árása frá Úkraínu, sem ákveðið var að hætta rekstri þess og kæla það niður. Og til þess eru notaðar neyðarrafstöðvar (diesel) sem framleiða rafmagn til kælingarinnar.

Það segir væntanlega eitthvað um ábyrgðartilfinningu þeirra sem í hernaðinum standa af hálfu Úkraína, að þeim skuli finnast eðlilegt og sjálfsagt, að halda uppi sprengjuárásum á kjarnorkuver sem er með þeim stærstu í heimi og auk þess, nánast í hlaðinu hjá þeim sjálfum!

Óhöpp í rekstri kjarnorkuvera hafa verið nokkur og talið upp samkvæmt minni: eitt í Bandaríkjunum, annað í Úkraínu (sem þá var innan Sovétríkjanna), það þriðja í Japan og ef til vill er einhverju gleymt, en það skiptir minnstu, aðalatriðið er að óhöpp í rekstri geta haft alvarlegar afleiðingar.

Það verður því að teljast skynsamleg ákvörðun af hálfu Rússa að hætta rekstri Zaporizhzhia versins.

Verulega hættulegt er að stunda slíka starfsemi þar sem ófriður ríkir og reyndar líka þar sem jarðhræringar geta ógnað öryggi s.s. í Fukusima.

Myndin hér að ofan, er úr New York Times og fylgdi greininni sem varð til þess, að þessi færsla var skrifuð og þar má sjá menn virða fyrir sér skemmdir á Zaporizhzhia kjarnorkuverinu.

Skemmdir sem urðu til vegna sprengjuárása (Úkraína), eru augljósar og eins og hver maður sér, er ekki vogandi að reka kjarnorkuver á hernaðarsvæði þar sem annar aðilinn skeytir engu um afleiðingar þess sem hann gerir og virðist þá einu gilda hvort heldur er um að ræða afleiðingar fyrir eigin þjóð eða andstæðinginn.

Í upphafi átakanna þótti nógu alvarlegt að Rússar yfirtóku kjarnorkuverið í Chernobyl.
Hvernig sú hernaðaraðgerð var hugsuð hefur ekki verið upplýst, en trúlega hefur eitthvað verið hugsað, en hvað það var, er ekki gott að segja.


Kúba þá - Úkraína nú

 

                                                                                                        Mynd fengin af vef Ríkisútvarpsins.

Að því gefnu að hér sé rétt með farið í frásögninni, gæti verið von til að forseti Bandaríkjana átti sig á því, að í samlíkingunni sem hann beitir, er Rússland núna það sem Bandaríkin voru þá, (í Kúbudeilunni).

Rússar áttuðu sig á alvarleika málsins og tóku niður flaugarnar og fluttu þær heim til Rússlands. Engin hernaðarátök brutust út, en tæpt stóð það að flestra mati.

Nú er staðan sú, að Bandaríkin og fleiri NATO þjóðir reka það sem sumir kalla ,,staðgengilsstríð" gegn Rússlandi vegna sjálfstjórnarhéraðanna í Donbass.

Fóðra árásarliðið sem var að margra mati, á vopnabúnaði (sem sumum þykir gott að fá reyndan í raunverulegum átökum), en árásarliðið sem er í þessari samlíkingu, verður að sjá um sig sjálft.

Rússar sjá þetta öðruvísi og segja sem rétt er að að árásir, á sjálfstjórnarhéruðin í Donbass hafi staðið yfir allar götur síðan árið 2014.

Þau átök kostuðu m.a. saklausa farþega í flugvél sem flaug yfir svæðið á leið sinni lífið, eins og margir muna og bætist það manntjón við u.þ.b. 14.000 manns, sem féllu fyrir vopnum árásarliða frá Úkraínu.

Þau átök og ágreiningurinn sem til þeirra leiddi, hefur aldrei verið settur niður og eins og við vitum hefur forseti Úkraínu lýst því yfir í orðræðu vegna núverandi átaka, að til standi að sigra Rússland.

Það er mikið markmið og stórt og hætt er við, að til að það takist þurfi miklu til að kosta.

Hvort vestrænir vinir hins úkraínska forseta eru tilbúnir að ganga svo langt er ekki víst, en vinurinn mikli handan Atlantshafsins gæti verið það.

Frá sjónarhorni þess ,,vinar" er Evrópa dálítið langt í burtu og gott að láta hana sjá um sín mál, en líka:

Það gæti verið gott að losna við veldið austan Úkraínu, þó svo það kosti, að Úkraína og löndin fyrir vestan og sunnan fari illa út úr þeim hildarleik, því það nógu mikið bras að glíma við lönd Asíu og Afríku, þó Evrópuvesenið sé ekki alltaf að hrjá og pirra og erta.

Hver sprengdi gaslagnirnar - það er efinn.

 


Í Ríkisútvarpinu á árum áður, byrjuðu fréttir oft á þann hátt að segja sem svo: Samkvæmt því sem rússneska fréttastofan Tass, norska NTB, breska BBC, bandaríska....o.s.frv.

Vitnað var í heimildir og fréttin síðan sögð.

Þá var mun erfiðara að afla upplýsinga en nú er og það að vitna í heimildirnar, losaði miðilinn við að bera ábyrgð á tíðindunum sem sagt var frá, að minnsta kosti að nokkru leyti.

Hér fylgir frásögn rússnesku fréttastofunnar TASS af skemmdarverki og afleiðingum þess.

Hvernig við verður brugðist getur farið eftir ýmsu.

Hafi skemmdarverkið verið unnið að undirlagi einhverra vestrænna stjórnvalda eða Úkraína, er óðs manns æði að leggja í þann leiðangur, að reyna að gera við lagnirnar og það sama má segja ef Rússar reynast gerendurnir, sem reyndar væri furðulegt miðað við hve mikilla hagsmuni þeir hafa af traustum rekstri gaslagnanna.

Sannist að þeir hafði framið skemmdarverkið, þá er augljóst að um ónýtanlegt mannvirki er að ræða, slíkir eru hagsmunir þeirra af viðskiptunum með gasið sem um lagnirnar fer.

Það er reyndar svo ótrúleg niðurstaða að engu tali tekur og óþarft að ræða þar til annað sannast!

Hin hliðin á málinu er hve berskjölduð mannvirki af þessu tagi eru gagnvart glæpaverkum og hvernig hægt er að verjast þeim.

Líklegast er það sem um fleira, að erfitt er og jafnvel útilokað að verjast óþverrahætti þeirra sem einskis svífast og hafa getu til að vinna verknað eins og þennan.

Það er síðan almenningur sem líður, á hann fellur reikningurinn, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu, hann greiðir fyrir og líður fyrir ,,syndir (lands)feðranna".

Eftir að hafa lokið þessari færslu rak á fjörur umfjöllun ZeroHedge um málið og því bæti ég þeim tengli hér inn.

Putinn, Biden, Kamala og fleira gott fólk.

 

2022-10-02 (5)Það er sunnudagsmorgunn og laugardagspistill frá ritstjórn Morgunblaðsins er tekinn er til lestrar, lipur og rennandi texti um málefni síðustu mánaða og reyndar ára.

Farið er yfir feril Putins og þróun Rússlands seinni árin og þar segir m.a.:

,,[...]við þess­ar snöggu umbreyt­ing­ar [frá sovéti og til kapítalisma] hugsuðu vel tengd­ir gróðapung­ar, ólig­ark­ar, sér gott til glóðar­inn­ar og sölsuðu und­ir sig drjúg­an hluta af rík­is­eig­un­um og fjár­mun­um um leið og alþjóðleg ein­ok­un­ar­fyr­ir­tæki, læsu klón­um í flest allt sem þau gátu."

Síðan segir frá því að Putin hafi komist hávaðalítið til valda og hvernig hann fékk Medvedev til að skipta úr forsetastóli - sem Putinn tók við með breyttum forsendum - en Medvedev unir nú ,,sæll og glaður" í öðrum lægri.

Skákin er rakin áfram og rétt er að mæla með að menn lesi greinina í heild, það verður enginn svikinn af því!

Rifjuð er upp rausn Bidens í garð Talibana, þ.e. þegar hann gaf þeim hergögn af nýjustu gerð er bandaríski herinn fór (flúði?) frá Afganistan.

2022-10-02 (4)Biden sleppur ekki við að vera nefndur aftur og það oftar en einu sinni og undrin sem upp úr honum og Kamelu renna eru metin að verðleikum svo sem sjá má:

,,Á fundi með fjölda manns til að fagna póli­tísku fram­lagi á þingi, þá nefndi hann fólk til sög­unn­ar sem hann vildi þakka sér­stak­lega. Þegar hann nefndi Jackie Wal­orski (þing­mann re­públi­kana) til sög­unn­ar og hún brást ekki við, þá sagðist hann vilja sjá hana og bað hana um að sýna sig. „Hvar er Wal­orski?“ spurði Biden for­seti. „Ég vil að hún stigi fram.“

Eng­inn af þess­um fjölda viðstaddra kunni við að segja að Wal­orski hefði lát­ist í hræðilegu um­ferðaslysi með fjór­um öðrum snemma í ág­úst s.l. Og eng­inn vildi held­ur nefna að Biden hefði sjálf­ur skrifað fjöl­skyld­unni bréf fyr­ir fá­ein­um vik­um og harmað at­b­urðinn og í fram­hald­inu hefði hann hringt í bróður þing­manns­ins til þess að votta hon­um samúð sína."

„Hvar er hún?“ spurði for­set­inn. „Á himn­um,“ svaraði ein­hver lágt, og þá náði ein­hver emb­ætt­ismaður­inn að beina at­hygli Bidens annað."

Og þegar Kamala var að virða fyrir sér landamæri Kóreuríkjanna fæddust þessi gullkorn:

,,„The United States shares a very import­ant relati­ons­hip, which is an alli­ance with the Repu­blic of North Kor­ea.“„It is an alli­ance that is strong and end­ur­ing.“"

Eftir að hafa greint frá þessu segir ritari greinarinnar:

,,Þótt ald­urs­mun­ur sé tölu­verður á milli for­set­ans og vara­for­set­ans er hún í harðri sam­keppni við for­set­ann um und­ur sem upp úr þeim renna."!

Lokaorðin eru síðan slík snilld að undirritaður kann ekki við að ræna þeim inn í þennan texta!

,,Það er vont en það venst"

 Biden hinn bandaríski telur sig geta dæmt, hótað, framkvæmt og spekúlerað.

Nei annars, það síðasta getur hann ekki og því er hann með aðra í því.

Hótað getur hann og komið hótunum í framkvæmd, því hann er með mannskap til þess.

Og dæmt getur hann, því það geta allir!

Hann hótaði varðandi gasleiðslurnar og það gekk fram sem hann hótaði og heimsbyggðin horfir upp á afleiðingarnar.

Getan er mikil til að gera illt og löngunin líka.

Hvort hann sér ,,mig sig" í Putin er ekki ólíklegt, en alls ekki víst að hugsunin nái svo langt.

Zelensky ,,vinur" hans vill komast í NATO strax, og með flýtimeðferð.

Hreint ekki útilokað að svo verði, því hinn grænklæddi garpur hefur lagt sig vel fram til að geta hlotnast hnossið.

Úkraína hefur verið nærð af vopnabúnaði, þjálfun og einstaka hugprúðum vestrænum riddurum, sem jafnvel hefur verið skilað til síns heima, af Kremlverjum eftir að ,,þjónustan" hefur leitt þá á þeirra fund.

Heimsbyggðin á að þrengja að Rússum samkvæmt óskum Bidens og ,,heimsbyggðin" svo langt sem hún nær í huga þess ágæta manns, virðist taka undir óskina.

Finnst kannski betra að vera ekki með óþægð við höndina sem gefur, þegar vel stendur á, en réttir fram krepptan hnefann ef svo ber undir.

Áður fyrr voru gengnar Keflavíkurgöngur göngugörpum til heilsubótar og fróunar.

Tilgangurinn var krefjast brottfarar bandarískra hermanna sem hýrast þurftu á Keflavíkurflugvelli. Mönnum sem voru þar langt frá sínum og sinni heimabyggð, en voru blessunarlega lausir við að þurfa að vera í Vietnam eða annarsstaðar á meðan þeir dvöldu á því vindbarna nesi.

Félagar þeirra sem féllu í Vietnamstríðinu, eða voru hnepptir í fangelsi hjá andstæðingi sínum, hefðu trúlega þegið að fá að dvelja á nesinu við ysta haf, hefði það verið í boði.

Göngugörpunum sem vildu dátana á brott, sást yfir að þeir voru ekki sendir frá landi sínu að eigin ósk og þó þeir hafi ekki tekið þátt í göngutúrunum, þá er eins líklegt að þeir hafi óskað hins sama og hinir gönguglöðu, að minnsta kosti til hálfs.

,,Það er vont en það venst" hefðu þeir eflaust getað tekið undir í útkjálkaverunni, en hefðu þeir verið sendir á blóðvöll tilgangsleysisins hefðu þeir trúlega tekið undir ,,það er vont en það versnar".

Hvað verður um hina herteknu og heimsendu úr Úkraínustríðinu vitum við ekki og þaðan af síður hvað þeir kyrjuðu, ef það var þá eitthvað.

Trúlega er samt skárra að vera kominn heim!


Kalt stríð

Í þeim hluta þessarar umfjöllunar The Guardian þar sem rætt er við danska utanríkisráðherrann kemur fram að menn huga að því að ekki sé rétt til framtíðar, að treysta á orku, olíu og gas, frá Rússlandi.

Að hver sé sjálfum sér næstur getur verið gott að hafa í huga og hefðu menn mátt hugsa til þess, svo dæmi sé tekið, þegar ákveðið var að slökkva á kjarnorkuverunum í þágu umhverfisins.

Að sama skapi hlýtur Rússum að vera orðið það ljóst að ekki er nokkurt vit í að gera ráð fyrir orkusölu til vestur- Evrópu, eigandi yfir höfði sér viðskiptaþvinganir og hernaðarstuðning þaðan, til ríkja sem þeir telja ógna öryggi sínu.

Í því sambandi má benda á að komnar eru fram nýjar, en samt gamlar upplýsingar, eða réttara sagt upprifjanir á viðtali við Biden þar sem hann lýsir því yfir, að ef Rússar ráðist inn í Úkraínu verði séð til þess að ekki verði neitt úr Nord Stream 2. Aðspurður um hvernig það verði gert svarar hann eitthvað á þá leið að til þess verði séð og að menn kunni ráð til þess.

 

Það er runnið upp, eða er að renna upp fyrir mönnum, að hugmyndir um að allar þjóðir geti verið vinir og geti leikið sér saman í sandkassanum án þess að kasta sandi hver framan í aðra, er tálsýn.

Það er svo komið að heimurinn er á hraðri leið til nýrra kaldastríðsára og hvenær hlýna mun upp fyrir frostmark úr því ástandi vitum við ekki.

Best er því að reikna með löngum frostakafla og aðlagast nýrri framtíð.

Kalt stríð

 Í þeim hluta þessarar umfjöllunar The Guardian þar sem rætt er við danska utanríkisráðherrann kemur fram að menn huga að því að ekki sé rétt til framtíðar, að treysta á orku, olíu og gas, frá Rússlandi.

Að hver sé sjálfum sér næstur getur verið gott að hafa í huga og hefðu menn mátt hugsa til þess, svo dæmi sé tekið, þegar ákveðið var að slökkva á kjarnorkuverunum í þágu umhverfisins.

Að sama skapi hlýtur Rússum að vera orðið það ljóst að ekki er nokkurt vit í að gera ráð fyrir orkusölu til vestur- Evrópu, eigandi yfir höfði sér viðskiptaþvinganir og hernaðarstuðning þaðan, til ríkja sem þeir telja ógna öryggi sínu.

Í því sambandi má benda á að komnar eru fram nýjar, en samt gamlar upplýsingar, eða réttara sagt upprifjanir á viðtali við Biden þar sem hann lýsir því yfir, að ef Rússar ráðist inn í Úkraínu verði séð til þess að ekki verði neitt úr Nord Stream 2. Aðspurður um hvernig það verði gert svarar hann eitthvað á þá leið að til þess verði séð og að menn kunni ráð til þess.

 

Það er runnið upp, eða er að renna upp fyrir mönnum, að hugmyndir um að allar þjóðir geti verið vinir og geti leikið sér saman í sandkassanum án þess að kasta sandi hver framan í aðra, er tálsýn.

Það er svo komið að heimurinn er á hraðri leið til nýrra kaldastríðsára og hvenær hlýna mun upp fyrir frostmark úr því ástandi vitum við ekki.

Best er því að reikna með löngum frostakafla og aðlagast nýrri framtíð.

Utanríkisráðherra fer til Úkraínu

  Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu. Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum m...